11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2567 í B-deild Alþingistíðinda. (3975)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Thors):

Ég veit það, að þingheimur, sem hlýddi á mína ræðu áðan, heyrði, að ég deildi á frsm. minni hl. n. Ég skoraði á hann að verja sig og sínar gerðir og gerðir samherja sinna í þessu máli. Ég deildi á hann fyrir það, að hér væri farið fram á, að hæstv. Alþ. tæki ákvörðun um, að ríkið tæki í sinar hendur viðskipti, sem árlega nema milljónum króna og að þetta væri gert á þann hátt, að hæstv. Alþ. afsalaði sér þeim skýlausa rétti, sem það á hverjum tíma hlýtur að eiga að hafa til þess að vita, hverra hagsmuna er von fyrir ríkissjóð af slíkum ráðstöfunum, og einnig, hver áhrif slíkar ráðstafanir hefðu á hagsmuni almennings.

Ég benti á, auk þeirrar skyldu, sem á Alþ. hvílir um að gera sér slíkt ljóst, áður en það tæki slíka ákvörðun, að ekki væri hér um sérstakan ákveðinn verzlunarrekstur að ræða, heldur heimild fyrir ráðh. til að ráða framtíðarmöguleikum margra borgara þjóðfélagsins, og að hæstv. Alþ. geti ekki veitt slíka heimild og þó haldið velsæmi sínu. Ég benti á, að þó að hv. Alþ. vissi ekkert um, hvorki eftir upplýsingum frá ráðh. né öðrum, hver áhrif þetta hefði á hag ríkissjóðs og almennings, þá væri það þó upplýst, að mikil og margvísleg áhætta væri lögð á ríkissjóð með ákvæðum frv., ef að 1. verða, þ. á m. sú áhætta, að gengis breyt., sem fyrir gætu komið, gætu skaðað svo stóran verzlunarrekstur. Ég benti á, að það væri sá meinbugur á þessu, að hætta væri á, að minni varfærni yrði sýnd um gjaldeyrisnotkun, þegar verzlun þessi væri í höndum ríkisins, og auk þess sá meinbugur, sem leiðir af því, að skipt væri á þekkingu og vanþekkingu í forstjórn verzlunarinnar. Ég bar það einnig á hv. frsm. minni hl., að hann hefði orðið ber að því að ljóstra því upp, að það vekti fyrir hv. flm. þessa máls að beita hlutdrægni í atvinnuveitingu við þennan atvinnurekstur, eftir að hann er tekinn úr höndum einstaklinga og færður yfir á ríkið. Ég bar það líka fram, að af frv. þessu mundi leiða atvinnuleysi, ef það yrði samþ. Ég fann vel, eins og allir aðrir hv. þdm., að þessum hv. þm. bar skylda til þess að standa upp og reyna að verja sig. Hv. 1. landsk. innti af hendi þá skyldu að standa upp, það verð ég að játa að hann gerði. En lengra gekk hann í raun og veru ekki í þeim efnum. Hann gerði tæplega tilraun til þess að þvo hendur sínar, hvað þá meira. Þetta ber vott um það, að hvort sem hv. þm. hefir vitað, hvað hér er á ferðinni, áður en þessar umr. hófust, eða ekki, þá hefir okkur lánazt að opna augu hans nú með okkar rökum. Hafi honum ekki verið ljóst áður, hvar hann var staddur, þá skilur hann þó nú, hvað hér er á ferðinni. Og um leið og ég bendi öðrum hv. þdm. á þá fullkomnu uppgjöf af hendi þessa hv. þm. um varnir í þessu máli, þá held ég, að ég verði samtímis að játa, að hann í þessu máli hafi sýnt hugarfar hins iðrandi syndara, þar sem hann hefir ekki gert tilraun til að verja sjálfan sig. Vilji nú þessi hv. þm. taka þeim eðlilegu afleiðingum af þessu, þ. e. a. s. þeim, að leggjast nú á sveif með okkur, sem viljum hindra framgang þessa máls, annaðhvort með því að greiða atkv. gegn því eða með því að eiga hlut í því, að það komi ekki oftar á dagskrá — vilji nú hv. þm. taka með öðru hvoru þessu afleiðingum af því hugarfari hins iðrandi manns, skal ég fyrir mitt leyti virða það við hann og telja hann mann að meiri fyrir. En nái þetta hugarfar ekki öðrum eða sterkari tökum á hv. þm. en svo, að hann skorti kjark og þrek til þess að verja sig, en hefir hinsvegar nægilegt blygðunarleysi til þess, eins og ýmsir aðrir hv. þm., að rétta upp sína hönd til samþykkis þessu óþrifamáli, þá finnst mér vegur hans í þessu máli verða svo lítill sem verða má. Ég óska hv. þm. svo góðs, að hann taki þeim einu eðlilegu afleiðingum af hinni þöglu játningu sinni, að eiga sinn hlut í því, að þetta mál komi ekki á dagskrá oftar.