13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (4153)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson) [frh.]:

Þegar ég hvarf frá þessu máli í gærkvöldi, var ég kominn að því að tala um álit meiri hl. sjútvn., og skal ég þá halda áfram með þetta mál.

10. desember, rúmum 10 vikum eftir að hæstv. ráðh. fékk þetta frv. í sínar hendur og tók við kynnu sér og sínum flokksmönnum efni þess, eftir því sem hann hefir sjálfur lýst yfir, þá fyrst kemur álit meiri hl. n. Ég ætla, að það sé dagsett 10. desember, en í gær kom það fyrst inn í d. Eftir þennan útungunartíma gæti maður nú ætlað, að meiri hl. hefði einhver rétt rök fram að færa og einhverjar skynsamlegar og velviljaðar till. til úrlausnar á málinu, byggðar á athugun og skilningi á þeim mikla vanda, sem hér liggur fyrir, og á frv. sjálfu. En af nál. er það í fæstum orðum að segja, að það er í raun og veru ekkert annað en níðrit. Það er spunnið úr vanþekkingu, óvild og mjög fágætum dónahætti, vil ég segja, og morandi í beinum ósannindum, því miður mörgum alveg vísvitandi. Ritsmíð eins og þetta nál. meiri hl. á auðvitað sinn líka. Það á eflaust sinn líka í greinum sorpblaða, en í þingskjölum held ég, að það eigi engan sinn líka, að ógleymdu áliti sömu n. um frv. til l. um fiskiráð. Ég mun finna öllum þessum orðum mínum stað í framhaldi þessarar ræðu minnar, bæði með tilvitnunum í nál. sjálft og jafnframt með tilvitnunum í það, sem áður hefir gerzt málinu. Meiri hl. segir í upphafi álits síns, að atvmrh. hafi komið á fund í sjútvn. 27. okt. og lýst því yfir, að frv. þetta hefði komið svo seint fram eða til stj., að hún hefði ekki getað tekið tillit til þess við samningu fjárlagafrv. fyrir 1935 og hefði þess vegna ekki séð sér fært að mæla með samþ. þess á þessu þingi, nema því aðeins, að séð væri jafnframt fyrir fjáröflun í þessu skyni. Hinsvegar hefði ráðh. æskt þess eindregið, að sjútvn. tæki til athugunar, hvort ekki væri unnt að gera ráðstafanir um skuldaskil smáútvegsins þegar á þessu þingi.

Það, sem hv. meiri hl. hefir hér eftir ráðh., er eitt af því fáa, sem er rétt hermt í nál., og þess vegna er bezt að athuga það fyrst.

