29.11.1934
Neðri deild: 48. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (4006)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Frsm. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram, er ég einn í minni hl. n., sem um þetta frv. hefir fjallað. Ég hefi gert grein fyrir minni afstöðu í nál. á þskj. 601, og mun ég því ekki endurtaka það, sem þar stendur. Ég vil aðeins benda á það, að mér finnst þessi leið svo óheppileg, að hv. Alþ. verði að huga, sig um, áður en það leggur langt inn á þá braut að veita bæjarfélögum heimild til að auka tekjur sínar á þennan hátt, sem hér um ræðir. Eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram og viðurkenndi, eru svo miklar annmarkar á þessari tekjuöflunarleið, að ég get ekki léð því lið mitt að lagaheimild verði gefin í þessu efni, hvorki fyrir Akureyri né aðra kaupstaði. Hinsvegar er það að vísu rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að mjög mikið hefir borið á því upp á síðkastið, og fer stöðugt vaxandi, að bæjar- og sveitarfélög hefir tilfinnanlega skort tekjustofn til þess að geta staðið straum af útgjöldunum. Það horfir vissulega sumstaðar til vandræða í þessum efnum. En leiðirnar út úr þessum ógöngum eru tvær. Væri ef til vill hugsanlegt, að báðar væru farnar að einhverju leyti. Önnur er sú, sem hv. 3. þm. Reykv. drap á: að afla bæjar- og sveitarfélögum nýrra tekjustofna, en hin er sú, að reyna að létta að einhverju leyti þeim gjöldum af, sem þyngst þjaka bæjar- og sveitarfélögin, en það er tvímælalaust fátækraframfærið, sem mest mæðir á framfærsluhéruðunum. Ég hygg, að bezta ráðið til þess að létta undir með framfærsluhéruðunum sé að semja löggjöf um rýmkun í þessu efni. Ég vona, að á næsta ári takist að afgreiða hér á hv. Alþ. tryggingarlöggjöf, alþýðutryggingar, og nýja framfærslulöggjöf, sem hefir það í för með sér, að útgjöld margra kaupstaða lækka við það. Þetta er von, sem mikil líkindi eru á, að verði uppfyllt, og þess vegna ætti að benda bæjarfélögunum, sem leitað hafa til hv. Alþ. af áður nefndum ástæðum, á þetta.

Ég er þeirrar skoðunar, að þó hv. Alþ. daufheyrist við óskum Akureyrar og Siglufjarðar um aukna tekjuöflun á þann hátt, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og líka eins og ein grein í hafnarlagafrv. Siglufjarðar hefir að geyma, þá myndu þessir kaupstaðir ekki eiga örðugra með að rísa undir sínum gjaldabyrðum næsta ár heldur en sumir aðrir kaupstaðir, sem ekki hafa farið þess á leit við hv. Alþ., að gripið væri til þessa neyðarúrræðis, sem þetta frv. hefir inni að halda.

Það er hreint og beint háskalegt, að sama Alþ., sem afnemur toll eða útflutningsgjald t. d. af landbúnaðarafurðum, skuli um leið ætla að samþ. löggjöf, sem hefir í för með sér aukin útflutningsgjöld af áðurgreindum vörutegundum.

Ég skal játa það, að í hafnarreglugerð Akureyrar um vörugjöld er þeim gjöldum mjög stillt í hóf, og þau eru lægri en t. d. í Vestmannaeyjum, enda hafa hækkuð vörugjöld í Vestmannaeyjum komið mjög tilfinnanlega niður á nauðsynja- og neyzluvörum almennings. En þótt vörugjöld á Akureyri séu ekki mjög há, þá er það samt hjákátlegt, að hv. Alþ. skuli, um leið og það ákveður, að ekkert útflutningsgjald þurfi að greiða af landbúnaðarafurðum, samþykkja, að greiða skuli útflutningsgjald af kjöti, sem flutt er frá Akureyri. Það er að vísu aðeins 15 aur. á hverja tunnu, því að gjaldið er eins og í hafnarlögunum, og bætast þá 15 aur. við. Þetta gjald nær meira en til Akureyringa einna. Það nær líka til þeirra, sem í nærsveitunum búa og hafa viðskipti við Akureyri. Þannig væri þá Akureyri aflað tekna af gjaldi af landbúnaðarafurðum í Eyjafjarðarsýslu. Mun þeim hv. þm., sem sérstaklega telja sig fulltrúa fyrir sveitir og bændakjördæmi Íslands, finnast þessi gjöld nokkuð hörð aðgöngu, enda kom það fram í ræðu hv. 2. þm. N.-M.

