29.11.1934
Neðri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (4005)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

4 af 5 nm. fjhn. hafa orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþ., með þeirri breyt. þó, að lögin gildi aðeins til ársloka 1935. Eins og kunnugt er, hefir slík heimild þegar verið gefin fyrir Vestmannaeyjakaupstað, og gildir sú heimild til ársloka 1935. Þess vegna er breyt. á frv. miðuð við þetta, og líka, við hitt, að mikið hefir verið um það talað, að nauðsynlegt væri að sjá bæjar- og sveitarfélögum fyrir einhverjum gjaldstofni, til þess að tryggja tekjuöflun þeirra, og það hefir verið látið í veðri vaka, að nauðsynlegt sé, að undinn verði bráður bugur að þessu. Þess vegna er þess að vænta, í sambandi við þetta frv., að það verði gert svo snemma, að ekki komi að sök, þótt þessar heimildir falli úr gildi í árslok 1935. Verði þetta hins vegar ekki gert, er möguleiki fyrir því, að það hafi í för með sér framlengingu á heimildinni frá ári til árs.

Meiri hl. n. hefir ekki séð sér fært annað en að verða við þessum tilmælum, þar sem hann fellst fullkomlega á það, að mjög þrengir að fjárhag einstakra bæjar- og sveitarfélaga um þessar mundir, ekki sízt bæjarfélaga, þar sem auk venjulegra útgjalda á þessu ári bætast við aukaútgjöld vegna atvinnuleysisins, og þeirri þörf verður að sjá borgið á einhvern hátt.

Í sjálfu sér hygg ég, að allir nm. geti verið sammála hv. 1. landsk. um það, að þessi leið, sem hér hefir verið farið inn á, sé ekki sem heppilegust. En hinsvegar hefir hv. þm. ekki bent á neina aðra leið til þess að bæta úr þeirri þörf, sem hér er fyrir hendi. En meiri hl. telur ekki fært að láta þar við sitja, að synja um þessar heimildir, án þess að benda á einhverja úrlausn í staðinn. Hann verður að fallast á þá skoðun, að það sé skylda hv. Alþ. að sjá bæjarfélögunum fyrir einhverjum tekjustofni, með tilliti til þeirra örðugleika, sem að steðja.

Ég vona, að ekki þurfi að vera langar umr. um þetta mál, því að ég hygg, að þorri hv. þdm. geti fallizt á, að þessi heimild verði veitt.

Mér er kunnugt um það, að frá ýmsum öðrum bæjarfélögum hafa komið svipuð tilmæli og þau, sem hér er um að ræða. Mér er óhætt að lýsa því yfir f. h. n., að hún muni vera fús til þess að taka þau tilmæli til athugunar til 3. umr., en hinsvegar geri ég ráð fyrir, að hv. þm. þeirra kjördæma, sem hér eiga hlut að máli, muni bera fram óskir kjósenda sinna, sem þeir hafa, lagt fyrir þetta þing.

Meiri hl. er sem sagt fús til þess að taka þessar málaleitanir til greina og bera jafnvel fram brtt. þessu viðvíkjandi við 3. umr.