Það atriði, að frv. hafi borizt stj. of seint til þess að hún gæti tekið tillit til þess við samningu fjárlagafrv. fyrir 1935, er auðvitað persónulegt álit ráðh. sjálfs, en að mínu áliti er þessi skoðun hans röng, eins og ég skal leitast við að færa rök að. Eins og ég hefi áður sagt, þá skýrði mþn. atvmrh. frá því í lok ágústmánaðar í sumar, hver niðurstaðan væri um efnahag útvegsins og hvað n. mundi leggja til, að gert yrði í þeim málum. N. óskaði eftir samvinnu við ráðh., sem sjálfsagt var, því að samkv. stöðu sinni var hann oddviti í þessu máli. Ráðh. tók máli n. vel, og um miðjan september færði n. ráðh. uppkast að þessu frv., sem hér liggur fyrir. Þá var jafnframt hæstv. fjmrh. kynnt þetta frv. og honum fært það af nm., og hann óskaði eftir, að ákveðnum manni í stjórnarráðinu yrði sýnt frv. og hann látinn fara yfir það og athuga sérstaklega hina teknisku hlið frv. Það er þess vegna mín persónulega skoðun, að frv. hafi komið nógu fljótt úr höndum n. til stj., svo að hún gæti tekið fullt tillit til þess við samningu fjárlagafrv. Hitt er annað mál, hvað er skoðun hæstv. atvmrh. í þessu efni. Hann segir, að það sé sitt álit, að það hafi ekki verið hægt. En sannleikurinn í þessu máli er sá, sem öllum hv. þm. á að vera kunnugt, að það var stj., sem hafði allar skyldur í þessu máli. Alþingi fól henni eða fyrirskipaði að láta þessa rannsókn fara fram og koma fram með till. til úrlausnar. Milliþn. starfaði aðeins fyrir stj. Það þýðir ekkert að vera að halda fram öðru eins og því, að stj. hafi þarna aðeins verið að athuga, hvort og hvernig hún ætti að taka undir mál mþn. Það var hún, stj. sjálf, sem átti að koma með og leggja fyrir þingið samkv. þáltill. till. til úrlausnar þessara mála, auðvitað byggðar á þeirri rannsókn, sem hún lét gera. Það er firra — og ég vona, að það sé í síðasta skiptið, sem ég þarf að mótmæla henni —, að allar skyldur í þessu efni hafi hvílt á mþn., en engar á stj. Því er alveg snúið við. Sannleikurinn er sá, að höfuðskyldan gagnvart þessu máli hvílir á stj., en ekki mþn. Mþn. var bara til aðstoðar stj., og ég þykist hafa fært að því sæmileg rök, að n. flýtti rannsókn sinni eins og hún gat og kynnti stj. niðurstöðurnar svo tímanlega, að það var nægilega rúmur tími til þess að taka tillit til frv. í samningu fjárlagafrv. fyrir árið 1935, og n. lagði við það alla alúð, að kynna stj. þetta mál og fá samvinnu hennar um úrlausn á þessum vanda.

Hitt atriðið, sem er haft eftir ráðh. og er alveg rétt, er það, að hann gæti ekki mælt með því, að frv. næði samþ. þessa þings, nema því aðeins að séð væri fyrir tekjuöflun í þessu skyni. Þessi orð ráðh. skildum við í mþn. þannig, að hann ætlaðist til, að frv. næði fram að ganga á þessu þingi, ef séð væri fyrir fjáröfluninni. Allur Sjálfstfl. hér á þingi var sammála um það, og form. flokksins lýsti því yfir hér í deildinni, að flokkurinn mundi leggja sitt lið til þess, alveg ákveðið, að fjárl. yrðu afgr. tekjuhallalaust, og vinna að því að ríkissjóði bættist sá tekjumissir, sem hann yrði fyrir, ef þetta frv. yrði samþ.

Til þess að framkvæma þetta varð fyrst og fremst að gera sér það ljóst, hver yrði tekjuöflun ríkissjóðs samkv. tekjuöflunarfrv. þeim, sem fram voru komin, bæði frá stj. og fyrir hennar atbeina, og í þessu skyni var það, að a. leitaði álits hæstv. fjmrh. Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að skýrslur hans um þetta efni nái ekki nokkurri átt. Ég þarf ekki að endurtaka það frá því í gærkvöldi, hver hans skýrsla var. Hann telur t. d., að einkasölufrv. gefi einar 200 þús. kr., og þar er ekkert tillit tekið til þess tekjuauka, sem leiðir af afnámi bannlaganna. Þar var gert ráð fyrir, að tollbreytingar mundu gefa 400 þús. kr., sem er mjög lág upphæð, en þó er það allra mest áberandi, að það er ekki gert ráð fyrir, að einkasölurnar gefi ríkissjóði svo sem neinn arð. Það er því svo langt frá því, að hér hafi fengizt nokkur samvinna við meiri hl. sjútvn. og stjórnarflokkana á þingi að gera rétta rannsókn á þessu máli, að hér er ekkert undir það tekið, alls ekkert. Og það vita allir, hvernig fór með samvinnuna við sjálfstæðismenn að rétta við fjárhaginn með niðurfærslu á útgjöldum. Allar slíkar till. voru hispurslaust drepnar af stjórnarflokkunum báðum hér á þingi.

