09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (4131)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Páll Zóphóníasson:

Ég hefi áður við umr. um þetta mál beint spurningum til hv. mþn. Þeim hefir dálítið verið svarað, sérstaklega tveimur þeirra, af hv. 6. þm. Reykv., frsm. málsins. Ég spurði, hvernig því væri farið með útgerðarmenn, sem væru giftir, hvort eign konunnar væri talin eign mannsins eða ekki. Hann svaraði því, að hann hefði aldrei farið inn að rúmum hjónanna, til þess að grafast eftir séreign þeirri, sem konurnar kynnu að hafa þar, þá menn þeirra væru á sjónum. Mér fannst þetta lítið svar og lítið í sambandi við orsökina til þess, að ég spurði. Mér er kunnugt um það, að það eru margir í öðrum stéttum en útgerðarmannastétt, bæði í verzlunarmannastétt og ýmsum fleiri stéttum, sem hafa þann sið, að setja hlutu af eignum sínum á nafn konunnar. Ég þekki t. d. útgerðarmann, sem þannig er ástatt fyrir, að ef séreign konunnar er sleppt, kemur út að hann skuldi í 77% út á eignirnar, en ef séreign konunnar er tekin með, þá verður útkoman aðeins 47%. Fyrir öðrum útgerðarmanni, sem ég veit um, er þannig ástatt, að ef hans eigin eign er talin, er útkoman 98%, en ef séreign konunnar er talin með, verður útkoman 32%. Og sú af konum útgerðarmanna, sem látin er eiga mesta séreign, á 170000 kr. Þess vegna skiptir það miklu máli, hvort tekið er tillit til þessa eða ekki. Og ef það er ætlazt til þess, að 8 millj. krónu verði gefnar upp án þess að tekið sé tillit til eigna þeirra, sem taldar eru séreign konunnar, þó þær séu í rauninni sameign hjónanna, þá mun ég ekki verða með þeim ráðstöfunum á almannafé.

Sömuleiðis spurði ég hv. þm., hvernig því væri farið með útgerðarfélög og hlutafélög, sem upp eru tekin í yfirlitið, hvort tekið væri tillit til eigna þeirra manna, sem að þeim stæðu, eða ekki. Ég bjóst ekki við því, að það væri gert, og hann viðurkenndi, að það væri rétt. Þetta skiptir líka miklu máli, því að það eru ekki fá félög, sem gáfu hluthöfum sínum arð á góðu árunum. Af því hafa þeir sumir orðið stórríkir. En svo þegar illa gengur, þá á þjóðfélagið að hlaupa undir bagga og taka á sig töpin frá slæmu árunum, svo að útgerðin geti haldið áfram, en ekki að taka tillit til efnahags hluthafanna sjálfra og getu þeirra til að bjarga sínu eigin hlutafélagi, sem áður gaf þeim öll efni þeirra. Þetta skiptir miklu máli fyrir afstöðu mína.

Ég hefi litið á þessa skýrslu, sem útbýtt hefir verið hér í hv. d. frá mþn. í sjávarútvegsmálum. Hún er fróðlegt og merkilegt rit, sem mikil vinna hefir verið lögð í, og sýnir hún ýmislegt, sem þeir menn, er að sjávarútvegi vinna, ættu að gera sér far um að athuga vel. Hún sýnir það m. a., að hásetarnir, sem vinna á skipunum, bera því meira úr býtum hlutfallslega, þess minni sem skipin eru. Í 1. fl. hafa þeir 48,3% í kaup, en í stærsta flokki á togurunum hafa þeir ekki nema 31,2%. Hvorttveggja er miðað við öll gjöld útgerðurinnar. Að sama skapi sem hlutur þeirra manna minnkar, sem vinna líkamlegt erfiði á skipunum, þá vex ýms kostnaður, en hann er fyrst og fremst laun þeirra manna, sem í landi vinna við skrifstofur, stjórn o. fl. Hann vex frá 4% og upp í 13%. Þetta eru mjög athyglisverðar tölur, sérstaklega fyrir þá, sem telja sig vera leiðtoga hinna vinnandi stétta, og ættu þeir að athuga, hvort ekki mætti færa þetta til betri vegar.

Útsvarið og opinberu gjöldin, sem hv. sjálfstæðisþingmenn hafa margsagt, að væru að drepa útgerðina, eru 0,7—1,4% af öllum kostnaðinum. Undir þessu er útgerðin að sligast. En undan 12,8% af öllum útgjöldunum, sem fara til forstjóra, finnur hún ekki. Hvernig stendur á því?

Annars þykir mér mjög leitt, að ekki skuli vera sama flokkun á útgerðarmönnum í eignarflokkana og rekstrarflokkana. Væri svo, er ég sannfærður um, að í ljós kæmu sameiginlegar ástæður til þess, að efnahagurinn er misjafn, og þá mætti fá þarna mikinn lærdóm.

Ég vil mælast til þess, að ef það á fyrir þessu máli að liggja að komast í gegnum þingið, og það er mjög nauðsynlegt, þá verði tvenns gætt í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Í fyrsta lagi, að eignir, sem raunverulega eru eignir útgerðarmanna sjálfra, enda þótt þær séu á nafni konu eða barna, komi til greina sem eign útgerðarinnar, og að þeim sé ekki sleppt, og í öðru lagi, að þess verði gætt, hvernig aðstaða hluthafanna í félögunum er, hve mikið þeir áður hafi auðgazt á útgerðinni, og þeir sjálfir látnir leggja fram þann hluta aftur, áður en farið er að leggja fram opinbert fé til viðreisnar þeirra félagi.