20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2821 í B-deild Alþingistíðinda. (3963)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er til of mikils ætlazt að gera ráð fyrir, að hæstv. forsrh. skilji, að ég undraðist viðkvæmni hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. atvmrh. með tilliti til þess, hvernig þeir höfðu um búið, þegar hv. 2. þm. Reykv. var sakaður um að blanda stjórnmálum inn í eiginhagsmuni sína. Ég benti á, hvernig hann hefði einmitt gert þetta. Ég benti á ásakanir, sem þessir tveir hv. þm. hefðu orðið fyrir á öðrum vettvangi án þess að sýna slíka viðkvæmni, og ég bætti hæstv. forsrh. í hópinn. Þeir voru þá ekki eins viðkvæmir fyrir sínum góða málstað og mannorði. Ef þeir væru alveg flekklausir, ef ekki væri hægt að sýna fram á, að þeir hefðu misbeitt stöðum sínum, þá væri ekki að undrast, þótt þeir væru nú viðkvæmir. En að menn með þeirra dagfari skuli vera svona hvimpnir, það undrar mig.

Um afstöðu mína til málssóknarinnar, eftir að Jón Magnússon var búinn að þvinga það fram, að flokksmenn hans greiddu atkv. með heimild til málshöfðunar, þó að ég væri þá búinn að taka það fram, að ég myndi ekki fara í mál — um það hefi ég þegar sagt, að ég geri mér enga von um, að hæstv. forsrh. geti skilið það. Hann talaði um háskólann. Hann hefir víst verið þar þá. Hefir hann líklega ekki skilið þetta mál betur þá en nú. Hann var á sínum háskóladögum þekktastur sem íþróttamaður. Honum óaði ekki við því að beita hvers kyns brögðum í sinni íþrótt og kveinkaði sér ekki við því að níðast á þeim, sem minni máttar voru. Gæti ég sagt af því ýmsar sögur, ekki aðeins úr sögu hans sem íþróttamanns, heldur líka sem lögreglustj. (Forsrh.: Vill ekki hv. þm. segja frá því?). Ég skal gera það, fyrst hæstv. ráðh. óskar þess.

Þegar hann var lögreglustjóri, átti hann sæti í fátækran. Rvíkur. Eftir fund varð hann samferða manni niður stigann frá bæjarskrifstofunum, og áttu þeir orðakast á leiðinni. Reyndi hann þá að hrinda manninum niður stigann. Síðan fóru þeir upp á skrifstofu lögreglustjóra, og þar tók þáv. lögreglustjóri utan um kverkarnar á manninum og barði höfði hans við vegginn. (Forsrh.: Ég vil biðja hv. þm. að nefna þennan mann). Viðkomandi maður hefir ekki beðið mig þess, og því nefni ég engin nöfn. Aftur hefir hæstv. ráðh. skorað á mig að segja þessa sögu. Og hann veit, að þetta er satt. (Forsrh.: Það er haugalygi). Hæstv. ráðh. gat ekki sagt, að það væri lygi, sem ég sagði áðan, að hann hefði lýst yfir því, að hann ætlaði í mál við dagblöðin, en hann hefði vafalaust sagt það, ef hann hefði getað.

Hæstv. ráðh. talaði um, að ég hefði áðan verið með glósur í hans garð. Hvaða glósur? Hafi ég verið með glósur til hans, fór ég svo með þær, að það þurfti mikið næmi til að finna þær, ef þær hefðu ekki átt við rök að styðjast.