30.11.1934
Neðri deild: 49. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (4010)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Jónas Guðmundsson:

Ég get verið stuttorður, því að ég hefi í aðalatriðum sömu skoðun á þessu máli og hv. síðasti ræðumaður. Ég mun greiða atkv. á móti frv. í trausti þess, að á næsta þingi, sem væntanlega verður háð síðar í vetur, verði sett löggjöf um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga. En verði frv. samþ. við þessa umr., mun ég flytja brtt. um, að heimildin nái til kaupstaðanna allra. Það nær engri átt að mismuna kaupstöðunum í þessu efni. Vestmannaeyjakaupstaður hefir nú þegar þessa heimild, og ef þetta frv. verður samþ. og sömuleiðis frv. vegna Siglufjarðar, sem einnig liggur fyrir, þá fengju 3 kaupstaðirnir af 8 þessi sérstöku hlunnindi um tekjustofna, og væru þá hinir 5 settir skör lægra, en það nær engri átt að gera þannig upp á milli kaupstaðanna.