11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (4028)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég er hræddur um, að þetta frv. sé flutt af nokkrum misskilningi, af þeim misskilningi, sem byggist á 5. gr. þessara l., sérstaklega að því er snertir frystihús, sem búið er að reisa. Eins og tekið er fram í þessari gr. laganna, nær heimild ríkisstj. til allra frystihúsa, en það er ekki tekið fram, að hún nái aðeins til þeirra frystihúsa, sem þegar er búið að reisa, eða verður búið að byggja, þegar l. ganga í gildi. En það hefði verið gert, ef til þess hefði verið ætlazt, að styrkurinn gengi eingöngu til frystihúsa, sem þegar er búið að byggja. Í meðferð málsins á þingi. þegar þessi l. voru sett, er tekið fram, að þessi styrkveiting sé ekki annað en hliðstæða styrkveitinga til rjómabúa. Og frystihúsin koma undir sama rétt og rjómabúin. Þetta er augljóst mál, sem ekki ætti að þurfa að deila um. Fjárveiting til frystihúsa nær einnig til frystihúsa, sem reist verða eftir þennan tíma.

Mér er kunnugt um eitt kaupfélag, sem hefir í huga að koma upp frystihúsi og hefir fengið loforð eða a. m. k. ádrátt um að njóta þess, styrks, sem l. ákveða. Eigi frv. því að halda áfram, tel ég það óþarfa, ef til vill til hins verra, þar sem það er bundið við frystihús, sem reist eru til árslok, 1935.

Það á að draga úr styrkveitingunni frá því, sem nú er ætlazt til. Ef það reynist svo, að löggjöfin verði óskýr í þessu efni, þá vil ég láta það koma fram í brtt., svo að hún nái því marki, sem hún stefnir að, og þeim tilgangi, sem fólginn er í því, að þessari gr. er bætt í frv. á þingi 1933. Í upphafi er ekki gert ráð fyrir þessu í frv. Þess vegna má ef til vill segja, að þessi gr. sé í ósamræmi við fyrirsögnina, sem talar um ráðstafanir vegna fjárkreppu.

Þótt ekki eigi annarsstaðar betur við að koma þessu fram, þá vil ég mælast til þess, að hv. flm. taki frv. aftur, þar sem ég efast ekki um, að hann flytji það í góðum tilgangi, en ekki til þess að rýra ákvæði l. um þetta efni. Gangi frv. til n., þá flyt ég brtt. um það.