05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (4108)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Enda þótt hæstv. atvmrh. talaði ekki fyrstur í þessu máli, eftir að ég lauk framsöguræðu minni, þá mun ég byrja á að svara honum, því að það er nær því það eina, sem er svaravert af því, sem fram hefir komið til andsvara mér. Okkur hefir ekkert borið á milli um gang málsins, og ég hefi ekkert áfellzt hann fyrir það, hvernig hann hefir tekið þessu máli, en mér finnst, að hann hafi dregið það nokkuð lengi að leggja það fyrir sjútvn. Hann hefir afsakað sig með því, að hann hafi verið að kynna sér málið, og má vera, að það sé að nokkru leyti rétt, en hitt mun réttara, að hann hafi verið að kynna flokksmönnum sínum það, svo sem hann og hefir tjáð okkur milliþingmönnum.

Mér finnst það líka afsakanlegt, þó að hann hafi ekki viljað bera frv. fram sem stjfrv., heldur láta sjútvn. flytja það. Þá finnst mér ekki nema eðlilegt, þó að hann vilji, að bent sé á tekjuauka fyrir ríkissjóð áður en lýkur, fyrir þær tekjur, er hann missir við þetta. Hitt er ekki nema fyrirsláttur, að það hefði átt að gerast fyrirfram, því að það er algengt, að efnt sé til stórra útgjalda fyrir ríkissjóð án þess að um leið sé bent á tekjuauka. Annars vil ég í þessu sambandi benda á, að fyrir þinginu liggja nú 6—8 tekjuaukafrv., og sum alveg ný. Hvort þau ganga fram, er vitanlega ekki sýnt ennþá, en ég býst við, að um þau sé eins og ýms önnur mál, að það hafi verið samþ. utan þings, að þau gengju fram. Um hitt get ég ekki sagt, hversu miklar tekjur þau muni gefa, því að hæstv. fjmrh. virðist ekki hafa glögga hugmynd um það sjálfur, eða a. m. k. hefir hann ekki gefið það upp. Þá eru og á prjónunum ýms frv., þar sem farið er fram á að einoka vörur, sem skipta millj. kr. í innkaupi. Það er því ekki ólíklegt, eftir þeirri álagningarfrekju, sem ríkisstofnanirnar yfirleitt eru haldnar af, að þar komi nokkrar tekjur fyrir ríkissjóðinn. Ég fæ því ekki séð, að stj. þurfi að kvarta um, að hún hafi ekki nýjar tekjuvonir. Auk þess höfum við flm. lýst því yfir, að sjálfsagt sé að reyna að sjá ríkissjóði fyrir tekjum í stað þeirra, er hann kann að missa, ef frv. þetta nær fram að ganga. Það er alveg misskilningur hjá hæstv. fjmrh., að hér sé verið að heimta gjöld úr ríkissjóði. Það er þvert á móti farið fram á það, að ríkissjóður hætti að heimta bein gjöld af útflutningsvörum þessa atvinnuvegar. Á þessu er mikill eðlismunur. Þetta finnst mér, að ráðh. ætti að skilja, þó aldrei nema hann sé ungur.

Eins og ég hefi áður tekið fram, þá hefir oft verið stofnað til útgjalda hér á Alþingi án þess að benda um leið á tekjur í staðinn. Í því efni hefir hæstv. núv. atvmrh. staðið mjög framarlega, bæði að því er snertir kjördæmi sitt og um framlög til atvinnubótavinnu o. fl.

