20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2822 í B-deild Alþingistíðinda. (3965)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Ólafur Thors:

Eftir þær upplýsingar, sem fram eru komnar, þykir mér ráðlegra að deila ekki mjög á hæstv. forsrh., því að það eru harðir veggirnir hérna.

Þegar hæstv. ráðh. segir, að þeir, sem lesa umr. þær, er hér hafa verið fluttar, í Alþt., muni hugsa með sér, að þarna geti ekki talað maður með öllum mjalla, þá þykist ég vita, að hann eigi við, að bændum þyki ekki líklegt, að forsrh. þeirra standi úti á miðju gólfi í þingsalnum og æpi haugalygi“.

Út af aths., sem hér kom fram í tilefni af brtt. minni, vil ég undirstrika orð hæstv. atvmrh., sem kvaðst vera sammála öllu, sem ég hefði sagt um málið, og taldi tilgang minn með brtt. í alla staði réttmætan. Ef brtt. mín skyldi verða felld, vil ég undirstrika, að hæstv. atvmrh. hefir þó gefið yfirlýsingu þess efnis, að hann, sem fer þarna með framkvæmdarvaldið, muni beita því svo, að ef um ræðir fleiri aðila, sem fara með fólksflutninga, en hann telur rétt að gefa sérleyfi til þess, þá muni hann velja og hafna eftir grundvallarreglu minnar brtt., sem er sú, að þeir njóti forréttindanna, sem lengst hafa stundað þennan atvinnurekstur. Þessi yfirlýsing held ég, að gefið geti sæmilegt öryggi í þessum efnum. Ég segi sæmilegt öryggi. Ekki af því, að ég væni hæstv. ráðh. um, að hann muni bregðast, heldur af því, að það eitt er víst, að hans nýtur ekki við að eilífu. En þegar hann er farinn, standa l. eftir óbreytt. En ég vildi með brtt. minni tryggja, að þá yrði réttur þessara manna ekki fyrir borð borinn. Við viljum báðir réttlæti í þessu efni. Er það því ekki á rökum byggt, þegar sagt er, að mín till. sé ekki til bóta. Hún er til bóta, því að hún tryggir betur en yfirlýsing hæstv. ráðh. það, sem við teljum báðir nauðsynlegt, að tryggt sé.

Hitt er misskilningur hjá hæstv. ráðh., er hann slær því fram að lítt athuguðu máli, að mín till. skerði rétt manna frá því, sem er í frv. Er það af því, að hann hefir aðeins litið á fyrra hluta brtt. minnar. En sú brtt. fer fram á, að þau félög eða einstaklingar, sem lengst hafi haldið uppi ferðum á ákveðnum leiðum, skuli halda þeim áfram. Ég viðurkenni, að ef till. væri ekki lengri, þá væri það rétt hjá hæstv. forsrh., að hún drægi úr réttindum aðila í þessum efnum. En mín till. nær lengra, því hún segir skýrt og ákveðið: „Hafi svo margir aðilar haldið uppi ferðum á ákveðnum leiðum, að ekki þyki hagkvæmt að veita þeim öllum sérleyfi til að halda áfram þeim atvinnurekstri, skal sá eða þeir aðilar ganga fyrir, sem lengst hafa haldið uppi ferðum á þeim leiðum, en hinir ganga fyrir um sérleyfi á nýjum leiðum, eftir því sem hægt er.“ Ég vil biðja hæstv. forsrh. að athuga, að það er ekki á valdi atvmrh. að velja eftir geðþótta, ef mín till. verður samþ. Geðþótta hans er þar stakkur sniðinn, sá stakkur, að þeir aðilar gangi fyrir, sem lengst hafa haldið uppi ferðum á ákveðnum leiðum. Ég viðurkenni, að eftir skýringum hv. 3. þm. Reykv. er fyrir hendi sá möguleiki að samræma þörf almennings og réttlætiskröfur atvinnurekenda, án þess að breyta till. hv. 8. landsk. Sá möguleiki liggur í því, að ef fleiri aðilar eiga hlut að máli en þörf almennings krefur, þá er hægt, ef til vill undir öllum kringumstæðum, að veita þeim sérleyfi, en fækka þá bifreiðum hvers einstaks, en hver og einn verður að uppfylla það skilyrði, að hann hafi haldið fleiri en eina bifreið. Ég er ánægður, ef mín brtt. verður samþ. og ég vona, að hv. 8. landsk. sé það líka. — Ég hefi þá að því er ég held lokið að ræða efnishlið málsins. En út af árásunum á hv. 8. landsk. vegna ummæla hans í garð hv. 2. þm. Reykv., skal ég bæta því við það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að mér finnst sjálfum, að þessar árásir séu að mörgu leyti óréttmætar. Hv. 8. landsk. er ekki sá eini, sem hefir látið þessi ummæli falla, því það eru líka aðrir, og það jafnvel úr öðrum flokki en Sjálfstfl., sem hafa talið rétt að gera hv. 2. þm. Reykv. aðvart um þetta, og það áður en hv. 8. landsk. lét þessi ummæli falla. Hv. 2. þm. Reykv. var sjálfur búinn að heyra þessi ummæli utanþings og veit, að þau eru á margra vörum, og að það er ekki hv. 8: landsk., sem fyrst hefir látið þessi ummæli falla í hans eyru.

