04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (4096)

50. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. þm. V.-Húnv. var að tala um, að þessi till., sem lægi fyrir þinginu frá landbn., væri síður en svo til frambúðar, vegna þess, að það væri alls ekki hægt að ætla íslenzkum bændum að bera 5% vexti af fasteignaveðslánum. Ég veit það vel og ætlast ekki til, þótt þessar till. okkar nái fram að ganga, að þær verði neitt eilífðarfyrirkomulag. En þegar ég talaði um framtíðarfyrirkomulag, ætlaðist ég til, að það stæði eitthvað lengur en frá ári til árs, en ekki eins og till. hv. þm. V.-Húnv., sem allar voru háðar fjárlagasamþykkt um tekjur til þess að standa straum af slíkum lánum. Vitanlega er það ekki til frambúðar að ganga þannig frá lánum. (HannJ: Geta þær alls ekki komið að gagni nema í sambandi við fjárlaga samþ.?). Ég vil segja, að okkar ráðstafanir séu frekar til frambúðar, því að m. a. er gert ráð fyrir, að hægt sé að breyta sparisjóðslánunum, sem eru örðugust allra lána, í framtíðarlán, og það kannske á næsta ári.

Ég skal játa það, að 5% vextir eru örðugir, og það er rétt hjá hv. þm., að það væri mjög mikil þörf á því að finna möguleika til þess að lækka þá, en ég hefi ekki rekið augun í það í fljótu bragði, hvaða ráð ætti að fá til þess annað en að verja til þess fé úr ríkissjóði. Hér á landi er fjármagnið svo lítið, að verðbréfasalan á frjálsum markaði gengur þannig, að verðbréf með 5% vöxtum, ríkistryggð, eru seld jafnvel niður í 70% manna á milli. Af þessu er hægt að sjá, hvað auðvelt það er að afla fjár með góðum kjörum á innlendum markaði.

Um erlendu lánin er það að segja, að þau eru neyðarúrræði, og mörgum af þeim, sem þegar er búið að taka, er ekki hægt að létta af eins og sakir standa. Þau eru samningsbundin til margra ára, eins og t. d. enska lánið frá 1930, sem ekki er hægt að segja upp fyrr en 1940, svo að ekki er hlaupið að því að fá þessu breytt í fljótum hasti.

Þá var hv. þm. V.-Húnv. að spyrja um, við hvað n. ætti, þegar hún héldi því fram, að frv., sem þessi hv. þm. og hv. 2. landsk. bera fram, mundi hafa 300 þús. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð í för með sér, ef það næði fram að ganga. Ég skal segja hv. þm. það, að ég hefi fyrir mér upplýsingar, sem ég hefi getað fengið í gegnum skjöl, sem til eru í Kreppulánasjóði. Þar hefir verið búin til tafla yfir þau lán, sem af er greitt vaxtatillag, og vil ég benda hv. þm. á, að í þeirri töflu er sleppt um 4 millj. kr. af fasteignaveðslánum, sem eru bæði í sparisjóðum úti um land og í deildum bankanna. Á þeirri töflu eru talin lán sem nema um 1500 þús. kr., en alls nema þau 5600 þús. kr., en að þau eru ekki talin með hér, kemur til af því, að þau eru sum blönduð þannig, að þau eru tryggð að nokkru leyti með sjálfsskuldaábyrgð manna. Þess vegna hafa þau ekki verið talin undir þennan flokk í þessari töflu, en við höfum talið þau með fasteignaveðslánum, af því að þau hvíla að nokkru leyti á fasteignaveði. Ef það væri meiningin að sleppa öllum þessum lánaflokk í burt, þá yrði það ekki fullnægjandi hjálp, sem hv. þm. vill veita bændum, því að þetta eru örðugustu lánin. Ég hygg, að þegar hv. þm. er búinn að bæta við þessum 4 millj., þá fái hann tölu, sem ekki er langt frá 300 þús. kr.

Þá var hv. þm. að tala um, að það væri ósamræmi hjá mér og n. að halda fram, að það sé ótryggt, að hans frv. verði að nokkrum notum, sem ekki er byggt á öðru en heimild, en halda fram að full not geti orðið af okkar frv., sem að nokkru leyti er byggt á heimild.

Ég vil benda hv. þm. á, að það er nokkuð annað, hvort búizt er við, að heimildin hafi í för með sér 60—70 þús. kr. útgjöld eða 300 þús. kr. útgjöld. Það er hægara að fá fé fyrir minni upphæðinni heldur en þeirri stærri. Svo vil ég jafnframt benda á, að jafnvel þótt svo færi, að ríkissjóður sæi sér ekki fært að borga minni upphæðina, þá er að þeim öðrum ráðstöfunum, sem eru í frv., svo mikil hjálp, að það út af fyrir sig er miklu betra en ekki neitt, og í því sambandi vil ég benda hv. þm. á, að vaxtatillaginu samkv. okkar frv. á aðallega að verja til þess að lækka vexti á sparisjóðslánum. Það getur vel farið svo, að það takist á næsta ári að breyta þessum sparisjóðslánum í ódýrari lán í veðdeild Búnaðarbankans, og þá þyrfti ekki á þessum vaxtagreiðslum að halda, sem gert er ráð fyrir í okkar frv.

