02.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (4053)

46. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Gísli Guðmundsson:

Ég þarf ekki að svara hv. þm. Snæf. mörgu. Það er alveg rétt, að ég hefi ekki skilið lögfræðinginn eftir heima, af því ég er ekki lögfræðingur, en ég vil benda honum á það, að ég er kunnugur lögfræðingum og get því aflað mér vitneskju um skilning á gildandi lögum.

Út af því, sem hv. 8. landsk. sagði, þá hefir hv. frsm. gengið svo gersamlega frá honum, að ekki þarf að moka meira á hann. Þær tölur, sem hann fór með, voru auðvitað út í loftið. Það er alveg út í loftið t. d., ef ég færi að tala um okurálagningu á kaffi, og tilfærði aðeins verðið á kaffi hér, en gæti komið með það verð, sem brazilísku framleiðendurnir fá fyrir kaffið. Þannig fór fyrir hv. 8. landsk. Hann nefndi tölur um kostnað á frystingu síldar alveg út í loftið, því hann gat ekki tilfært, hver kostnaðurinn var við hvern lið. Hann fór út, og segist hafa fundið mann frá Ólafsfirði og fengið hjá honum tölur. Það sýnir, að hann hefir þótzt standa illa að vígi. En þær tölur sýna aðeins, að það er sitthvað að frysta síld fyrir aðra eða kaupa síldina, frysta hana og geyma og selja síðan öðrum. Ég er enginn sérfræðingur frekar en hann um frystingu síldar, en hann hefir ekki frekar en ég vit á þessum hlutum. Viðvíkjandi helgislepju gagnvart samvinnunni, sem hann var að tala um, hefi ég lítið að segja. Hann var að tala um, að ég vildi helzt, að menn tækju ofan, er þeir kæmu niður í Sambandshús. Ég verð að segja það, að ég ætlast til, að hv. 8. landsk. taki ofan þegar hann kemur niður í Sambandshús, af því ég ætlast yfirleitt til, að hann sé svo kurteis að taka ofan þegar hann kemur inn í hús.