Hv. 2. þm. Reykv. var með þau ummæli, að ég bæri fram mína till. til þess að bæta í hans garð vegna ummæla hv. 8. landsk. Ég ber fram mína till. málefnisins vegna, en gef jafnframt hv. 2. þm. Reykv. aðstöðu til þess að hreinsa sig af því ámæli, sem á hann er borið. Því ef hann samþ. till. mína, þá sýnir hann, að hann hefir vilja á því, að l. rúmi ekki möguleika til þess að þeim sé misbeitt til hagsmuna fyrir hann sem benzínsala. Till. er fyrst og fremst flutt málefnisins vegna, eins og ég hefi gert grein fyrir, og til þess að vernda svo sem auðið er rétt atvinnurekenda, sem hafa haft lífsframfæri sitt af því að halda uppi fólksflutningum með bifreiðum hér á landi. En um það, hvort sérstök ástæða er til þess að láta hv. 8. landsk. endurtaka ummæli sín utanþings, til þess að gefa hv. 2. þm. Reykv. aðstöðu til þess að láta hann sæta ábyrgð að l. þeirra vegna, er það að segja, að það gæti tekizt, þó ummælin væru sönn. En með þessu er ég þó ekki að segja, að þau séu sönn, því ég veit ekkert um það, þó að ég hafi heyrt þau víða að. Hér hafa oft í þessari hv. d. fallið ummæli, sem eru meiðandi fyrir einstaka þm., og ég hefi sjálfur sætt frá hv. 2. ,þm. Reykv. ummælum, sem ég hefði getað látið dæma ómerk, ef hann hefði viljað hlutast svo til, að mér tækist að leysa hann undan þinghelginni. En þetta hefi ég ekki gert, m. a. af því, að ég geri greinarmun á því, sem sagt er innan þinghelginnar, og því, sem sagt er á öðrum vettvangi. Ég viðurkenni, að það getur verið tilefni til þess að krefjast slíks, en það situr ekki á þm., sem sjálfur hefir gert sig sekan í þessum efnum, að vera með heilaga réttlætiskröfu.

