13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (4066)

122. mál, Kreppulánasjóður

Guðbrandur Ísberg:

Ég hefi skrifað undir nál. landbn. með fyrirvara. Ég er því samþykkur, svo framarlega sem það er rétt, að störfum Kreppulánasjóðs sé að verða lokið, að athuga beri, hvort ekki er hægt að spara laun sjóðstj., sérstaklega aðalbankastjóra Búnaðarbankans, sem hefir mikil laun fyrir. Held ég, að ekki sé ástæða til að greiða þessum manni fyllstu embættislaun að auki.

Minn fyrirvari miðast aðallega við það, að í stj. Kreppulánasjóðs er einn maður, sem unnið hefir þetta sem aðalstarf og hefir ekkert aukastarf á höndum. Miðað við laun, sem menn hafa í sambærilegum stöðum, virðast laun hans ekki sérstaklega há.

Þegar ég gekk inn á að afgreiða þetta mál þannig, sem hér liggur fyrir, gerði ég það í trausti þess, að sá maður yrði ekki færður niður í launum, meðan hans ráðningartími stendur. Það væri brigðmælgi gagnvart honum.