Ég má nú til, af því að hið einstaka plagg, nál. meiri hl., er komið mér í hendur, að fara um það nokkrum orðum. Í þessu nál. er það endurtekið, að minni hl. sjútvn. og flm. þessa frv. hafi flýtt því svo, að meiri hl. hafi engan kost átt á að athuga það. Ég skýrði frá því í gærkvöldi, hver gangur þessa máls hefir verið, og hirði ekki um að endurtaka það; það er nóg að benda á það, að nú er komið á 11. viku síðan mál þetta var fyrst fengið hæstv. ráðh. í hendur með þeirri grg., sem frv. fylgdi. Og þegar hv. nm. segja, að þeir hafi engan kost átt á að kynna sér málið, áður en það var borið fram af okkur flm., þá vil ég enn benda á það, að hæstv. atvmrh. skýrði frá því, og hann hefir ekki verið véfengdur, að hann hefði haft málið hjá sér þessa 17 daga, sem hann hafði frv., til að kynna samflokksmönnum sínum það.

Ég vil álíta, að það muni vera rétt, einkanlega þegar mér er orðið kunnugt um það, að hæstv. atvmrh. hefir einmitt gert talsvert til þess að ná einhverju samkomulagi til úrlausnar á þessu, en hefir sýnilega lent þar í minni hl.

Í nál. segir svo, að málinu hafi verið hraðað það mikið, að ekki hafi verið hikað við að brjóta alla þingvenju til þess að ná því marki að koma málinu út og gera það að flokksmáli. Þetta eru svo blygðunarlaus ósannindi, að mig furðar, að það skuli vera sagt af sömu mönnum, sem vita það, að frv. er ekki flutt fyrr en fyrst í nóvember, en var fengið ráðh. í hendur fullbúið með grg. 10. okt. og hann leggur það fyrir sjútvn. 27. okt., og við gengum eftir meðnm. okkar um það að veru meðflm.

Þá segir hér í þessu nál., að það hafi verið sýnt, að ekki fengist samkomulag í n. um flutning frv., því að sjálfstæðismenn hefðu haldið fast við að taka sem mest af útgerðinni, og helzt alla, undir skuldaskilin og afgr. málið þegar á þessu þingi, en ekki getað bent á leiðir til fjáröflunar vegna þess tekjumissis, sem ríkissjóður yrði fyrir vegna samþykktar frv., enda hefði flokkur þeirra á þingi stuðið gegn öllum tekjuaukafrv. stj.

Manni blöskrar eiginlega ekkert, sem kemur frá þessum mönnum, og þau með verður að láta svo heita, að manni blöskri þetta ekki heldur. Það er ekki undarlegt, þó að sjálfstæðismenn haldi fast við það, að taka helzt alla útgerðina undir skuldaskil. Það er einmitt ágreiningurinn, að þeir vilja það, en hinir ekki. Hér er meiri hl. n. því eiginlega að löðrunga sjálfan sig, líklega óafvitandi, því að hann sýnist ekkert vita, hverja hann ber. Svo er því bætt við í nál.: „En ekki gátu þeir bent á leiðir til fjáröflunar vegna þess tekjumissis, sem ríkissjóður yrði fyrir vegna samþykktar frv.“ Við höfum mörgum sinnum boðizt til þess að gangast fyrir tekjuöflun, ef tekið væri á því, að láta frv. ganga fram. En tekjuöflun í þessu skyni, þegar þverneitað er að láta frv. ganga fram, það sér hver maður, að væri ekkert nema vitfirring. Slík hugsun getur ekki fæðzt í nokkrum heilbrigðum heila. Og svo koma þessi rakalausu ósannindi, að sjálfstæðismenn hér á þingi hafi staðið á móti öllum tekjuaukafrv. Ég veit ekki betur en að búið sé að samþ. tekjuaukafrv. með atkv. sjálfstæðismanna, og ég veit heldur ekki betur en að þeir hafi komið fram með till. um allmikinn sparnað á fjárl., en þær voru allar strádrepnar. Sjálfstfl. hefir margsinnis boðizt til þess að gangast fyrir tekjuöflun vegna Skuldaskilasjóðs, að svo miklu leyti sem tekjuöflunarfrv. stj. ekki nægðu, en þeir eru ekki svo gersneyddir þeirri ábyrgðartilfinningu, sem stjórnarflokkarnir virðast vera sneyddir, að þeim detti í hug að leggja álögur á þjóðina, nema full þörf sé þar fyrir hendi. Þess vegna dettur sjálfstæðismönnum ekki í hug að leggja á nýja skatta vegna þessa frv., nema frv. sé um leið tryggður framgangur. Ef það er ekki sýnt, að tekjuöflunarfrv. þau, sem samþ. verða, nægi ekki til þess, að fjárl. verði afgr. tekjuhallalaust, þó að skuldaskilasjóður yrði stofnaður, þá kemur ekki til mála, að sjálfstæðismenn gangist fyrir nýjum álögum þar að auki.

