13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (4065)

122. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Í n. hefir orðið samkomulag um afgreiðslu málsins. Að vísu vorum við 2 flm. þeirrar skoðunar, að bezt væri að afgr. frv. eins og það liggur fyrir. En við höfum þó ekki viljað láta n. klofna á þessu atriði, þar sem aðalatriðinu má ná á annan hátt, sem sé með þeirri rökst. dagskrá, sem n. ber fram. N. hefir orðið sammála um, að óþarft sé að greiða sjóðstj. á næsta ári jafnmikið fé og áður, og sérstaklega sé óþarft, að aðalbankastjóri Búnaðarbankans hafi þessa miklu þóknun fyrir aukastarf sitt þar. Við hefðum álitið réttast að fela stjórn Búnaðarbankans sjóðsstjórnina frá næstu áramótum, en höfum þó orðið sammála um að leggja til, að núv. fyrirkomulag haldist til áramóta 1935—36, meðal annars af því, að stjórnendurnir hafi verið skipaðir til tveggja ára af fyrrv. ráðh., Þorsteini Briem. Þykir sumum óviðkunnanlegt að hrófla við þessu.

Um það, að minna starfs megi vænta af stjórn Kreppulánasjóðs á næsta ári en áður hefir verið, liggur fyrir vottorð sjóðstj. sjálfrar. Af 2800 lánbeiðnum, sem borizt hafa, hafa þegar verið afgreiddar 2000, en synjað hefir verið eða líkur eru til, að synjað verði um 300 lánbeiðnir. Eru þá eftir óafgreiddar um 500 lánbeiðnir, og eru líkur til, að þær sé hægt að afgreiða fyrir áramót að mestu leyti. Höfum við því lagt til, að málið verði afgr. með svo hljóðandi rökst. dagskrá: [Sjá þskj. 367].