Það eru aðeins þrír dagar síðan kveðinn var upp dómur í hæstarétti í meiðyrðamáli, sem ég höfðaði gegn utanþingsmanni. Og það, sem maðurinn hafði unnið til saka, var, að hann festi trúnað á illmæli, sem hv. 2. þm. Reykv. hafði um mig hér í þingsalnum. En af því að hv. 2. þm. Reykv. sagði þetta, þá hélt þessi maður, að ummælin væru sönn, og hafði þau eftir á prenti. Þennan mann dró ég til ábyrgðar vegna ummæla sem upphaflega runnu af vörum hv. 2. þm. Reykv. Í undirrétti var þessi maður dæmdur í 60 kr. málskostnað og 100 kr. sekt, en það má nú einu sinni ljúga af manni æruna fyrir 100 kr. En ég hugsaði honum þegjandi þörfina og fannst rétt, að hæstiréttur úrskurðaði þetta mál. En sakirnar sem þessi maður bar á mig, voru þær, að ég hefði gert samninga við Noreg í eiginhagsmunaskyni. En í hæstarétti fór því svo fjarri, að það sannaðist nokkuð í þessa átt, að það fannst ekki einn einasti hlutur í samningunum eða í framkvæmd þeirra þau tvö ár, sem þeir hafa gilt, sem benti í þessa átt, og það var ekki hið minnsta tilefni til þess að væna mig um þetta, og þessi vesalings maður, sem trúði hv. 2. þm. Reykv., var dæmdur í 300 kr. sekt og 300 kr. málskostnað. Þetta er óvenjulega harður dómur í meiðyrðamáli. En enginn sökudólgur hefir verið dæmdur í hærri sekt en ritstjóri Tímans, en hann var dæmdur í 600 kr. sekt, en það var fyrir ummæli, sem hann hafði eftir Jónasi Jónssyni, en síðar var sá maður gerður að dómsmrh., og náðaði hann svo ritstjórann. Mér finnst rétt að skýra frá þessu vegna árásarinnar á hv. 8. landsk.

Ég held að ég hafi gert skýra grein fyrir því, að mín brtt. fullnægi betur því réttlæti, sem ber að fullnægja og hæstv. atvmrh. viðurkennir, að eigi að fullnægja. Ég hefi boðið upp á það, ef till. mín verði samþ., að þá skuli ég reyna að tryggja aðstoð flokksbræðra minna í Ed. í því að málið dagi ekki uppi. Ég hefi beðið um yfirlýsingu um það, að mér verði veittur örstuttur frestur, svo að ég geti spurt flokksbræður mína, til þess að þessu tilboði geti fylgt örugg vissa. Ég hefi ekki fengið undirtektir undir þá ósk mína og óttast, að af því megi draga þá ályktun, að það sé tilgangur stjórnarliða að fella till. Ef brtt. verður felld, þá hvílir nokkur skuggi yfir afgreiðslu málsins, þar sem það er í almæli, að ákvæðum frv. verði beitt til framdráttar vissum aðilum, sem hafa beitt sér fastlega fyrir því, að frv. verði samþ. hér á hv. Alþ. En verði mín till. samþ. fyrir þeirra tilstilli, þá er þeim skugga af létt. Og úr því að hægt er að létta þessum skugga af, þá finnst mér, að rík skylda hvíli á mönnum að gera það. Ég vil beina þessu til hæstv. atvmrh., hv. 2. þm. Reykv., og ennfremur til hv. þm. Hafnf., og skal ég ekki leyna því, að í orðrómnum er hans nafn bendlað við málið, ekki þannig, að það eigi að vera honum til framdráttar, heldur sem skipulagsnefndarmaður í Rauðku og kannske sem væntanlegur póstmálastjóri, sem sé byrjaður að tala með herrans valdi á þessu sviði. Ég álít, að hann sé svo sanngjarn maður, að hann muni ljá mínu máli samþykki, því brtt. mín er mikil umbót á frv. (Varaforseti PZ: Ég vil minna hv. þm. á að halda sér við málið). Hæstv. forseti verður að viðurkenna, að ekkert tilefni er til þess að beina til mín þessum orðum, því að ég fór ekkert út fyrir málið frekar en umr. gáfu tilefni til.