20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (3961)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var það, að ég þurfti að svara hæstv. forsrh. nokkrum orðum. Ég vona, að hann sé hér nærstaddur, svo að ég sé ekki ástæðu til að fresta því.

Hann reyndi að bera það af sér, að hann hefði hikað við að fara í mál við blöðin. Hann sagðist ekki hafa séð ástæðu til þess. En hví sá hann þá ástæðu til að láta sín blöð flytja þau ósannindi, að hann ætlaði að höfða mál, og hví leiðrétti hann þetta ekki a. m. k., ef þau ummæli voru ekki með hans vilja birt? En í desember 1932 lét hann einmitt Tímann flytja þann boðskap, að hann hefði gert ráðstafanir til málshöfðunar gegn þessum blöðum fyrir þær sakir, er þau höfðu á hann borið. Ef ég hefði viljað vera að þæfa hér í þingsalnum, hefði ég getað náð í þessi blöð og lesið upp úr þeim, en ég kæri mig ekki um það, enda mun flestum, sem á hafa hlustað, vera kunnugt, hverjar þær sakir voru.

Hæstv. ráðh. hvað það höfuðásökunina, að hann hefði verið í samsæri við kommúnista. Ég held, að það hafi ekki staðið í neinu blaði. En það þarf ekki miklu að breyta til þess að rétt verði. Það var staðhæft, að hann hefði verið í vitorði með sósíalistum um það að gera aðför að bæjarstjórn Reykjavíkur, til þess að kúga hana með ofbeldi til að breyta þeim samþykktum, er hún hafði gert. Og það var full ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh. að fara í mál út af þessum ásökunum. Það hefði átt að fyrirskipa honum að fara í mál. En með því að láta í veðri vaka, að hann ætlaði í mál, kom hann sér undan þeirri fyrirskipun. Hann sagðist ekki hafa séð ástæðu til að höfða mál. Ef svo er, þá er hann undarlega gerður. Sem lögreglustjóri hefir hann, ef hann hefði reynzt sannur að sök, brugðizt skyldu sinni svo geypilega, að hann hefði ekki átt að sitja í embætti stundinni lengur.

Hæstv. ráðh. minntist á, að ég hefði á sínum tíma fengið samþykkt Alþingis fyrir því, að ég mætti höfða mál á hendur Jóni Magnússyni fyrir hönd blaðsins Vísis, vegna þeirra ummæla hans, að það væri saurblað. Ég held, að hann skilji ekki, að eftir að Jón Magnússon hafði beitt sér fyrir því, að slíkt leyfi yrði veitt, fannst mér ég ekki geta höfðað málið. Ég veit, að mér er ekki til neins að reyna að koma honum í skilning um þetta, ef hann skilur það ekki af sjálfsdáðum. Ef hv. 8. landsk. beitti sér fyrir því, að hv. 2. þm. Reykv. fengi að höfða mál á hendur honum fyrir ummæli, er hann hefir um hann haft, þá býst ég ekki við, að hv. 2. þm. Reykv. myndi gera það, ef ég dæmi út frá sjálfum mér. Ef ráðh. skilur þetta ekki án útskýringar, þá treysti ég mér ekki til að gera honum það skiljanlegt. En okkar skapferli er svo ólíkt, að það, sem mér finnst eðlilegt, kann honum að finnast óeðlilegt. Forsrh.: Vandræðaleg vörn!). Ég get skilið, að þeir, sem eiga engan drengskap eða sómatilfinningu, eigi erfitt með að grípa þessi rök. (Forseti hringir). Ég hefi ekki sagt, að hæstv. ráðh. ætti ekki til sómatilfinningu eða drengskap, heldur ekki, að hann skilji ekki afstöðu mína. Hann læzt víst ekki skilja hana. Veit ég, að hæstv. forseti vitir ekki þessi ummæli mín.

Hæstv. forsrh. sagðist aldrei hafa farið í meiðyrðamál. Ég man það nú ekki fyrir víst. En hitt veit ég, að hann hefir haft tilefni og tækifæri til þess, og er eðlilegt, að það rifjist upp fyrir manni í sambandi við þessar umr. hér.