20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2825 í B-deild Alþingistíðinda. (3966)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. tók til athugunar í ræðu sinni það, sem ég hafði sagt um hv. 2. þm. Reykv. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að hv. 2. þm. Reykv. væri mjög hygginn maður, og að allt starf hans mótaðist af óeigingirni, og að allar árásir á hann væru sprottnar af því, hvað hann væri dyggur málsvari alþýðunnar. Hann sagði, að það, að ég álíti, að starf hv. 2. þm. Reykv. mótaðist af eigingirni, bæri vott um, að ég væri sjálfur eigingjarn. Við erum auðvitað allir breyskir. En ákafi hv. 2. þm. Reykv. í þessu máli hefir vakið alveg sérstaka eftirtekt. Og ég fór að gera upp með sjálfum mér, hvað vekti fyrir þessum hv. þm. og hvernig stæði á því, að hann væri svona áhugasamur í þessu máli. Ég kom fram með ýmislegt í sambandi við málið, hvort það gæti verið þetta eða eitthvað annað, en það var í öllum tilfellum neitandi, vegna þess að ekki var hægt að bendla hv. 2. þm. Reykv. við málið að því leyti. En Olíuverzlun Íslands hefir verið blandað inn í málið, og hv. 2. þm. Reykv. er einn af aðalhluthöfunum þar og forstjóri hennar, og af því má álykta ýmislegt. Hæstv. atvmrh. segir, að hv. 2. þm. Reykv. starfi af áhuga, sem sprottinn sé af hreinu hjartalagi, og óeigingirnin móti líf hans, eins og það beri með sér, ef það er athugað nákvæmlega en ég játa, að það þarf nákvæma athugun til þess að sjá það. Er það afstaða hv. 2. þm. Reykv. gagnvart „Félagi sjálfstæðra verkamanna“, sem mótast af óeigingirni? En þar var barizt um það, að þeir fengju jafnrétti í Byggingarfélagi verkamanna. Ég verð, af því að ég vil ekki taka orð hæstv. atvmrh. öðruvísi en bókstaflega, að ganga inn á það, hvað hv. 2. þm; Reykv. er samvizkusamur og óeigingjarn, þegar hann gengur milli hv. þm. og hefir hótanir í frammi, ef þeir greiða ekki atkv. eins og honum líkar. Þetta stafar auðvitað eingöngu af hreinu hjartalagi, þar sem hann er að fylgja góðum málstað. Allt þetta sé ég nú, þegar hæsta. ráðh. lýsir því svona vel. En svo koma staðreyndirnar og segja annað. Þær skýra m. a. frá því, að tveir Hafnfirðingar hafa fengið loforð fyrir sérleyfi á ferðum milli Hafnarfjarðar og Rvíkur. (EmJ: Hverjir?). Ég get nefnt nöfn, en ég geri það ekki. Þessir menn verzluðu fram að 1. okt. við Shell, en síðan hafa þeir verzlað við Olíuverzlun Íslands. Þessir menn hafa ekki dregið dul á það, að þeir hafi fengið loforð fyrir sérleyfi, þegar menn skipta svona um allt í einu, þá getur maður margt hugsað. Þá get ég nefnt það, að maður á Akureyri hefir ekki dregið dul á það, að hann eigi að fá sérleyfi á ferðum milli Rvíkur og Akureyrar, Akureyrar og Dalvíkur og ennfremur milli Akureyrar og Húnavatnssýslu. Og í trausti þessa loforðs hefir hann fengið sér tvo nýja bíla, sem hann ætlar að nota í þessum ferðum. Þegar allt þetta er athugað, þá skilst það, að hv. 2. þm. Reykv. þarf ekki að stökkva upp á nef sér, þó viðhöfð séu um hann þau ummæli, sem ég hafði í dag. Í beinu áframhaldi af þessu hefir fjölda bílstjóra verið lofað ferðum, og allir verzla þeir við Olíuverzlun Íslands.

Í sambandi við það, hvort ég vilji endurtaka ummæli mín utan þings, skal ég skýra hv. 2. þm. Reykv. frá því, að ég mun gera það á sínum tíma, en fyrst ætla ég að láta staðreyndirnar sanna mál mitt, og ef hv. 2. þm. Reykv. æskir þess að höfða mál gegn mér, þá er opin leið fyrir hann að láta d. leyfa málshöfðunina. Ég get sannað með tugum vitna, að ákveðnum mönnum hefir verið lofað sérleyfum. Ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. verður að borga málskostnað, og mundi gleðja mig núna í dýrtíðinni að fá slíkt mál.

Þó að þessar umr. í dag hafi kannske ekki borið þann árangur, að till. verði samþ., þá vona ég, að þær hafi valdið því, að þeir, sem ekki hafa fengið að njóta jafnréttis, nái meira rétti hér eftir vegna óttans við almenningsálitið.