13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (4073)

122. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég vil leggja það til við þm. G.-K., að næst þegar hann tekur til máls, lesi hann áður um það mál, sem hann ætlar að tala um, svo ekki komi fyrir það sama og nú, að hann mælir með rökst. dagskr. gangandi út frá, að í henni standi allt annað en er. Í henni er gert ráð fyrir, að landb.ráðh. geri þessar ráðstafanir um næstu áramót. En í lok ræðu sinnar, er hann hefir lesið dagskrána, tekur hann allt aftur, sem hann sagði í fyrri hlutanum.

Hann tekur fram í ræðu sinni, að vegna þess að hann álíti, að þetta sé af pólitískum toga spunnið, vilji hann halda áfram að greiða sömu laun. Ég verð að segja, að það er torskilinn „morallinn“ í þessu hjá þm.

Margt mætti segja um forsögu þessa máls, en ég ætla ekki að fara inn á það, til að lengja ekki umr. En það er vitanlegt, að margir ætluðust til, að stjórn Kreppulánasjóðs yrði skipuð á annan veg en þann, sem varð, og er vitanlegt, að endaði með því, að tveir af þeim, sem í henni sitja, kusu sjálfa sig og hvor annan til starfans.