24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (3999)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Jóhann Jósefsson:

Mér finnst mjög athugavert það, sem fram hefir komið í ræðum hv. 6. landsk. og hv. 7. landsk. Það er áreiðanlega mikið alvörumál bæjar- og sveitarfélaga, hvaða leið þau eiga að finna til þess að innheimta þau gjöld, sem þau þurfa á að halda. Þessi rödd hefir nú verið heyrð hvað Vestmannaeyjar snertir, en það virðist öðruvísi tekið í þetta mál hvað Akureyri snertir. En hvort sem horfið verður að þessu eða öðru, þá er það víst, að ekki er hægt að halda áfram að leggja á gjöld, sem ekki fást innheimt. Löggjöfin má ekki heldur losa stór verzlunarfyrirtæki undan lögboðnum sköttum.

Að því er snertir hv. 3. landsk. og söguburð hans úr Eyjum, þá virðist það vera hans hlutverk að ófrægja það bæjarfélag, sem hann hefir nú um stundarsakir tekið sér bólfestu í. Mér gefst kannske við 2. umr. tækifæri til þess að gefa upplýsingar um það, hvað mikið satt er í því, sem hann segir úr Vestmannaeyjum. Það hefir hingað til ekki komið fyrir, að menn hafi hlaupið úr vinnu í Vestmannaeyjum. Miklu frekar hafa menn sótzt eftir að fá vinnuna.

Dæmi hv. þm. um þessar tvær vörutegundir segir aðeins, að hann vill verðtoll, en ekki vörutoll. Og ef það er svo, þá þarf ekki að vera mikill ágreiningur milli okkar í þeim efnum. Í öðru orðinu sagði hann, að vörutollurinn í Vestmannaeyjum kæmi eingöngu niður á nauðsynjavöru, en síðar í ræðu sinni sagði hann, að hann kæmi þó lítið eitt niður á ónauðsynlegri vöru. Það er nú annars svo lítið, sem Vestmannaeyjar fá á þennan hátt, að það er óþarfi að gera það að umtalsefni. Það er gert ráð fyrir, að það séu um 30 þús., sem fást á þennan hátt, svo að það tekur því varla að rægja bæjarfélagið þess vegna.