20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2810 í B-deild Alþingistíðinda. (3954)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þær hnippingar, sem orðið hafa milli hv. 2. þm. Reykv. og hv. 8. landsk. í þessu máli, en mér þykir rétt og drengilegt að segja það, að sá orðrómur, sem hv. 8. landsk. minntist á, er mjög almennur bæði utan þings og innan. Og ég get trúað því, að hv. 2. þm. Reykv. eigi einmitt sjálfur drýgstan þátt í því að gefa slíkum orðrómi byr með sínum takmarkalausa áróðri í málinu. Það er kannske út af fyrir sig ekki mikið við því að segja, þó hv. þm. sæki málið fast, en það er hinsvegar dálítið áberandi, hve hart hann sækir þetta mál, og því er ómögulegt að neita, lög þessi er hægt að nota þessum hv. þm. til framdráttar, og ég álít, að hv. 2. þm. Reykv. eigi að gera allt, sem í hans valdi stendur, til þess að hreinsa sig af þeim orðrómi, sem gengur um hann í sambandi við þetta mál. Og það vill svo vel til, að ég ætla að gefa honum tækifæri til þess, ég skal hjálpa honum til þess að hreinsa sig af þessum þungu ásökunum um að hann ætli sér með hjálp þessa frv. að reyna að skara eld að sinni köku. (HV: Ef hv. 8. landsk. gefur mér þetta tækifæri, þá er mér það nóg). Ég ætla að gefa hv. 2. þm. Reykv. tækifæri til þess að hrekja orðróminn, en ekki með því að endurtaka neitt utan þings, svo að hann fái tækifæri til þess að stefna mér, því með því móti getur hann ekki hreinsað sig. Ég ætla að gefa honum þetta tækifæri hér í þinginu. Þessi hv. þm. lét þau orð falla, að þekktur bílasali hér í Reykjavík hefði lofað Sjálfstfl. stuðningi, ef brtt. á þskj. 917 yrðu samþ. Þetta er tómt fleipur. En hæstv. atvmrh. var að tala um það — og vil ég leiða athygli að því — að í sambandi við hið nýja skipulag ætti að gæta þess, að breytingin gerði sem minnsta truflun á atvinnurekstri þeirra manna, sem haft hafa lífsframfærslu sína af fólksflutningum áður en frv. verður að l. Væri þetta veigamikið framkvæmdaratriði, sagði ráðh. Um þetta eru allir sammála . ég hefi ekki annað heyrt frá hv. 2. þm. Reykv. Í 9. gr. frv. er það beinlínis sagt, að þeir, sem hafi hingað til stundað þessa fólksflutninga, eigi að sitja fyrir þeim að öðru jöfnu. Um þetta erum við allir sammála, en hv. 8. landsk. telur, að þetta orðalag tryggi ekki fullkomlega það, sem meint er, og hefir þess vegna flutt við 9. gr. brtt. á þskj. 917 á þá leið, að félögum þeim eða einstaklingum, sem haft hafa þessa fólksflutninga, skuli veitt sérleyfi til þess að hafa þá framvegis. Hæstv. atvmrh. segist ekki geta sætt sig við þetta. Hvers vegna? Vegna þess, að það geti komið fyrir, að á vissum leiðum hafi fleiri félög eða einstaklingar haldið uppi fólksflutningaferðum undanfarið heldur en þörf hafi krafizt eða krefjist í framtíðinni. Þetta er rétt athugað hjá hæstv. ráðh., og get ég vel sætt mig við þá hugsun, að fleiri sérleyfi séu ekki veitt á ákveðnum leiðum en þörf krefur, en þeir, sem þegar hafa byrjað þessa fólksflutninga á ákveðnum leiðum, þurfa að sitja fyrir sérleyfunum, og það vil ég tryggja betur en gert er í frv. Ég mun því greiða atkv. með brtt. hv. 8. landsk. við 9. gr., þó með brtt., er ég ætla að bera fram við hana á þann hátt, að á eftir orðinu „skal“ komi orðin: eftir því sem henta þykir. Ætti þessi viðbót að tryggja það, að fleiri mönnum eða félögum verði ekki veitt sérleyfi en þörf krefur, en til þess að tryggja það, að sérleyfi verði fyrst og fremst veitt þeim, sem stundað hafa fólksflutninga sem atvinnu, vil ég flytja nýja brtt. við gr. — Ég vil biðja hæstv. forseta að reyna að lægja hávaðann í salnum, svo að hæstv. atvmrh. megi heyra mál mitt. Þessi brtt. mín er ný málsgr., svo hljóðandi:

„Hafi svo margir aðilar haldið uppi ferðum á ákveðnum leiðum, að ekki þyki hagkvæmt að veita þeim öllum sérleyfi til að halda áfram þeim atvinnurekstri, skal sá eða þeir aðilar ganga fyrir, sem lengst hafa haldið uppi ferðum á þeim leiðum, en hinir ganga fyrir um sérleyfi á nýjum leiðum, eftir því sem hægt er“.

Ég þykist með þessum brtt. mínum hafa bent á leið í þessu máli, sem gerir hvorttveggja í senn, að tryggja það, að fyrirkomulag fólksflutninganna verði betra, og hitt, að hreinsa hv. 2. þm. Reykv. af þeim leiðinlega orðrómi, sem um hann hefir kvisazt í sambandi við þetta mál. Einnig vil ég með þessum brtt. gefa hæstv. atvmrh. tækifæri til þess að sýna það, hve sterkan hug hann hefir á því að vilja vernda rétt og atvinnu þeirra, er nú stunda fólksflutninga, sem mest, án þess þó að veita fleiri sérleyfi en þörf krefur. Ég vil nú segja það, ef brtt. mínar verða samþ., þá skal ég mæla með því við mína flokksbræður í hv. Ed., að þeir synji ekki um afbrigði fyrir þetta mál, svo að það hafi tíma til þess að ná afgreiðslu. Ég segi mæla með, því ég get ekki lofað þessu, en ég mun afla mér vitneskju um það áður en atkvgr. fer fram hér í hv. d. um brtt. mínar, hvort tilmæli mín um að greiða fyrir frv. verði tekin til greina af flokksbræðrum mínum í hv. Ed. Ég get vel skilið það, að hv. flm. þessa frv. vilji ekki eiga það á hættu, að frv. dagi uppi fyrir það, að brtt. mínar yrðu samþ.