13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (4074)

122. mál, Kreppulánasjóður

Hannes Jónsson:

Mér sýnist þurfa óvænlega um rökst. dagskrána. Ég sé ekki annað en að nm. sjálfir séu ósammála um, hvað í henni felst. Ég vil því leggja til, að henni sé vísað til landbn. aftur, svo hún átti sig á því, hvað það er. Það er dálítið óviðfelldið að samþ. það, sem annar segir að þetta felist í, en hinn segir hitt. Ef á að taka tillit til samþykktar dagskrártill., verður að vera ágreiningslaust af flytjendum hennar, hvað í henni felst. Annars er ekki hægt að taka mark á henni.

Ég vil leggja þá spurningu fyrir frsm. n., hvort um það var talað í n., að laun Jóns í Stóradal ættu að lækka, og hvort henni hefir dottið í hug, að laun meðbankastjórans ættu að lækka, ef aðalbankastjórinn hætti þessum störfum. Þetta þarf að vera ljóst, hvað átt er við með dagskránni, svo hægt sé að snúast við henni.

Ef umr. verða um málið, má vel vera, að vekist upp fleiri dm. og hugleiði, hvort það er virkilega rétt, sem frsm. segir. Mér fannst hann tala óljóst. Ég býst við, að dm. hafi heyrt, að hann sagði, að ekki væri ástæða til, að launin væru misjöfn, því að stjórnendurnir afköstuðu svipuðu starfi. En það kemur allt annað fram í dagskránni sjálfri og því, sem frsm. segir um málið að öðru leyti. Þetta, að gera þurfi nýja ráðstöfun, — ja, sennilega er gert ráð fyrir því, að það komi til framkvæmda um áramót, eða hvenær á það að koma til framkvæmda? (Hv: Það stendur í dagskránni). Nú er það víst, að enn er eftir að vinna að allmörgum lánbeiðnum, og annað er líka alveg víst, að það koma fram margar nýjar lánbeiðnir, og um það getur enginn sagt, hve margar. Það eru margir, sem ætluðu að sækja, en vildu fyrst sjá árangurinn af framkvæmdinni, sjá útkomuna hjá hinum, sem sóttu, og hafa því beðið. Ég veit um fjölmarga, sem svo er ástatt um, og ætla nú að fara í Kreppulánasjóð og taka lán. Það eru einnig aðrir menn, sem verða að fara í Kreppulánasjóð, vegna þess að á þá falla ábyrgðir, kröfur, sem þeir verða að standa ábyrgð á, en geta ekki nema leita á náðir Kreppulánasjóðs. Það er enginn vafi á því, að þær umsóknir verða nokkuð margar, og ekki víst, að þær verði allar greiðar úrlausnar. Það verða því mikil störf á næsta ári fyrir stjórn sjóðsins. Ég veit ekki, hvort n. ætlast til, að einn maður starfi áfram í sjóðstjórninni, en ef svo er, þá er ekki gott að fá þann meiri hluta, sem á að vera til staðar til að taka ákvarðanir um mál vegna Kreppulánasjóðsins sjálfs, eins og gert er ráð fyrir í lögunum.

Af þessum ástæðum öllum sé ég ekki, hvernig hægt er að ganga út frá að leggja niður starf stjórnarinnar að mestu leyti um næstu áramót. Ég sé ekki heldur, að ríkisstjórnin sjái, hve margar lánbeiðnir koma hér eftir, eða hvað því líður um áramót, þó líkur séu fyrir hendi, að Kreppulánasjóðsstjórnin gæti verið búin með það, sem nú liggur fyrir, ef ekkert bættist við, t. d. á miðju næsta ári, þá getur enn aukizt við meira en ókunnugir gera ráð fyrir að óreyndu. Mér sýnist því dagskráin algerlega óhæf fyrir stjórnina að styðjast við eða taka ákvarðanir eftir um næstu áramót. Fyrst þegar búið væri að taka ákvarðanir um þær lánbeiðnir, sem fyrir lægju, gæti komið til orða að breyta til. Ég efa ekki, að það mun hægt að komast að samkomulagi um það við þá menn, sem í stjórninni eru.

Ég verð því að vænta þess, ef dagskráin verður samþ., að henni fylgi sú skoðun þingsins, að ekki sé það krafa um, að stjórnin geri breyt. um áramót, heldur geymi það, þar til séð er, hvort störfum er að verða lokið.