24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (3990)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég skal reyna að lengja ekki mjög þessar umr. — Ég er hræddur um, að það gæti nokkurs misskilnings hjá þeim hv. þdm., sem mælt hafa gegn þessu frv., og þá einkum hjá hæstv. fjmrh. Hann sagði, að niðurjöfnunarn. þurfi ekki að leita slíkra ráða sem hér er bent til, en að þeim sé auðvelt að komast aðrar leiðir, sem í flestum kaupstöðum hafi verið farnar undanfarið, og það sé að leggja á umsetningargjald. Mér er nú ekki ljóst, hver munur er á þessu tvennu. Hitt gjaldið, sem hér er farið fram á að leggja á vöruna, sem flutt er til eða frá kaupstaðnum, verður einskonur hundraðsgjald af vörum, sem fluttar eru inn til að selja þar á staðnum eða fluttar eru út til að seljast frá staðnum. Hvað er þetta annað en umsetningargjald af verzlun og fyrirtækjum? Mér finnst nákvæmlega sama útkoman, hvor leiðin sem farin yrði. Leið sú, sem frv. gerir ráð fyrir, er þó einfaldari.

Viðvíkjandi aths. hv. 2. þm. N.-M. virðist mér, að hann hefði átt að taka til andsvara fyrr gegn þessari stefnu hæstv. ráðh., að vilja velta útsvörum af hreinum tekjum og eignum og yfir á atvinnurekstur eftir því, hve hann er fyrirferðarmikill, því að auðvitað er slíkum útsvörum velt yfir á viðskiptamenn, og þá auðvitað líka á þá viðskiptamenn verzlana í kaupstöðum, sem heima eiga utan kaupstaðanna. Þetta gildir alveg eins um umsetningargjald.

Mér er það ljóst, að þessir menn hafa ekki hugsað gaumgæfilegar um þessi mál en svo, að þeir virðast reka í vörðurnar og ekki vita, hvað þeir eigu til bragðs að taka, þegar farið er að útfæra þeirra eigin kenningar með öðrum hætti en þeir hafa sjálfir gert. En ég vil benda þeim á, að þetta mál á að ganga í gegnum þrjár umr. í báðum deildum, svo að þeim gefst vonandi tækifæri til að athuga málið í ró og næði, svo að þeir þurfi ekki að hlaupa svo á sig aftur eins og þeir nú hafa gert.