Þá var hv. þm. að gera að gamni sínu, að þetta frv. væri útbúið af mér og hv. 2. þm. N.-M., og við hefðum verið neyddir til að liggja lengi yfir því til þess að gera það þinghæft — að færa það í þann búning, að hægt væri að bera það fram. Ég get sagt hv. þm., að það var ekki það, sem aðallega tafði, heldur hitt, að fá samkomulag um flutning málsins og framgang þess hér á þinginu. Ég er nú þannig gerður, að ég vil ekki bera fram mál eingöngu til þess að punta upp á mig eða mínu flokk. heldur að það sé tryggt í upphafi, að það nái fram að ganga. Það hefir alltaf verið mín venja síðan ég kom á þing. Ég hefi ávallt reynt að fá þá n., sem ég hefi átt sæti í, til þess sameiginlega að flytja þau mál, sem ég hefi viljað, að næðu fram að ganga, til þess að tryggara yrði um framgang þeirra, en ekki flutt þau sjálfur, til þess svo á eftir að benda á, að þetta mál hefði ég sjálfur flutt. Eitt af þeim málum, sem ég hefi flutt og fengið n. til að flytja með mér, var fyrsta tilraunin til þess að skipuleggja mjólkursúluna, og fékk ég n. með mér til þess að tryggja betur framgang þess, og slíkt mun ég gera áfram með hvert það mál, sem mér er annt um, að nái fram að ganga, þó að á það verði bent, að það hafi verið n., en ekki ég, sem flutti málið. Af þeim ástæðum var það, að við köstuðum ekki okkar frv. fram, þó að við værum ánægðir með það, heldur vildum við klæða það í þann búning, að sem mestur hluti — helzt öll n. — fengist til að flytja það með okkur.

En út af þeim smávillum, sem komust inn í frv., skal ég ekki segja mikið en mér finnst hv. þm. V.-Húnv. lúta að litlu, ef hann ætlar að blása sig stóran út af því máli. En upphaflega var hugsað að flytja þetta mál sem mörg frv., sem hvert tilheyrði sínum ákveðna lagabálki, en svo var horfið að því ráði að flytja þau sem eitt frv., og þá skal ég játa, að ekki var nægilega athugað formsfyrirkomulagið, svo að nokkrar misfellur slæddust inn í frv., en þær verða leiðréttar með þeim brtt. frá n., sem liggja nú fyrir hv. d.

Þá var hv. þm. V.-Húnv. að tala um, að allar þær ívilnanir, sem gera ætti samkvæmt okkar frv., væru þannig, að þær kæmu niður á lánsstofnununum. Ég skal játa, að lækkun vaxta á ræktunarsjóðslánum kemur þannig fram, að sjóðurinn vex nokkuð minna en hann ella hefði gert, þó að það sé ekki til þess að eyðileggja sjóðinn, eins og mér skildist á hv. þm. En úr þessu bættum við aftur gagnvart Búnaðarbankanum með því að við ætlumst til þess að viðlagasjóður, sem samkv. Búnaðarbankalögunum eingöngu hefir verið að láni, verði fenginn Búnaðarbankanum, og það kemur til með að vega upp á móti því, sem við kunnum að skerða vaxtarmöguleika bankans með því að lækka vextina. En ég verð að segja, að þótt þessi vaxtalækkun yrði þess valdandi, að Búnaðarbankinn gæti ekki veitt eins ör lán í framtíðinni eins og ella mundi vera, þá met ég meira að létta undir með þeim mönnum, sem eru að bogna undan sínum byrðum, heldur en að þenja lánsmöguleika bankans eitthvað út í framtíðina. Ég held, að nauðsynlegra sé að veita þeim líkn, sem lifa, heldur en að gera sérstakar ráðstafanir vegna þeirra, sem óbornir eru.

Þá var það eitt atriði, sem hv. þm. var að spyrja um, hvað þýddi, þar sem á einum stað í frv. er talað um, að ríkisstj. sé heimilt að taka lán handa Búnaðarbankanum með því móti, að ríkissjóður verði skaðlaus af. Þetta ákvæði er nákvæmlega tekið upp úr eldri Búnaðarbankalögunum, og ef hann hefir kynnt sér þau lög, þá geri ég ráð fyrir, að hann geri sér grein fyrir, hvað þetta hefir átt að þýða. Ég býst við, að það hafi átt að þýða, að vaxtabréf Búnaðarbankans gæfu það mikla vexti, að hægt væri að standa straum af erlenda láninu 1930, sem átti að verja til kaupa á vaxtabréfum bankans. En þar sem alltaf er óvissa um það, hvort ekki geti breytzt gengisafstaða milli Íslands og Englands, þá var ekki hægt að tryggja það fyrirfram, að bréfin gæfu þá vexti, sem undir öllum kringumstæðum stæðu undir láninu, ef íslenzka krónan skyldi hrapa miðað við ensku peninga. Ég geri ráð fyrir, að þetta ákvæði beri að skilja á þennan veg. En úr því að hv. þm. er farinn út úr d., hefi ég ekki meira við hann að segja að sinni.