05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (4105)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Fyrst vil ég víkja að meðferð málsins, sem hefir verið nokkuð dregin inn í umr., bæði af hv. 1. flm., frsm. málsins, og hv. þm. Barð.

Það er rétt, að nokkru fyrir þing áttu tveir af nm. í mþn. í sjávarútvegsmálum tal við mig, sögðu mér aðalniðurstöður af rannsókn sinni á fjárhag útgerðarinnar í landinu, þær tölu, sem birtar eru í grg. frv. og segja, að eignir útgerðarinnar í heild á móti skuldum nemi hér um bil 82%.

Nokkru síðar létu þeir mér einnig í té — án grg. — frv. um skuldaskil útgerðarmanna, mjög svipað a. m. k. í öllum aðalatriðum því frv., sem liggur fyrir. Sjálft frv. með grg. barst mér ekki að ég ætla fyrr en 10. okt., og afgr. ég það til n. 27. okt., hafði það l7 daga til athugunar. Vil ég skjóta því til hv. þdm., hvort það muni vera of langur tími, eins og störfum er háttað á þingi. Ég tjáði þá n., að ég sæi mér ekki fært að flytja þetta frv. né heldur að óska þess, að n. flytti frv. óbreytt, af þeim ástæðum, sem ég greindi og hv. frsm. að nokkru leyti drap á. Fyrst og fremst af því, að ekki var séð fyrir tekjuöflun fyrir ríkissjóð á móti þeim útgjöldum, sem af samþ. frv. leiddi. Í öðru lagi vegna þess, að ekki lágu fyrir nál. mþn., né heldur heildarskýrsla um efnahag og afkomu útgerðarinnar. Ég hafði þá að vísu rétt séð prentaða skýrslu um efnahaginn, mikið bákn, 150 bls. að ég ætla, en nál. var ekki komið svo langt, að ég gæti séð það, með þeim hugleiðingum, sem n. hefir séð ástæðu til að gera út af skýrslunni. Hinsvegar þótti mér rétt og sjálfsagt, þar sem um svo stórvægilegt atriði var að ræða, að þeir, sem hefðu hug á því, að málið yrði birt hið fyrsta, fengju tækifæri til þess. Því lét ég n. í té þessi frv. eftir ósk mþnm. í sjútv.málum. Hinsvegar verð ég að segja það, að mig undrar það nú nokkuð, að þeir skyldu ekki bíða eftir, að útbýtt væri meðal þingmanna niðurstöðum af heildarskýrslum, sem n. hefir látið semja, sem vera bar, um fjárhagsafkomu útgerðarinnar, né heldur nál. mþn. í heild. Það segir sig sjálft, að það er afar torvelt fyrir þdm. að átta sig, meðan þessi gögn vantar. Því að sú grg., sem frv. fylgir, er ekki nægileg til að skýra fyrir mönnum ástandið í heild sinni. Ég þykist nú vita, að hv. 1. flm. hafi í ræðu sinni viljað bæta nokkuð úr þessu. En hann veit jafnvel og ég, að það er ekki þægilegt fyrir þm. að átta sig á þessu máli, þó að þeir heyri stutta ræðu.

Ég get svo látið þetta nægja til að skýra meðferð málsins, en vil bæta nokkru við, sem hvergi kom fram í ræðu hv. frsm.

Þegar ég ræddi við mþn. í sjávarútvegsmálum, þá tjáði ég henni, eins og ég áðan sagði, að stj. treysti sér ekki til að mæla með því, að frv. yrði flutt óbreytt á þessu þingi, nema bent yrði á leið til tekjuöflunar á móti. En jafnframt óskaði ég þess, að sjútvn. fengi nál. mþn. í sjávarútvegsmálum ásamt heildarskýrslunni, og reyndi að rannsaka, hvort ekki væri hægt að taka einhvern þátt af útgerðinni út úr og afla þess fjár, sem þyrfti til þess að styrkja þann þátt nú þegar. En það er ekki eðlilegt, að sjútvn hafi getað við þessu snúizt enn, þar sem áðurnefnda heildarskýrslu og nál. vantar ennþá. Vænti ég, að hv. sjútvn., sem fær þetta mál til athugunar, taki þessa ábendingu mína til greina og athugi þennan möguleika. En frv. eins og það liggur fyrir í heild álít ég ekki gerlegt að afgreiða. Þar er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram 5 millj. kr. til Skuldaskilasjóðs útgerðarmanna. Og í öðru frv., sem er á dagskrá í dag. frv. um Fiskveiðasjóð Íslands, er gert ráð fyrir, að hann leggi fram sem svarar 250 þús. kr. á ári til þess sjóðs, og þó 83 þús. kr. betur á næsta ári. Og til þess að Fiskveiðasjóður geti lagt fram 250 þús. kr. til Skuldaskilasjóðs, verður a. m. k. á einhvern hátt að afla þess fjár, hvað sem verður um frv. um Fiskveiðasjóð í heild sinni.

