08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (4127)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 6. þm. Reykv. vék að því áðan í ræðu sinni, og vék að því í sínum fyrri ræðum um þetta mál, að ekki fyndist honum neitt óeðlilegt eða óvanalegt, þótt borin væru fram frv., sem færu fram á tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð eða útgjaldaauka, án þess að jafnhliða væru bornar fram till. um það, hversu vega skyldi upp á móti. Það kann að vera rétt hjá hv. þm., að þetta sé ekki svo óvenjulegt, en til fyrirmyndar er það samt sem áður ekki. Og ef á að hafa sæmilega afgreiðslu hér á fjárlögum og fjármálum yfirleitt, þá verður það að vera með þeim hætti, að jöfnuður sé milli tekjuöflunarfrv. annarsvegar og útgjaldafrv. hinsvegar. Síðar í ræðu sinni fór þessi hv. þm., að því er mér skildist, að reyna að færa líkur að því, að í þeim tekjuöflunarfrv., sem stj. hefir þegar lagt fyrir þ., sé nægilega séð fyrir þeirri tekjuskerðingu, sem frv. um skuldaskilasjóð hefir í för með sér. Hann var a. m. k. að benda til þessara frv. og kvarta undan skýrslnaskorti vegna þess, að ekki væri hægt að sjá, hverra tekna þarna væri að vænta. Það hefir verið tekið hér fram af minni hálfu, hvers er að vænta af þessum frv., sem fyrir liggja, að undanskildu einu þeirra. Það kom glöggt fram í fjárlagaræðu minni í þingbyrjun, og get ég ekki ásakað mig um það, þótt hv. þm. kunni að hafa troðið upp í eyrun við það tækifæri. Ég upplýsti þá, að búizt væri við, að þótt þau tekjuöflunarfrv., sem þá voru fram komin, yrðu samþ., yrði um 400 þús. kr. tekjuhalli á fjárlagafrv. M. ö. o. var gert ráð fyrir því, að frv. myndu gefa af sér nærfellt 1 millj. og 600 þús. kr. samtals. Þetta sundurliðaði ég þannig, að vænzt væri 850 þús. kr. í tekju- og eignarskatt, 400 þús. kr. af tveimur tolllagabreyt., um 100 þús. kr. tekjuauka af tveimur litlum einkasölufrv., og 250 þús. kr. af frv. til l. um hækkun á benzínskattinum. Og þó að öll þessi frv. næðu samþykki,mætti ætla, að 400 þús. kr. vantaði til þess, að fullur greiðslujöfnuður yrði á fjárl.

Síðan hefir komið fram frv., sem ég geri ráð fyrir að gæti orðið ríkissjóði til nokkurra tekna, þó að ekki yrðu miklar á næsta ári, sem sé frv. um einkasölu á bifreiðum og fleiri vörum. Undirbúningur verður að vera svo mikill undir framkvæmd þessa frv., að næsta ár er ekki mikils tekjuauka að vænta. Þó vil ég reikna með því, að með þeim hætti fengjust 100 þús. kr. þegar á næsta ári.

Það er því síður en svo, að frv. þau, sem nú hafa verið lögð fyrir þingið, geri meira en að vega á móti útgjöldum þeim, sem nú eru í fjárl. Er því ekki hægt að leggjast á móti þessu tekjuaukafrv. nema með því að flytja um leið till. um að fella niður einhver af útgjöldum fjárl.

Það sýnir átakanlega hug hv. 6. þm. Reykv. gagnvart þessum málum, að hann vísar í frv., sem borin eru fram af stj., en hann og hans flokkar eru á móti, þegar um það er að ræða, að afla tekna. Hann vísar okkur á ágóðann af einkasölufrv., sem Sjálfstfl. er á móti. Þó að hæstv. forseti minnti menn á það áður að vera ekki stórorða, get ég ekki annað en kallað þetta skrípaleik, sem hv. 6. þm. Reykv. stendur fyrir, þar sem hann krefst útgjalda án þess að tekna sé aflað á móti. Fer vel á því, að hann standi fyrir slíku. Hitt er aftur enginn skrípaleikur, að vilja í alvöru leysa þetta vandamál útvegsins. Ef hv. þm. ætlar sér að standa fyrir slíkri lausn, ætti hann að fylgja fram þeim tekjuöflunarfrv., sent stj. ber nú fram, og beitu sér fyrir lækkuðum útgjöldum á fjárl. eða þá nýrri tekjuöflun.

Þó að hv. þm. segi, að stj. fjandskapist við sjávarútveginn, hljóta allir að sjá, að staðhæfingar hans eru úr lausu lofti gripnar. Hver maður hlýtur að sjá, að við getum ekki leyst okkur úr skuldufjötrunum nema með því að taka með karlmennsku á tekjuöflunarmálunum. Þykir mér leitt um svo mikið mál og viðkvæmt, sem þetta er, að reynt skuli hafa verið af sumum hv. flm. að þyrla upp um það orðaskvaldri og ávítum til þeirra, sem ekki hafa síður en þeir hug á að leysa það eins og bezt má verða, en hafa þó ábyrgðartilfinningu til að líta á báðar hliðar málanna.