11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (3973)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Thors):

Það hafa nú allmargir hv. þm. talað síðan ég flutti frumræðu mína í þessu máli. Meðal þeirra er hv. þm. V.-Ísf., sem flutti merkilega ræðu um málið og gerði grein fyrir sinni afstöðu. Get ég tekið undir margt af því, sem hann sagði, og látið nægja að vísa til þess. Flokksbræður mínir hafa líka margir fært fram ýtarleg rök gegn frv., sem ég skal ekki fara að endurtaka hér. En hitt má öllum ljóst vera, að í máli sem þessu er bæði skylt og eðlilegt, að sjálfstæðismenn tefli fram öllum sínum rökum gegn þessu skaðræðisfrv. og mun ég því bæta nokkrum röksemdum við þær mörgu, sem þegar eru fram komnar.

Hv. frsm. minni hl. hefir gert tilraun til þess að sýna fram á það, að frv. væri á einhverju viti byggt. En þau rök hans hafa ekki fært mér neinar sannanir. Hann sagði, að Sjálfstæðisfl. hefði stundum vikið frá því „principi“ sínu, að vera á móti einkasölum. Ég hafði sagt, að Sjálfstfl. hefði stundum orðið að gera þetta af óumflýjanlegum eða utanaðkomandi ástæðum. En ég sagði, að þeim mun meiri skylda bæri flokknum til að gera þetta ekki að ástæðulausu, einkum þegar um væri að ræða svo stórfellda einkasölu sem hér og illa undirbúna. Hér er ekki einu sinni gerð tilraun til þess að skýra frá því, hvaða áhrif þetta frv., ef að l. verður, kann að hafa á hag ríkissjóðs og almennings, en þó er ráðherra gefið með því vald yfir lífsmöguleikum mörg hundruð manna í landinu, vald, sem ég a. m. k. treysti ekki hlutaðeigandi ráðherra til að fara rétt með og beita svo vel fari.

Ég sýndi fram á, að þó að Sjálfstæðisfl. hefði vikið frá stefnu sinni á þessu sviði þjóðmálanna, þá væru þar í hverju tilfelli sérstök rök fyrir hendi, sem á engan hátt lægju til þess, að flokkurinn hefði ástæðu til að ganga inn á þetta frv., sem hér er nú til umr.

Hv. þm. fann sýnilega til þess, að hér er teflt á tæpasta vað, þar sem verið er að ásælast rétt þessara manna, án þess að gerð sé tilraun til að gera grein fyrir afleiðingum frv., þeim sem áður eru greindar. Hann vildi fyrir sitt leyti afsaka afstöðu sína til þessa máls með því loforði, að hann skyldi mælast til þess við stj., að hún notaði enga heimild l. án þess að rannsaka, hverjar teg. þessarar einkasölu væru þess eðlis, að verzlunarrekstur á því gæti aflað ríkissjóði tekna, eða eins og hann orðaði það, að hann vildi, að ríkisstj. tæki ekki einkasölu á öðrum vörum en þeim, sem nánari rannsókn stj. leiddi í ljós, að hún teldi, að mundi færa ríkissjóði arð.

Það liggur nú í hlutarins eðli, að ef það vakir ekki eingöngu fyrir hv. flm. að drepa niður atvinnurekstur einstaklinganna, þá getur engin stj., hversu léleg sem hún annars er, hugsað er að hagnýta þessa heimild, nema rannsókn leiði það í ljós, að dómi stj., að um arð geti verið að ræða ríkissjóði til handa. Ég fyrir mitt leyti hefi nauðalitla trú á núv. hæstv. stj., en þær getsakir vil ég þó ekki gera henni, að hún fari að nauðsynjalausu að taka í hendur ríkisins verzlunarrekstur, sem hún veit, að ríkissjóði er skaði að hafa með höndum. Mér finnst satt að segja, að ummæli eins og þessi bendi til þess, að hv. flm. þessa frv. sé það ljóst, að það er eitthvað fleira en beinir hagsmunir ríkissjóðs, sem valda því, að málið er lagt fram hér á þingi. Og þá liggur nærri fyrir okkur stjórnarandstæðinga, sem vitum að stjórnarflokkarnir, a. m. k. þeir menn í þeim, sem þar ráða mestu, eru beinir fjandmenn einkafyrirtækjanna, — það liggur nærri fyrir okkur að álíta, að gefnu tilefni, að það, sem fyrir hv. flm. vaki, sé eingöngu það, að rífa niður einstaklingsframtakið.