Mér þótti fyrir, að hæstv. atvmrh. skyldi flaska á því að hafa eftir útreikning hv. þm. Barð., því að hann var rangur, en útreikningur n. réttur. Hv. þm. Barð. er vitanlega í þessu máli sem öðrum úti á þekju. Það sannaðist t. d., að hann hefði aldrei lesið frv., hvað þá meira. Um það, sem hann annars sagði, mætti margt segja, en mér leiðist alltaf að eiga við menn, sem ekkert vita, um hvað er verið að tala. Á ég þar ekki við það, þó að honum yrði þessi reikningsskekkja á; hún er afsakanleg, því að maðurinn var að því er virtist í mjög æstu skapi. En afstaða hans til málsins er mjög tortryggileg. Hann vildi ekki, að sjútvn. flytti frv.; þó vissi hann, að ekki var hægt að koma því inn í þingið, nema með sérstöku leyfi: því sá frestur var þá liðinn, sem leyfður er til þess að bera fram frv. án sérstaks leyfis deildar. Honum var boðinn frestur til þess að lesa frv. og kynna sér málið, en það vildi hann ekki þiggja. En nú lætur hann stjórnast af reiði við Morgunblaðið m. a., og segir, að það hafi skýrt rangt frá. Það, sem gerir hann svona reiðan við Morgunblaðið, er fyrst það, að blaðið segir, að atvmrh. hafi ekki séð sér fært að leggja til, að frv. yrði að lögum á þessu þingi, nema því aðeins, að séð yrði fyrir nýjum tekjum. Þetta er rétt. Þá segir Morgunblaðið, að það hafi verið fellt í sjútvn., að n. flytti frumvarpið. Þetta er rétt. Ennfremur segir blaðið, að þetta séu undirtektir rauðliða undir þetta mikla nytjamál. Þetta er líka rétt. Ég held því, að það hafi verið alveg misráðið af honum að vera að sprikla þetta hér í deildinni og sýna nekt sína jafntilfinnanlega og hann gerði. — Gælur hans við málið í sjútvn. eru ekkert nema látalæti. Hann þorir ekki að taka neina afstöðu þar, af því að hann er undir flokkssvipu, og enga skoðun þorir hann að hafa, af því að hann óttast aðra svipu frá kjósendunum. Það er hörmulegt fyrir hv. þm. að vera flengdur úr tveimur áttum og vita því ekkert, í hverja áttina hann á að flýja. Þá var hann eitthvað að tala um það, að hann hefði ekki búizt við nema ósannindum af mér, því að við hefðum einhverntíma orðið samferða í kosningaleiðangri. Það fór nú þá fyrir mér eins og fleirum, að mér fannst sára leiðinlegt að dragast áfram með hann, af því m. a., að hann vissi ekkert um þau mál, sem hann var að reyna að tala um, ekki einu sinni um þau mál, sem komið höfðu fyrir á þeim þingum, er hann hafði átt sæti á. Ég get vel skilið, að hann hafi kunnað illa föruneytinu, því að hann kann bezt við sig með hinum verstu mönnum og á hinum verstu stöðum, eins og bezt má sjá á því, við hverja hann leggur lag í flutningi mála hér á þingi. Annars hélt ég, að hann hefði mátt þakka mér fyrir uppeldið, því að ég gaf honum ýms holl ráð, sem hefðu mátt verða honum að gagni, ef hann hefði borið gæfu til þess að hagnýta sér þau. En það hefir sannazt á honum hið fornkveðna: „Þótt náttúran sé lamin með lurk, þá leitar hún heim um síðir“. Fari nú svo, að hv. þm. fylgi máli þessu eftir allt, sem hann er búinn að segja, þá er það aðeins af ótta við kjósendurna, og ég held, að það sé rétt að láta hann kenna á þeirri svipunni, sem hann óttast mest og mun vera svipa kjósendanna.

Hæstv. fjmrh. talaði um það af mikilli vandlætingu, að við flm. skulum „leyfa“ okkur að bera, fram frv., sem fari fram á gjöld úr ríkissjóði. Slíkur er tónninn frá hans hendi um frv., sem á að reisa við höfuðatvinnuveg þjóðarinnar. Það er til minnkunar, að úr fjmrh. sæti komi orð, sem votta slíkt gersamlegt ábyrgðarleysi og skilningsleysi á því, sem fram undan er í atvinnulífi þjóðarinnar. Það getur vel verið, að flm. þessa frv. leyfi sér að fylgja því fastar eftir en hæstv. ráðh. kærir sig um, og ég hygg, að þar sé unnið fyrir þjóðina og ríkið með því að flytja málið af einurð og dugnaði.

Svo er hæstv. ráðh. að tala um, hvort eigi að „taka þetta mál alvarlega“. Ég skal segja honum það, að það er ekki hægt að taka krakka alvarlega. Ég skoða hann sem milli vita, ef ekki óvita í máli sem þessu.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að menn flyttu mál til að taka sig út í augum kjósenda. Ég skal ekki segja um, hvað hann hefir gert til þess. En það veit ég, að framkoma hans í þessu máli og yfirleitt þeim málum, sem hann hefir tekið þátt í, hefir aldrei orðið til þess, að hann tæki sig út í augum skynsamra manna, en það getur verið, að finnist þeir menn, sem hægt er að skarta fyrir með slíkri framkomu. (Fjmrh.: Heldur hv. þm., að það séu tómir heimskingjar, sem hafa kosið mig?). Meiri hlutinn, býst ég við, nema þá þeir, sem hafa verið kúgaðir til þess. En hvort sem þm. veita meiri eða minni mótstöðu, þá gengur þetta frv. fram. Fólkið krefst þess sjálft. Og það er nú svo um þá menn, sem hafa sýnt þessu máli svo mikinn kulda, að þeir eru við ekkert hræddari en kröfur fólksins. En ég vona, að í hópi þeirra þm., sem styðja þá stj., sem nú situr að völdum, illu heilli, séu einhverjir þeir, er vilja sýna þessu máli vináttu, ef ekki þeirra sjálfra vegna, þá fyrir það, að þeir hafi opin augun fyrir því, hve afskaplega mikið er hér í húfi, ef sjávarútveginum verður ekki bjargað, áður en hann er sokkinn of djúpt.