04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (4097)

50. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Hannes Jónsson:

Ég ætla þá fyrst að víkja að því, sem hv. þm. Mýr. sagði, að eftir frv. okkar hv. 2. landsk. mundu útgjöld ríkissjóðs aukast um 300 þús. kr. Þessi skýrsla, sem hv. þm. vitnaði í, er búin út af Kreppulánasjóði, og býst ég við, að hún sé rétt.

Þau blönduðu lán, sem hv. þm. minntist á, eru mörg þannig löguð, að þau hafa gengið í gegnum Kreppulánasjóðinn sjálfan. Það eru ábyrgðarlán með baktryggingu, sem eru alveg jafntrygg fasteignaveðslánum, en geta þó ekki talizt fasteignaveðslán. En jafnvel þótt svo hefði farið, að þessi upphæð hefði orðið eitthvað meiri, sem reyndist þó 1933 ekki nema 127 þús. kr., hefði hún með þeirri hækkun, sem við gerum, aldrei átt að verð nema í kringum 160 þús. kr. En jafnvel þótt hækkunin yrði meiri en hv. þm. talaði um, þá er nauðsynin í sjálfu sér engu minni, heldur þeim mun meiri að létta undir í þessu efni.

Það, sem ég hefi ekki minnzt á ennþá í þessum umr., er það atriði, sem n. hefir gengið algerlega framhjá, að létta undir með þeim mönnum, sem hafa, tekið byggingar- og landnámssjóðslán. Þessi lán voru upphaflegu veitt með vægari vaxtakjörum en önnur fasteignaveðslán. Nú er svo komið, að venjulegar lausaskuldir manna eru komnar niður í þau vaxtakjör, sem voru áður í Byggingar- og landnámssjóði. En þó að þessi lán væru með sæmilegri kjörum en menn höfðu áður orðið við að búa, þá eru þau nú orðin svo þung, og sérstaklega kannske fyrir það, sem ekki er hægt að segja, að sé þeirra sök, að byggingarnar urðu fyrst framan af mjög dýrar. Ég veit um menn, sem af þessum ástæðum verða að borga um 700 kr. á ári. Hvernig geta nú bændur risið undir þessu, sem ekki hafa nema eitthvað á annað hundrað fjár? Tekjurnar af búi þeirra færu allar til þess að borga vexti afborganir. Það er orðið svo breytt frá því, sem áður var um möguleika fyrir bændur að standa undir þessum lánum, að þá hlýtur að daga uppi fyrr eða síðar. Ég hygg, að einmitt þessi flokkur lána sé engu síður þess verður, að þar sé eitthvað bætt um fyrir bændum, heldur en aðrir lánaflokkar, og sérstaklegu með tilliti til þess, að það var til þess ætlazt, að þessi lán væru með vægari kjörum en önnur lán.

Ég benti á það í framsögu við 1. umr. þessa máls, hvílíkt óréttlæti væri orðið á afgreiðslu skuldamála bænda yfirleitt, og hv. þm. A.-Húnv. hefir einnig bent á þetta nú. Þær ráðstafanir, sem gerðar voru með kreppulánalöggjöfinni, voru gerðar til þess að léttu undir með bændum, en ekki til þess að koma á ósamræmi á hjálpinni til bænda. Sú bráðabirgðaráðstöfun, sem þá var gerð gagnvart fasteignaveðslánum bænda, var bending í þá átt, hvað ætti að gera í þessum málum, en hún var aðeins til bráðabirgða, og gert var ráð fyrir, að endanleg lausn fengist á þessum málum síðar. En að hugsa sér, að það eigi að vera endanleg lausn þessara mála, sem hv. landbn. leggur til, er ekki hægt, og ég sé ekki, að það opni neina leið til þess, að hægt sé að breyta þessum fasteignaveðslánum svo við megi una. Við verðum að bjarga þessum málum áfram með bráðabirgðaráðstöfunum, og það er engu síður þörf á því með byggingar- og landnámssjóðslánin en önnur lán. Hv. frsm. veit líka, hvað miklu af lánum væri hægt að breyta með nýrri lántöku. Það er ekki hægt að hugsa sér að fé fáist, sem hægt sé að lána fyrir minna en 5½%. Ég sé ekki, að sú hugsun hafi við nokkur rök að styðjast. Það eina, sem fyrir hv. frsm. virðist hafa vakað, eftir því sem hann segir nú, hefir verið að reyna að fá samkomulag um þetta mál. Reyndar lýsti hann yfir því, að það þyrfti að gera það, sem við hv. 2. landsk. förum fram á, en það hefði bara ekki fengizt samkomulag um það. Ég á nú bágt með að trúa, að svo sé komið hér á hv. Alþingi, að ekki sé hægt að fá lausn á jafnsjálfsögðu máli eins og þessu, og ef það er ekki hægt, þá á að koma fram, hverjir það eru, sem ekki vilja leysa þetta mál, svo sjálfsagt sem það er.

En vegna þess að hæstv. forseti vill ljúka þessu máli fyrir kl. 4, og ég vil gjarnan flýta fyrir afgreiðslu þess, og ég býst við, að ekki þurfi að rökræða mikið um það, af því fyrirfram eru ákveðin afdrif þess, þá vil ég ekki standa í vegi fyrir því, þó að ég hafi tilhneigingu til að rekja þetta nokkru nánar, svo að menn fengju að sjá rökfærslu á báða bóga um þessi mál hér á Alþingi. Ég mun því taka þann kostinn að reyna að fá eitthvað fram um þetta efni, þó að það sé ekki nema helmingur á við það, sem þyrfti að vera.