Ég er satt að segja orðinn kaldur fyrir þessum sósíalista, að hagur einstaklingsins eigi að víkja fyrir hag almennings. Þetta er hægt að færa fram á kosningafundum, en hér í þinginu hefir það lítinn hljómgrunn, því að menn þekkja nú orðið þetta hismi, sem er verið að bera hér á borð. Að sjálfsögðu eru menn sammála um það yfirleitt, að það sé hagur alþjóðar, sem á að ráða mestu um afstöðu manna til mála, en hitt er ágreiningur um, með hverjum hætti alþjóð manna sé bezt borgið, og þar kemur fram höfuðágreiningur milli sósíalista og sjálfstæðismanna. Við vitum það, sem sósíalistar verða nú líka meira og minna að játa, þó að þeir hafi ekki hátt um það, að hagsmunum almennings er bezt borgið með því, að atvinnureksturinn sé ekki í höndum ríkisins, heldur einstaklinganna. Og þegar svo slíkar gamlar tuggur eru prýddar með fullyrðingum um það, að þetta séu ekki þungar búsifjar þeim til handa, sem hafa stundað þessa atvinnu, þó að þeir verði fórnarlömb á altari þessarar almenningsheillar, þá hlýtur hv. þm. þó að skilja, að jafnvel þó að atvinnulífinu kynni að einhverju leyti að verða betur borgið með því að rífa atvinnureksturinn úr höndum einstaklinganna og færa hann yfir á það opinbera, eru þetta þó þungar búsifjar í garð einmitt þeirra manna, sem fyrir því verða og atvinnuna missa. Það er enginn vafi á því, að þessum hv. þm. mundi finnast það þungar búsifjar, ef hann væri sviptur þeirri atvinnu, sem hann hefir sjálfur stundað. Hitt má vitanlega um deila, hvort eigi að veita einstaklingum þessar þungu búsifjar vegna almenningsheillar, en hér er því ekki til að dreifa, þó að sleppt sé almennum skoðanamun, sem er milli jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna í þessu efni, því að það er fullkomlega rökstudd staðhæfing, að það sé ekkert upplýst af bendi jafnaðarmanna og engin tilraun gerð til að upplýsa það, að hagsmunum heildarinnar sé betur borgið með því, að leggja þessar þungu búsifjar á þessa einstaklinga, sem nú bera skarðan hlut frá borði, ef þetta frv. verður lögfest.

