07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (4118)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Mig furðaði á síðari hlutanum í ræðu hv. þm. Vestm. Hann fullyrti, að ríkisstj. og flokkar þeir, sem styðja hana, væru ákveðnir í að veita frv. mótstöðu, og hefðu otað fram peðum sínum, eins og hann komst að orði, til þess að hefta framgang málsins. Ég veit ekki, hvaða heimild hann hefir til þess að segja slíkt. (JJós: Bókanir sjútvn.). Ég kysi þá, að þær bókanir, sem varða mig sem atvmrh., yrðu lesnar upp. Annars skal ég segja það, að þetta er einber tilbúningur. Ég mæltist eindregið til þess, að málinu væri vísað til n. og óskaði þess, að það væri sérstaklega athugað, hvort ekki væri á einhvern hátt hægt að leysa málið. Hitt hefir við engin rök að styðjast, og það er ekki til þess að létta framgang málsins, ef komið er með slíkar sakir. (JJós: Heyrði hæstv. ráðh. ekki ræðu hv. þm. Ísaf.?). Jú, en ég heyrði líka ræðu hv. þm. G.-K., þar sem hann gaf yfirlýsingu þess efnis, að Sjálfstfl. væri reiðubúinn til að benda á leiðir til þess að afla tekna, svo jöfnuður fáist á fjárlögum. Eftir þessa yfirlýsingu liggur málið öðruvísi fyrir en þegar mþm. lagði það fyrir þingið. Ef byggja má á þessari yfirlýsingu, en þess er að vænta, og samkomulag næst um að afla tekna til jöfnunar á fjárl., þá býst ég við, að ekki standi á stjórnarflokkunum að styðja framgang málsins. En það verður að virða mér til vorkunnar, þó að ég hafi séð litlar líkur til þess, að málið gengi fram eins og það var borið fram í upphafi. Tekjuöflunarfrv. stj. hafa yfirleitt ekki fengið svo góðar undirtektir hjá hv. sjálfstæðismönnum, að ástæða væri til að fara lengra á þeirri leið, að leggja sérstök gjöld á landslýðinn. Því meiri ástæða var til þess að efast um framgang málsins, þegar einu eða fleiri flm. frv. höfðu í öðru frv. gert ráð fyrir öðrum ráðstöfunum á því fé, sem eftir þessu frv. á að ganga til Skuldaskilasjóðs. Ég er fús til að leita samvinnu við hv. Sjálfstfl. í þessu efni. Ég taldi tormerki á því, að finna leiðir til að afla þessa fjár, sem leggja á fram samkv. frv., en það nemur um 1 milljón kr. á ári í 6 ár, og lengur þó, ef útflutningsgjald er áætlað of hátt. Ég verð að segja það, að ég var vondaufur um, að það lánaðist að finna svona háa upphæð. Ég tók það þó fram í ræðu minni í gær, að þó að það tækist ekki að leysa málið að fullu, þá væri engin ástæða til að örvænta. Það mætti e. t. v. taka einn þátt út úr og leysa hann.

Ég vil benda á, að jafnhliða þessu verður að athuga hverjar leiðir er hægt að fara til þess að létta rekstrarafkomu útgerðarinnar. Því það er ekki mikið fengið, þó skuldaskil séu gerð í bili, ef útgerðin getur svo ekki gengið áfallalítið. Það hefir verið drepið á það í umr., að vaxtakjör og tryggingakjör smábátanna eru með endemum erfið. Vextir og iðgjöld nema oft um 15% af andvirði bátsins. Það segir sig sjálft, hvílíkur baggi þetta er á útgerðinni. Það munar miklu, ef hægt er að komast að auðveldari kjörum. Olíufélögin selja t. d. olíuna með 10% verðmun, eftir því hvort hún er greidd strax eða um lán er að ræða. Þetta nemur ekki svo litlu, og svona mætti eflaust lengi telja.

Ég benti á það í gær, að við mættum ekki standa svo sneyddir að orku. þegar búið væri að afgreiða þetta frv., að ekki væri hægt að gera neitt til þess að létta undir rekstrarafkomuna. Ég lít svo á, að það, sem liggi hér fyrir að gera, sé ekki það, að brýna hver annan með óheilindum í þessu máli, heldur að reyna að komast að samkomulagi um það, hvað mikið fé sé hægt að leggja fram og á hvern hátt það geti komið að sem beztum notum. Mér var því ánægja að heyra yfirlýsingu hv. þm. G.-K., því það er rangt hjá hv. 6. þm. Reykv., að hægt sé að taka afstöðu til þessa máls án þess að vita, hvort hægt sé að afla fjár til þess að framkvæma það. Það verður jafnframt að taka afstöðu til þess, hvernig hægt er að afla fjárins, því annars verður þetta aldrei annað en pappírsgagn.

Ég skal svo ekki tefja umr. um þetta mál. Ég kysi svo, að það færi sem fyrst til sjútvn. og að hún tæki það til athugunar að fengnu nál. mþm. og heildarskýrslum hennar, — en það er bagalegt, að þær skuli ekki liggja hér fyrir. — svo að hægt sé að athuga, hvort ekki mætti létta fyrir einhverjum hluta útgerðarinnar, þó ekki væri lagt fram eins mikið fé og gert er ráð fyrir í frv.