Þá vil ég benda á, að athugun hv. þm. Barð. um áætlun útflutningsgjaldsins, eins og upplýsingar liggja fyrir — og sérstaklega ef samþ. verður breyt. sú, sem liggur fyrir þinginu — hún er rétt. Áætlun mþn. um tekjur af útflutningsgjaldinu er of há, þannig að ef 5 millj. eiga að fást, þarf að lengja tímann og bæta tekjustofnum við.

En svo að maður haldi sér við hv. frsm. og frv. um Fiskveiðasjóð, þá eru útgjöldin á næsta ári sem svarar 1050 þús. kr. að minnsta kosti; — þá játa ég hispurslaust, að eins og sakir standa sé ég ekki fram á, að þetta þing geti afgr. fjárlög svo að í lagi sé og jafnframt tekið þessa upphæð til sérstakrar ráðstöfunar. Í þessu sambandi vil ég segja, að mér urðu það nokkur vonbrigði, hversu einhliða mþn. í sjávarútvegsmálum hefir litið á þetta mál. Eftir því, sem ég bezt veit, hefir hún lagt mikla vinnu í að safna miklum gögnum um ásigkomulag útgerðarinnar. Og það skal ég játa, að sú leið, sem lagt er til í frv. um Skuldaskilasjóð að fara, er heppilegri en við skuldauppgerð bænda, þar sem bundið er greiðslufé í skuldabréfum til langs tíma með áhættu fyrir ríkissjóð, sem ómögulegt er að gera sér að fullu grein fyrir, hver er. Það er líka aðgætandi í þessu sambandi, eins og n. líka hefir athugað, að sem veðtrygging bak við slíka skuldabréfaútgáfu eru eignir útvegsmanna tæplega eins veðhæfar og eignir bænda, þær eru miklu lausari, jafnvel þó eitthvað sé með af fasteignum. Ég get sem sé fallizt á, að grundvallarhugsun þessa frv. sé rétt hjá mþn. í sjávarútvegsmálum. En þrátt fyrir það verð ég að telja, að hún hafi vanrækt annan meginþáttinn í starfi sínu, þann, að benda á tekjuöflunarmöguleika á móti þeim útgjöldum, sem óhjákvæmilega hlýtur að leiða af þessari ráðstöfun. Ef þm. vilja fá afgreidd tekjuhallalaus fjárlög, eins og hv. frsm. var að tala um í sinni ræðu, þá þarf að benda t. d. á leið til sparnaðar, þannig að jafnvægi fáist. Hvorugt af þessu hefir mþn. nokkra minnstu viðleitni til að benda á, og verð ég að harma, að hún skilaði frv. þannig inn í þingið. Þegar málið kom til mín, var búið að semja tekjuaukafrv. stj. og í heild búið að gera sér í hugarlund, eins og stj. gat gert þá, hvernig hægt er að ná nokkurn veginn útkomu á rekstri ríkisbúskaparins á næsta ári. Það segir sig sjálft, að yfir ein milljón kr. hlýtur að raska þeim grundvelli, ef ekki koma nýjar tekjur á móti.

