02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (4043)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Gísli Guðmundsson:

Það er rétt hjá hv. þm. V.-Húnv. og hv. frsm. landbn., að ástæðulaust er að hafa mörg orð um málið, þar sem þeir, sem talað hafa, eru sammála um þann skilning, er leggja beri í l. Ég vil undirstrika það, sem ég sagði áðan, að ræða frsm. kreppun. á s. l. þingi gefur ótvíræðan vitnisburð um, hvað fyrir honum vakti í þessu efni og eins n. Hann segir þar, að ekki sé til þess ætlazt með styrknum, að nýju fjármagni sé veitt til frystihúsanna, heldur sé það tilætlunin að taka yfir á ríkissjóð nokkuð af þeim kostnaði, sem eigendur frystihúsunna hafa komizt í við stofnun þeirra. Þar sem síðan er tekið fram, að þessi styrkur megi nema alls 300 þús. kr., er enginn vafi um það, hvernig hann hefir skilið l., því að þessi upphæð er einmitt 1/4 af stofnkostnaði þeirra frystihúsa, sem þá voru til. Annað mál er það, að l. mátti skilja á tvo vegu. Vildi ég ekki eiga á hættu, að svo yrði framvegis, og bar ég því fram þetta frv.

Ég hefði greitt atkv. með brtt. hv. þm. V.-Húnv., ef hún hefði komið til atkv. En ég fór ekki lengra í frv. mínu en það, að takmarka styrkinn við árslok 1935, því að það gat komið til mála, að þessu yrði breytt aftur innan skamms. Maður veit aldrei, hvenær koma kunna nýjar breytingar í þessum efnum, og fór ég því ekki fram á meira en að styrkurinn yrði framlengdur um næsta ár.