24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (3996)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Páll Þorbjörnsson:

Ég vil byrja á að mæla á móti því, sem hv. þm. Vestm. sagði, að þetta gjald sé hæst á ónauðsynlegum vörum, en lægst á nauðsynjavörum. Það er rétt hjá honum, að þetta hefir nokkuð verið flokkað, en misjafnt er álit um þá flokkun. Þrátt fyrir það, þó nokkur munur sé á því, sem þeir kalla nauðsynjavörur og ónauðsynlegar vörur, kemur mikið misræmi fram í þessu, af því að gjaldið er lagt á eftir þunga vörunnar, og er það því lagt á á skökkum grundvelli.

Ég vil nefna í þessu sambandi dæmi, sem ég þekki. Vörusending kom til Vestmannaeyja, sem var grænsápa og smjörlíki og kostaði 268 kr. Af þessari sendingu þurfti að greiða 4.25 kr. í bæjarsjóð og hafnarsjóð. Önnur sending kom einnig, skófatnaður, og var verðmæti hennar ca. 1800.00 kr. Af henni þurfti að borga 3.90 kr. í hafnarsjóð og bæjarsjóð. Ef þetta á að vera til þess að sanna, að gjaldið sé hátt á ónauðsynlegum vörum, en lágt á nauðsynjavörum, þá veit ég ekki, hvað sannanir eru.

Viðkomandi því, hvernig þetta fyrirkomulag hafi reynzt í Vestmannaeyjum, vil ég segja það, að það reynist illa, þegar mikið gjald leggst á beinar nauðsynjavörur, en lítið á þær vörur, sem verzlanir yfir höfuð leggja mikið á og í mörgum tilfellum er hægt að vera án. En vitanlega er þetta gjald öruggara í innheimtu en útsvörin, því að engin vara fæst afgreidd út úr afgreiðslunum fyrr en gjaldið er greitt.

En að verkamönnum í Vestmannaeyjum hafi fundizt kassinn fyllri síðan þetta gjald var lagt á, því mótmæli ég. Þessu til sönnunar skal ég geta þess, að ég talaði við Vestmannaeyjar laust eftir kl. 1 í dag, og var mér sagt, að verkamenn í atvinnubótavinnu þar væru í þann veginn að leggja niður vinnu, vegna þess að þeir fá ekki útborgað. Viðvíkjandi því, að Vestmannaeyingar séu fylgjandi þessu gjaldi, skal ég geta þess, að fylgismenn þessa hv. þm. (JJós) stóðu mjög höllum fæti á borgarafundi, sem haldinn var í Vestmannaeyjum, þar sem rætt var um þetta gjald, og ennfremur skal ég gefa þess, að einn bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna varð til þess að halda ræðu á móti því, en greiddi þó atkv. með því, þegar flokksstjórnin kom til og sagði honum, hvað hann ætti að gera.