20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (3950)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson)[óyfirl.]:

Ég hygg, að hér séu sömu brtt. á ferðinni og felldar voru í Ed.

Ég heyrði ekki alla ræðu hv. 8. landsk., en þóttist heyra á niðurlagi hennar, að hann teldi, að tilgangur þessara laga væri sá, að láta þá, er fengju sérleyfi samkv. þeim, kaupa benzín hjá ákveðnum manni. Ég vil fastlega mælast til þess, að hv. 8. landsk. endurtaki þessi ummæli utan þings og reyni að standa við þau þar á réttum vettvangi, en sýni ekki þann ódrengskap og ómennsku, að slá hér fram rakalausum rógi í skjóli þinghelginnar.

Það fellur í minn hlut að úthluta sérleyfum þeim, sem hér ræðir um, og ég hefi gefið yfirlýsingar í Ed. um það, hvaða reglum ég muni fylgja við úthlutunina, og þær yfirlýsingar hafa verið teknar gildar. Ég lýsti yfir því, að ég teldi sjálfsagt að í höfuðdráttum yrði fylgt samskonar reglum um úthlutun þessara sérleyfa og um út- og innflutningsleyfi, að tekið væri tillit til þess, hvort menn hefðu áður haft flutninga á vissum leiðum, hvort þeir hefðu byrjað á þeim, og hve lengi þeir hefðu annazt þá, og yrði sérleyfunum úthlutað eftir þessum hlutföllum. Í frv. sjálfu er líka beint tekið fram, að þeir, sem haldið hafa uppi föstum áætlunarferðum á ákveðnum leiðum, skuli ganga fyrir um sérleyfi á sömu leiðum, að öðru jöfnu. Hinsvegar er alveg ófært að lögbinda, að veita skuli öllum, sem haldið hafa uppi slíkum ferðum á vissum leiðum, slík sérleyfi, án tillits til þess, hvort þeir hafa gert það um lengri eða skemmri tíma, og auk þess borgar sig ekki á mörgum leiðum að hafa þar jafnmarga vagna og nú eru þar, og verður því að veita sumum þeirra, er nú halda þar uppi mannflutningum, sérleyfi á öðrum leiðum. En reglan, sem fylgt verður, er sú, að úthluta sérleyfunum sem næst núv. hlutföllum.

Hitt er versta tegund af rógi, að með lögunum eigi að neyða menn til að kaupa benzín á vissum stað, og ég vil endurtaka áskorun mína til hv. 8. landsk. um að ítreka þau ummæli utan þings.