10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (4084)

50. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Hannes Jónsson:

Ég veit auðvitað, að frv. muni líða vel hjá n., eins og hverjum þeim hlut, sem er læstur niður í skúffu. En það er ekki slík meðferð, sem ætlazt er til, að mál fái hjá nefndum. Það er málefnið, sem í frv. felst, sem ég ætlaðist til að væri það mikils virði, að a. m. k. form, n. vildi sinna því eitthvað. Ég hygg, að þeir hafi beðið lengi vel eftir einhverjum öðrum till. í málinu, en ég sé ekki, að velferðarmálum bænda sé neitt misboðið með því, þó þetta frv. fái að halda áfram göngu sinni í gegnum þingið, því ég get búizt við, að það verði nokkuð seint, sem heildarlausn þessara mála kemur frá n. Ég held þess vegna fast við það að fá mitt frv. afgr. frá n. á einhvern hátt. Svo getur hún komið fram með sínar till. um þessi málefni að öðru leyti í hvaða formi sem henni þóknast.