24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (3988)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal verða við þeirri áskorun hæstv. forseta og hv. flm., að verða ekki langorður að þessu sinni. En ég vil þó ekki, að þetta mál fari til n. án þess að ég geri stutta aths. við það.

Eins og menn sjá, þá er farið fram á í till., að Akureyrarbær fái heimild til þess að leggja vörugjald á í bænum til bæjarþarfa, og að þessi heimild skuli notuð, ef niðurjöfnunarnefnd álítur, að ekki sé fært að jafna gjöldunum niður sem útsvörum.

Ég verð að segja, að þetta er mjög stórfellt mál, því að það grípur inn í eitt af þeim vandamálum, sem fyrir liggja, og það er að skipa þannig gjaldstofnum fyrir sveitar- og bæjarfélög, að sæmilega megi við una.

Ég verð nú að geta þess, að ég lít þannig á, að eftir núgildandi lögum um útsvör sé ekki skylt að miða alla útsvarsálagningu við tekjur og eignir.

Ég ætla ekki að fara út í neinar lögskýringar, en ég vil benda á, að svo að segja í öllum kaupstöðum og sveitum á landinu hefir útsvarsgreiðslan verið miðuð að einhverju leyti við annað en tekjur og eignir. Ég hygg, að eftir núgildandi lögum sé heimild fyrir þessari niðurjöfnun, sem hér um ræðir, að víkja frá því að leggja á öll gjöld til bæjarþarfa beint á tekjur og eignir. Frá því sjónarmiði hygg ég, að óþarft sé, að tillaga eins og þessi nái fram að ganga. En auk þessa vil ég taka það sérstaklega fram, að ef á að skipa þessum málum af hálfu Alþingis á einhvern annan hátt en þau nú eru, þá er hér um svo stórt mál að ræða, að frekari undirbúning þarf en nú hefir verið gerður. Í sambandi við það vil ég benda á, að ef þetta frv. verður samþ., þá er því þar með slegið föstu, að ef ekki er hægt að leggja alla skatta á sem beina skatta, þá á að leggja þá á sem vörugjald, En það er vitanlegt, að fleira getur komið til greina. T. d. getur það komið til greina, að sveitar- og bæjarfélög noti meira fasteignaskatt en nú er gert. Það er nokkuð algengt víða erlendis, sérstaklega í Englandi.

Þess vegna lít ég svo á, að þessi till. eigi ekki fram að ganga, og vil ég skjóta þessari aths. til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, en mun ekki gera það að umtalsefni mikið frekar við þessa umr.

Ég lít þannig á, að ef gefa á út sérstök fyrirmæli frá Alþingi um það, hvernig fara á að, ef niðurjöfnunarn. treystir sér ekki til að jafna útsvörum niður á tekjur og eignir, þá segi það til um, hvað mikið eigi að nota tekju- og eignarskattsálagninguna áður en gripið er til annara tekjustofna, en að það sé ekki á valdi hverrar niðurjöfnunarn. fyrir sig að skera úr um það, og ekki heldur á valdi atvmrh., eins og getið er um í frv.

Ég álít, að Akureyri geti bjargað sínum málum í þessu efni með álagningu útsvara eftir núgildandi útsvarslögum. En ef Alþ. á að fara að gefa út 1. um þetta efni, þá vil ég, að ákveðið sé, hve mikið bærinn skuli taka í tekju- og eignarskatti. áður en til annara ráða er tekið.