Hv. frsm. minni hl. vék því að mér, að það væri rangmæli, sem ég sagði, að frv., þótt að lögum verði, rýri á nokkurn hátt tekjur bæjarfél. og þá fyrst og fremst tekjur þessa bæjarfél. Hann benti mér á það og hélt, að ég vissi það ekki, að í frv. væri ákvæði um það, að hlutaðeigandi bæjarfél. skyldi fá 30% af þeim arði, sem yrði af þessum atvinnurekstri. Nú hefir verið skýrt frá því við þessar umr., og mér vitanlega hefir það ekki verið véfengt, um 3—4 fél. hér í bæ, sem reka verzlun með eina af þeim aðalvöruteg., sem frv. fjallar um, og það liggja fyrir skjallegar sannanir um það, að í ríkissjóð og bæjarsjóð drjúpi um 80—90% af þeim arði, sem fél. hafa af þessum atvinnurekstri. Ég hefi ekki séð skýrslu þessa og fullyrði því ekkert um það, hve mikið af þessum feng bæjarfél. hefir fengið, en ég tel þó alveg víst, að það sé meira en helmingur, og þætti ekki ótrúlegt eftir þeirri arðskiptingu, sem er milli bæjarfél. og ríkisins á þessu sviði, að a. m. k. 50—60% fari til bæjarfél. Það er þá í fyrsta lagi munurinn á 60% og þeim 30%, sem frv. gerir fyrirheit um, og ég er sannfærður um, að sá arður, sem ríkið ætlar að gjalda 30% af, verður miklu minni en sá arður, sem einstaklingarnir hafa borið úr býtum af þessum atvinnurekstri og gjalda af 50—60%. Það er því óhögguð staðreynd, sem ég hefi haldið fram, að hér er verið að gera leik að því, að rýra verulega tekjustofna bæjarfél., samtímis því, sem skattalögin brjóta eina meginstoðina undan fjáröflunarmöguleikum bæjarfél. með nýrri og breyttri löggjöf.

Ég hjó í það, að hv. frsm. meiri hl. taldi, að það mundu ekki vera líkur til þess, að þessi löggjöf leiddi atvinnuleysi nema þá yfir örfáa menn. Hann á eftir að færa þeim orðum sínum stað. (StJSt: Frsm. meiri hl.?). Já, maður er nú svo óvanur að vera frsm. meiri hl., að það er engin von, að maður sé búinn að lifa sig inn í þá dýrðlegu rullu að vera frsm. meiri hl. og tala með því valdi, sem því fylgir, að vera meirihlutamaður!

Hv. frsm. minni hl. á eftir að leiða líkur að því, hvað þá að sanna það, að þessi löggjöf mundi ekki leiða atvinnuleysi yfir nema örfáa menn. En þó að hann vilji leyna þeirri staðreynd að af þessu frv. leiddi augsýnilega mikið atvinnutjón fyrir stóran hóp manna, ef að l. verður, þá tókst honum ekki að leyna hinu, að hér er verið að búa út jötur, sem á að raða á stjórnargæðingum eflir því sem tækifæri gefst til. Hann sagði, að það gæti orðið um einhverja tilfærslu á atvinnunni að ræða, það yrðu kannske ekki alveg sömu mennirnir og þeir, sem nú stunda þessa atvinnu, þeim mundi ekki fækka, en það mundi verða tilfærsla. Þarna erum við þá komnir að einum þættinum í þessu máli, og hann er sá, að það er verið að hrekja frá þessari atvinnu þá menn, sem hafa rekið hana af þekkingu og dugnaði og í skjóli ríkisvaldsins og þingmeirihlutans verið að koma þar að fáfróðum fylgispökum lýð, sem hefir góða lyst á því eldi, sem nú bíður hans. En hvort þetta er gert fyrir almenning, það er annað mál.

Það er engum vafa undirorpið, að sá verzlunarrekstur, sem hér um ræðir, a. m. k. að því er sumar þær vörur snertir, sem frv. fjallar um, er mjög vandasamur, og það er enginn efi á því, að almenningur á mikla hagsmuni undir því, að sú verzlun sé rekin af fagmönnum með fullkominni þekkingu. Og það er í þriðja lagi enginn vafi á því, að það er beinlínis augljós tilgangur þeirra, sem að þessu máli standa, að virða meira þörf hungraðra fylgispakra sálna en þekkingu, sem almenningur hefir mesta þörf fyrir. Einnig frá þessu sjónarmiði er þetta frv. skaðræðisgripur.

