11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (4033)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég tók ekki eftir því hjá hv. flm., hvort það er meiningin hjá honum með þessu frv. að takmarka réttindi frystihúsa til styrks úr ríkissjóði frá því, sem lögin ákveða, eða hvort tilgangurinn er sá, sem mér virtist í upphafi, að veita þeim rétt, sem hann álítur, að þau hafi ekki haft áður með l. sjálfum. Annaðhvort hlýtur að vaka fyrir honum. Og ef á að rýra ákvæði lagranna gagnvart frystihúsum, þá skil ég ekki, hver tilgangurinn er með því. Því að það er vitanlegt, eins og hann tók fram, að ýms félög eiga enn eftir að byggja frystihús til þess að auka möguleika sína til að koma framleiðsluvörum sínum í betra verð en nú er.

Ég vonast til þess, að hv. flm. fallist á, að ef breyta á þessum l., verði þær breyt. látnar miða að þeim tilgangi einum, sem l. sjálf hafa og þau augsýnileg, bera með sér, þó að eitthvað sé reynt að teygja þau og toga út í vafasaman skilning. Ég treysti því, að hann vilji búa svo um hnúta, að ekki verði um deilt, að félög bænda hafi rétt á styrkveitingu frá ríkissjóði, ekki einungis árið 193á, heldur og framvegis, alveg á sama hátt og rjómabúin hafa nú þegar. Því að styrkréttindi þeirra eru ekki bundin við neitt sérstakt tímabil.