02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (4040)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Gísli Guðmundsson:

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta frv., sem fyrir liggur til 2. umr., sökum þess að ég er flm. þess, og sökum þess að um það hafa orðið nokkrar umr. í þá átt, að það væri að tilefnislausu fram borið. Vil ég sýna fram á, að það umtal byggist á því, að menn hafa ekki kynnt sér málið nægilega; sérstaklega beini ég því til hv. þm. A.-Húnv. En til þess að það verði ljóst, verð ég að fara nokkrum orðum um afgreiðslu málsins á þingi 1933 í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Ég get strax tekið það fram, að frv. er flutt aðallega vegna áskorana frá mönnum í mínu kjördæmi, sem ætla sér að koma upp frystihúsi, en telja ekki tryggt, að þeir geti orðið þess styrks aðnjótandi samkv. löggjöfinni frá 1933, sem önnur frystihús hafa notið. Þegar ég fór að athuga lögin nánar, virtist mér augljóst, að hér gæti a. m. k. verið um allmikinn vafa að ræða, og taldi ég mér skylt að sjá um, að enginn vafi gæti á því leikið, að þau frystihús, sem byggð verða eftirleiðis, njóti sama styrks og þau, sem þegar hafa verið byggð. Við l. umr. gerði ég grein fyrir, hvað óréttmætt væri, að þau héruð, sem hingað til hafa setið að hinum slæma saltkjötsmarkaði, fengju ekki sama stuðning til þess að koma upp frystihúsi eins og veittur hefir verið áður; ætla ég ekki frekar út í það.

Nú er það svo, þegar um lagaákvæði er að ræða, sem ekki er fullkomlega víst, hvernig skilja ber, að þá er athuguð sú meðferð, sem málin hafa fengið í þinginu, og ef til úrskurðar dómstólanna kemur, fara þeir mjög eftir því, sem fram hefir komið hjá flm., n. og öðrum, sem taka þátt í umr. í þinginu. Því var mitt fyrsta verk, þegar ég fór að athuga þetta mál, að kynna mér, hvaða meðferð það fékk á þinginu 1933. Að vísu fylgdist ég þá allmikið með gangi mála á þingi sem áheyrandi, en til frekari fullvissu hefi ég rannsakað Alþt. Skal ég nú skýra hv. þd. frá því, sem fram kom við meðferð málsins, og vona ég að það nægi til að kveða niður umtal einstakra hv. þm. um þetta frumvarp.

Þegar l. um ýmsar ráðstafanir vegna fjárkreppunnar voru til meðferðar í þinginu, voru þau ásamt l. um Kreppulánasjóð til athugunar í sérstakri n., sem kölluð var kreppunefnd. Og það var einmitt þessi kreppun., sem bar fram þá brtt. við frv. til l. um ýmsar ráðstafanir vegna fjárkreppunnar, að greiddur skyldi styrkur til frystihúsa, sem næmi 1/4 stofnkostnaðar. Þetta var upphaflega þannig til komið, að hv. fyrrv. þm. N.-Þ. hafði vakið máls á því í d., að ekki væri sanngjarnt að hita mjólkurbúin njóta þessa styrks, nema frystihúsin fengju hann líka. Þessa aths. tók kreppun. til greina og bar fram áðurnefnda tillögu.

Frsm. kreppun. var fyrrv. þm. Str., Tryggvi Þórhallsson. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta. lesa upp, hvað hann segir, að kreppun. eigi við með því að bera fram þessa till. um framlag til frystihúsa. Hann segir hér, í B-deild Alþt. frá 1933, 2220. dálki:

„Það felst í brtt., að bætt sé inn í frv. nýrri grein um, að stjórninni sé heimilt að veita til frystihúsa styrk, er nemi allt að 1/4 stofnkostnaðar, til lækkunar á skuldum frystihúsanna. Það kom fram hjá hv. þm. N.-Þ. í sambandi við annað mál, að réttmætt væri að styrkja þau héruð, sem hafa komið sér upp frystihúsum. Flest þessi frystihús starfa aðeins stuttan tíma ársins. Rjómabúum hefir verið veittur 1/4 af stofnkostnaði, en frystihúsin hafa ekkert fengið. Þó hafa kjötafurðir fallið enn meira en mjólkurafurðir. N. vill því leggja til, að stj. heimilist að greiða frystihúsunum 14 af stofnkostnaði, þó ekki til að veita þangað nýju fjármagni, heldur til að létta skuldabyrðar frystihúsanna. Þessi styrkur mun nema alls um 300 þús. kr.“

Þegur þess er gætt, að það er frsm. kreppun., sem talar, þá getur ekki leikið nokkur vafi á því, hvað n. hefir meint, þ. e. að þessi styrkur skyldi aðeins greiddur til þeirra frystihúsa, sem búið væri að reisa. Frsm. segir, að styrkur þessi eigi ekki að veita nýju fjármagni til frystihúsanna, heldur létta skuldabyrðar þeirra. Upphæðin á að nema 300 þús. kr. Hann gefur á eftir yfirlit um fé það, sem þegar hefir verið lagt í byggingu frystihúsa, og stenzt það, að 300 þús. kr. er mjög nálægt því að vera 1/4 af þeirri upphæð. — Eins og málið lá fyrir, urðu ákvæðin ekki skilin öðruvísi en svo, að styrkurinn skyldi aðeins greiðast til frystihúsa, er þegar hefðu verið reist. Lögfræðingar, er hér eiga sæti, samsinna því líka, að þessi skilningur sé réttur. Var því ekki um annað að ræða fyrir mig en að bera fram brtt., til að tryggja, að ákvæðin yrðu skilin eins og ég óskaði.

Hv. landbn. hefir nú haft frv. mitt til meðferðar, og hefir hún orðið ásátt um, að sá skilningur skuli lagður í l., að þau nái einnig til frystihúsa, er reist verði hér eftir. Tel ég, að þessi yfirlýsing hv. landbn., ef samþ. verður í dagskrárformi, nægi til að festa þann skilning, sem þar er lagður í 1., og taka af öll tvímæli, ef ekki koma mótmæli frá hæstv. stj. gegn þessum skilningi. Því get ég, ef ekki koma fram mótmæli, sætt mig við skilning landbn. og greitt dagskrártill. hennar atkvæði. En ég vildi aðeins taka þetta fram til að sýna, að ummæli þeirra, sem segja, að ekki hafi verið þörf á að bera fram þetta frv., byggist á því, að þeir hafa ekki kynnt sér málið.