04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (4013)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Páll Zóphóníasson:

Þegar þetta mál var til 1. umr., hreyfði ég því, að varhugavert væri að gefa bæjum heimild til þess að velta af sér nokkru af útsvörum yfir á menn, sem væru búsettir í öðrum sveitarfélögum. En það virðist eiga að gera með þessu frv. Ég mæltist til þess, að þetta atriði yrði sérstaklega athugað í nefnd. Þetta hefir nú ekki verið gert — því miður.

Það er gert ráð fyrir því í frv. að leggja á sérstakt vörugjald, er nemi allt að tvöföldu vörugjaldi til Akureyrarhafnar, til þess að standa straum af útgjöldum kaupstaðarins. Mér hefir talizt svo til, að hafnargjöld á Akureyri hafi undanfarin ár verið 30—40 þús. kr. Það, sem hér er um að ræða, væri því 60—80 þús. Öll útsvör bæjarins eru um 280 þús. Þetta vörugjald nemur því hvorki meira né minna en kringum 1/4 hluta af útsvörunum, sem þá yrði almennt gjald, sem hvíldi jafnt á notendum vörunnar, hvort sem þeir eru búsettir á Akureyri eða annarsstaðar. Það mun ekki vera fjarri lagi, að það sé a. m. k. helmingur af þessari upphæð, það er að segja 30—40 þúsund krónur, sem með þessu er leyft að velta af gjaldendum bæjarins yfir á gjaldendur í öðrum sveitarfélögum. Þetta tel ég rangt. Þar að auki er með þessu ekkert tillit tekið til efna og ástæðna, heldur lagt jafnt á menn, hvernig sem þeir eru stæðir. Þess vegna er líka rangt að samþ. þetta frv., a. m. k. frá sjónarmiði þeirra, sem líta svo á, að þeir, sem hafa miklar tekjur og eignir, eigi fyrst og fremst að borga bæjarþarfirnar. — Það er svipað, sem farið er fram á með þessu frv., eins og þegar Reykjavíkurbær fleygir af sér útgjöldum yfir á þá, sem nota gas og rafmagn, og nokkur hluti ágóðans af þessum stofnunum — nú 15% — er látinn renna í bæjarsjóð. Þessari stefnu er ég mótfallinn; ég vil láta þá borga, sem getuna hafa, en ekki hina, sem safna verða skuldum til að draga fram lífið. En þó álít ég hitt ennþá varhugaverðara, að gefa þessu bæjarfélagi heimild til þess að velta af sér 30—40 þús. kr. yfir á gjaldendur í öðrum sveitarfélögum, sem þurfa að standa undir sínum gjöldum þar og alls ekki eiga að borga útsvör til Akureyrar. Ég vil því ákveðið vona, að frumvarpið verði fellt.