05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (4110)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Páll Þorbjörnsson:

Út af því, að því hefir hér verið sveigt að mér, að ég hafi ekki viljað flytja þetta frv., vildi ég segja nokkur orð.

Hv. 1. flm. hefir haldið því fram, að hæstv. atvmrh. hafi haft frv. um nokkurn tíma og verið búinn að kynna það flokksmönnum sínum. Hann hefir haft það í 17 daga. Ég get skýrt frá því hér, að hæstv. atvmrh. hafði skýrt okkur frá því, í hvaða átt frv. stefndi, en þrátt fyrir það hafði ég aldrei tækifæri til að lesa frv., eins og menn geta skilið, þar sem hæstv. ráðh. hafði aðeins eitt eintak af frv., en í þingflokki okkar eru 10 þm.

Eins og hv. þm. Barð. skýrði frá, þá var á aukafundi í sjútvn. rætt um þetta frv. og að hæstv. atvmrh. var á þeim fundi. Þá bar hv. form. sjútvn. fram þá spurningu, hvort til væru það mörg eintök af frv., að nm. gætu fengið eitt eintak hver til að kynna sér frv. Milliþnm. svöruðu því, að það væri ekki, það hefðu verið til fáein eintök af frv., en þeim hefði verið útbýtt til Fiskifélagsins, Útvegsbankans og ráðherra. Hversu mörgum þeir hafa úbýtt til sinna flokksmanna, skal ég ekki segja um, en ef það hefði verið meiningin, að frv. hefði verið flutt af sjútvn., hefði verið æskilegt, að nm. hefðu getað haft frv. til athugunar nokkurn tíma.

Út af því, sem kom fram hjá þeim, að ekki væru til fleiri eintök af frv., þá var rætt um að koma frv. í prentun, svo að sjútvn. ætti kost á að kynna sér frv. Þetta var laugardaginn 27. okt. Næsta þriðjudag var haldinn fundur í sjútvn. Þá óskuðu þeir hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. eftir því, að sjútvn. flytti frv. við hv. þm. Barð. bárum það þá fram, að við hefðum ekki átt þess kost að lesa frv., en hv. þm. Ísaf. hafði átt þess kost að hlaupa einu sinni yfir það lauslega. Hinsvegar var búizt við, að frv. kæmi úr prentun í síðasta lagi daginn eftir. Við fórum fram á að fá frest til fimmtudags, svo að við gætum tekið ákvörðun um málið, en hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv. voru ófáanlegir til að fresta þessu, heldur knúðu þeir okkur til að greiða atkv. á móti flutningi frv.

Ég veit ekki, hver er regla þeirra í þingmálum, en ég býst þó við, að margir séu þar eins og ég, því að mér dettur ekki í hug að flytja frv., sem ég hefi ekki lesið áður. Hinsvegar væri ekki ófróðlegt að gera þá tilraun við þessa hv. þm., að reyna að fá þá til að flytja frv., sem þeir vissu ekkert um nema aðeins nafnið eitt, því að það er það, sem þeir hafa hér farið fram á.

Eins og ég gat um í sjútvn., þá er ég þessu máli hlynntur og vil fylgja því eftir því sem ég tel fært. Hér er a. m. k. að nokkru leyti reynt að ráða bót á þeim fjárhagsörðugleikum, sem sjávarútvegurinn er nú i. Hinsvegar vil ég taka það fram, að það hefir ekki verið skýrt enn. hvernig því verður við komið, að láta allt útflutningsgjaldið fara í þennan sjóð, en ekki í ríkissjóð.

Ég býst við, að það verði bið á, að hægt verði að taka alla útgerðina fyrir á þennan hátt. Býst ég þá við, að hér ætti fyrst og fremst að snúa sér að smáútgerðinni. Stórútgerðin þarf svo mikið fjármagn til viðreisnar, að það er spursmál, hvort það verður ekki fyrst og fremst mál bankanna. En til að rétta við smáútgerðina tel ég rétt að setja l. frá þinginu, og því mun ég fylgja þessu frv.