20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (3951)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég þarf litlu að bæta við ræðu hæstv. atvmrh. öðru en því, að hv. 8. landsk. virðist ekki skilja frv. Í 2. mgr. 1. gr. er talað um vörubifreiðar, sem setja „endrum og sinnum“ upp kassa til fólksflutninga, eins og vörubifreiðar hér í bænum gera oft á sumrum um helgar, til að geta flutt fólk út úr bænum gegn vægu verði. Til slíkra flutninga þarf ekkert sérleyfi. Þá er og tekið fram, að þær bifreiðar, sem flytja að staðaldri framleiðsluvörur bænda, falli ekki undir ákvæði l., þótt þær rúmi fleiri en 6 farþega, en bifreiðar, sem flytja færri farþega, falla aðeins undir hin almennu bifreiðalög. Yrði hinsvegar brtt. hv. 8. landsk. um það, að ekki þurfi sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum til skemmtiferða, samþ., væri það skipulag, sem hér er verið að reyna að byggja upp, eyðilagt, því að fara mætti kringum lögin á þann hátt, að kalla flest eða allt skemmtiferðir.

Hæstv. atvmrh. hefir sýnt fram á, hve sú brtt. hv. 8. landsk., að lögbinda skuli að veita öllum sérleyfi á sömu leiðum og þeir nú annast flutninga um, er fjarstæð, og þarf ég ekki að fara um hana frekari orðum. Ég legg til, að allar brtt. verði felldar, því að augljóst er, að ekki verður hægt að ljúka þessu frv. nema með afbrigðum, ef brtt. við það verða samþ., og ég hefi enga ástæðu til að treysta sjálfstæðismönnum í Ed. til að bregðast vel við í því efni, hverju sem þeir lofa.

Út af þeirri áskorun hv. 8. landsk., að ég hafi unnið að þessu frv. í skipulagsnefnd og á þingi í eiginhagsmunaskyni, vil ég segja það, að hann skal ódrengur og hvers manns níðingur heita, ef hann endurtekur ekki þau ummæli sín utan þings, svo að hann geti fengið atvinnu við að verja sitt eigið mál.