Eitt atriði vil ég spyrja hv. flm. um, því að það, sem ég hefi séð af skýrslunni, ber það ekki með sér. Eru í skuldaframtölum útgerðarmanna taldar með upphæðir, sem lánsstofnanir hafa talið tapaðar, þótt ekki sé búið að gefa mönnum kvittun fyrir þessum upphæðum? Mér er kunnugt um, að nokkuð víða í lánsstofnunum eru lagðar til hliðar tapaðar skuldir, sem álitnar eru, án þess þó, að gefin sé kvittun til hlutaðeiganda. Og ég hygg, að a. m. k. frá útibúinu á Seyðisfirði hafi verið tekið fram um slíkar skuldir. Þessar skuldir geta í heild numið ekki óverulegri upphæð.

Eins og ég drap á áðan, mæltist ég til við sjútvn., að hún tæki til athugunar, hvort ekki væri hægt að hjálpa einhverjum þætti útgerðarinnar með minna fjárframlagi en gert er ráð fyrir í þessu frv., og ég vil víkja nokkrum orðum að því, hvað ég átti sérstaklega við.

Eins og ræða hv. flm. ber með sér, er hér í frv. og eins í yfirlitsskýrslu nefndarinnar talað í einu lagi um alla útgerð í landinu. Ég hefi ekki getað kynnt mér það enn til hlítar, hvernig hlutfallið í þessu efni er milli stórskipaútgerðarinnar og hinna einstöku tegunda smáskipaútgerðarinnar. En að órannsökuðu máli verð ég að segja það, að í hinum stóru fyrirtækjum eru svo miklar fjárhæðir bundnar hjá einu einstöku, að vafasamt er, hvort ástæða er fyrir ríkissjóð að fara að leggja fram fé til uppgerðar á þeim. Bankarnir hafa hingað til orðið að gera þetta sjálfir. Hér er um tiltölulega fáa viðskiptamenn að ræða, en svo stóra, að það getur haft gífurlega mikil áhrif á það, hversu mikið fé þurfi, hvort stærri fyrirtækin eru tekin með eða ekki. Hinsvegar verð ég að líta svo á, að það, sem geri nauðsyn fyrir aðgerð hins opinbera knýjandi í þessu efni, er það, ef sýnt væri fram á, að það lægi við borð, að svo og svo mikill hluti útgerðarinnar kynni að stöðvast, ef ekki yrði hlaupið undir bagga, og af stöðvuninni stafaði svo atvinnuleysi og stórkostlegt verðmætatjón fyrir landsmenn í heild. Ég hygg, að það sé minni ástæða til að ætla þetta um stórútgerðina heldur en a. m. k. um nokkurn hluta smáútgerðarinnar. Mér hefir eftir þeim lauslegu athugunum á skýrslunni sýnzt, að með ekki ákaflega miklu framlagi mætti í bili létta talsvert mikið fyrir nokkrum hluta smáútgerðarinnar, ef kröftunum væri öllum beint í þá átt, en hinn þáttur útgerðarinnar látinn enn bíða átekta. Og ég vil enn á ný mega beina því til sjútvn., að hún reyni að athuga þetta að fengnu nál. og skýrslu nefndarinnar.

Þá má heldur ekki því gleyma, að þótt það sé að sjálfsögðu mikilsvert að fá uppgerð á skuldum útgerðarinnar, sérstaklega ef með því er tryggt, að starfsemi haldi áfram, sem ella mundi verða að stöðva, þá er það engu minna vert og knýjandi nauðsyn að gera ráðstafanir til þess að gera rekstur þessara útgerðarfyrirtækja auðveldari en nú er. Og þingið má vel gá að því, að ríkissjóður bindi ekki svo getu sína í skuldauppgerð, að hann hafi ekki mátt til að veita þá hjálp, sem miðar beinlínis til áframhaldandi rekstrarstarfsemi.

Nú hefir komið frá mþn. í sjávarútvegsmálum í dag frv. um rekstrarlán handa útgerðinni. Hefi ég ekki getað kynnt mér það enn, en mun leggja það fyrir sjútvn. einhvern næstu daga.

Eins og ég hefi sagt áður, er ómögulegt að taka fulla afstöðu til annars þáttar þessa máls án þess að líta á hinn. Ég skal svo ekki við þessa umr. hafa fleiri orð. Geri ráð fyrir, að frv. verði vísað til sjútvn.