Einnig er lagt talsvert tilfinnanlegt gjald á nauðsynjavörur til útgerðarinnar, svo sem kol og salt. Eftir hafnarreglugerð Akureyrar er lagt 1 kr. gjald á hverja smálest, en ef heimildin er notuð til þess ýtrasta, bætist við 1 kr. enn á hverja smálest af kolum og salti. Mönnum finnst þetta e. t. v. vera lágt gjald, en eftir þeim upplýsingum, sem gefnar hafa verið í þessari hv. deild um afkomu sjávarútvegsins yfirleitt, virðist það ekki vera ráðlegt að auka þau gjöld, sem hvíla á þeim vörum, sem óhjákvæmilegar eru til rekstrar sjávarútveginum yfirleitt. Vil ég þess vegna mæla á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga, og á þessu þingi tel ég, að ætti að stöðva þá gátt, sem opnuð var á síðasta Alþ. með heimildinni til Vestmannaeyja.

Ég vil benda þessari hv. deild á það, að ef þetta frv. verður samþ., þá er örðugt að ganga framhjá 10. gr. hafnarlagafrv. Siglufjarðarkaupstaðar, sem nú liggur fyrir hv. efri deild. Hækkun hafnargjalda á Siglufirði mun gera það að verkum, að veruleg úflutningsgjöld verði lögð á afurðir síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði, og er það í raun og veru beinn tekjumissir fyrir ríkissjóð. Í sjálfu sér er eðlilegt, að síldarverksmiðjurnar greiði eitthvað til Siglufjarðarkaupstaðar, þó það sé harla hæpið að veita Siglufjarðarkaupstað heimild til þess að skattleggja afurðir verksmiðjanna.

Ég tel óheppilegt, að hv. Alþ. leggi inn á þessa braut óréttlátrar skattastefnu, sem felst í þessu frv., heldur væri réttlátara að láta þessa bæi á næsta ári glíma við að sjá sér farborða með þeim tekjuöflunarleiðum, sem heimilaðar eru með landslögum.

Ég skal ekki um það segja, hvort Akureyri hefir notfært sér útsvarsheimildina á þá leið, sem aðrir bæir hafa þurft að gera til þess að standa straum af útgjöldum sínum. Akureyri er ekki vandara um í því efni en öðrum bæjum. Það er ekki ástæða til þess að veita Akureyri eða Siglufirði nein sérstök fríðindi fram yfir aðra bæi, t. d. Hafnarfjörð, Ísafjörð, Neskaupstað og jafnvel Reykjavík. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, til hvers það leiddi, ef allir kaupstaðir fengju sömu heimild eins og í frv. þessu felst. Ef tekjuöflun þessi yrði notuð í Reykjavíkurkaupstað, þá yrði það um leið skortur á vörum, sem notaðar eru af meiri hluta landsmanna, því að það er kunnara en frá þurfi að segja, að í gegnum Rvíkurhöfn eru fluttar vörur til meiri hluta landsbúa, til alls Suðurlandsundirlendisins og margra hafna víða úti um land. Ef gengið er inn þessa braut, þá er stefnt til talsverðra vandræða og tekin upp skaftamálastefna, sem er mjög óheppileg og óréttlát.

Hitt vildi ég, að allir hv. alþm. hefðu í huga, að nauðsynlegt er að leysa úr þeim vandræðum, sem kaupstaðir og sveitarfélög eiga við að stríðu út af lögboðnum útgjöldum, en ég fyrir mitt leyti bendi á aðra leið heldur en þetta frv. hefir inni að halda. Hefi ég bent á þá leið, að lækka útgjöldin með því móti að draga úr framfærslukostnaði þessara héraða með lögfestingu á alþýðutryggingum og nýrri framfærslulöggjöf, og einnig vildi ég fyrir mitt leyti styðja að nýrri löggjöf um öflun tekna til bæjar- og sveitarfélaga, t. d. með fasteignaskatti eða öðrum réttlátum leiðum.