Ég hefi verið að hlusta á þessar umr. og hefi verið að leita að einhverjum sólskinsbletti í þessari auðn, en ég hefi ekki getað komið auga á neinn, bókstaflega ekkert, ekki eina einustu skynsamlega ástæðu fyrir flutningi þessa máls. En ég hefi komið auga á margt annað en skynsamlegar ástæður, sem gera mér skiljanlegt, hvers vegna þetta frv. er flutt, þ. á m. það tvennt, sem ég hefi drepið á, annarsvegar að útvega lífsframfæri fylgifiskum sínum, en hinsvegar að drepa niður einstaklingsframtakið. Ég hygg, að þetta tvennt eigi veigamikinn þátt í því, að þetta frv. er fram komið. En langt er seilzt til þess loflega tilgangs, þegar ekki er hikað við að fara fram á það, að þm. í fullkominni blindni fái einum ráðh. slíkt alræðisvald í hendur yfir framfærslumöguleikum borgaranna, og um leið færð yfir á ríkissjóð jafnveigamikil fjárhagsáhætta og af þessu frv. leiðir af margvíslegum ástæðum, sem áður hefir verið bent á, og jafnframt færður yfir allan almenning sá voði, sem af því leiðir, að þekkingarsnauðir menn veljist til að veita forstöðu þessum atvinnurekstri, í stað þeirra manna, sem fyrir langa lífsreynslu og góða hæfileika hafa aflað sér þeirrar þekkingar, sem mikil nauðsyn er fyrir til þess að geta rekið þessa verzlun svo vel, að sæmilega megi fara úr hendi. Það er langt seilzt til þessa. Og þó að mig undri margt, sem fram hefir komið á þessu þingi, þá er þó í rauninni ekki nema eitt frv., sem ég er meira undrandi yfir en því máli, sem hér er til umr., þ. e. a. s. frv. um fiskimálanefnd og einkasölu á saltfiski, og ég verð að játa, að þeim, sem þar eru að verki, hefir tekizt að skyggja á þá, sem bera þetta frv. fram, og hafði ég þó ekki trú á, að það væri auðvelt. Ég viðurkenni, að það frv. gengur enn lengra í óskammfeilni og ábyrgðarleysi en hér er gert, en það er af því, að þar er farið inn á svið, sem er ennþá viðkvæmara og ennþá meira er komið undir, að vel fari úr hendi, en nokkurntíma er um það mál, sem hér um ræðir, og er þetta þó engan veginn lítilfjörlegt mál.

Ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. minni hl. sjái og finni til þeirrar skyldu, sem hvílir á honum, að hann með sinni rökfimi leitist a. m. k. við að færa þó fram einhver rök til stuðnings þessu frv. Ég veit, að hann viðurkennir, að hann gerir enga tilraun til að gæta velsæmis hér á þingi, ef hann reynir ekki að hrekja neitt af því, sem sagt hefir verið gegn þessu frv. Geri hann tilraun til þess, þá lofa ég honum því, að við sjálfstæðismenn munum ekki telja það eftir okkur, að ganga svo frá því máli, að þar standi ekki steinn yfir steini. En þó að það sé svo, að ég viti fyrirfram, að sá leikur muni enda með því, að hv. frsm. minni hl. verði fullkomlega undir í þeirri viðureign, þá skal ég samt meta við hann viljann fyrir verkið, ef hann reynir það. Ég veit ekki, hvað langt hann getur komizt í því að verja rangan málstað, en ég veit, að hann hefir mikla reynslu í því, og ég hika ekki við að fullyrða, að sjaldan hefir verið meiri þörf fyrir það, að vondur skóli hafi kennt góðum manni eitthvað af þeirri list að verja rangan málstað en sú þörf, sem hv. 1. landsk. hefir á því, að sýna einhvern lit í þessu efni. Og ég get ekki neitað, að ég fyrir mitt leyfi hlakka beinlínis til að heyra, hvernig honum fer þetta vandasama starf úr hendi. Ég veit, að hver einasti þdm. bíður eftir að hlusta á það, hvernig þessi maður kemst úr þessum vanda. En um það erum við allir sammála, að reyni hann ekki að bera hönd fyrir höfuð sér í þessu máli, þá er það sú fullkomnasta uppgjöf, sem menn þekkja til á þessu þingi.