Hér stendur, að meiri hl. hafi hinsvegar haldið þeirri skoðun hæstv. atvmrh. fast fram, að smábátaútvegurinn og vélbátaútvegurinn skyldi styrktur af ríkinu til þess að ná skuldaskilasamningum. Engu í þessa átt hefir meiri hl. haldið fram. Hann hefir ekki fengizt til neins samkomulags um þá hluti. Ég sé nú ekki neinn úr hv. meiri hl. hér í salnum, enda er mér sama hvar þeir flækjast. Þeir skulu ekki með flótta sínum hefta mig í því að segja það, sem segja þarf. Ég veit, að það er sama og að stökkva vatni á gæs, að ræða við þá með rökum. Þess vegna hirði ég hvergi, þó þeir snúi nú baki við, þar sem þeir ættu að beita brjóstinu, enda er bakhlutinn kannske engu ógöfugri. Þeir hafa aldrei orðað það, að smábátaútvegurinn ætti að fá hjálp. Þeir hafa skvaldrað um málið vítt og breitt, en alls ekki komið með neinar till. til samkomulags um hjálp handa smábátaútgerðinni. „En bankarnir yrðu að sjá fyrir stórútgerðinni“, segir hér, „línuveiðurum og togaraútgerðinni“. Ég býst við, að bankarnir telji sér ekki fremur skylt að hjálpa togaraútgerðinni en öðrum greinum útgerðarinnar. Ég býst við, að þeir reyni að inna af höndum skyldur sínar og hjálpa þessum atvinnuvegi eftir því sem á stendur í hverju einstöku tilfelli, en miði þá hjálp hvorki við skipastærð né persónur.

Þá segir hér í nál. meiri hl. n., að svo virðist, sem það sé skoðun allra, sem ræða um málið, bæði bankastjóra og flm. frv., að engin skuldaskil geti orðið fyrir næstu vertíð, þótt frv. næði fram að ganga á þessu þingi. Ég sé nú ekki, hvernig nokkrum manni hefði getað flogið það í hug að skuldaskil gætu orðið áður en næsta vertíð hefst, þar sem bátavertíðin byrjar nú næstu daga og togaraveiðin í febrúar. Mþn. datt ekki í hug, að þetta lánaðist á styttri tíma en tveimur árum. Þessi orð meiri hl. sjútvn. eru því sögð út í loftið og sýna, að hann hefir aldrei botnað neitt í þessum skuldaskilamálum. Ég geri ráð fyrir, að allir skynbærir menn skilji, að skuldaskilasjóðurinn er enn ekki nema frv., sem fyrst þarf að verða að lögum, og þar næst þarf að afla fjár í sjóðinn og síðan þarf hann að fá í hendur öll nauðsynleg gögn til þess að geta annazt lánveitingar.

Svo þegar meiri hl. fer að ræða um, hvert hafi átt að vera verkefni mþn., þá hefir hann látið prenta upp í nál. þál. um starf n. frá l933, sem bæði er prentað í grg. frv. og áliti mþn., auk þess sem hún er í Stjórnartíð. frá 1933, og segir svo: „Verkefni mþn. voru mjög stór samkv. þál., sem birt er hér að framan. en í till. n. felast ekki úrlausnir á þeim nema að mjög litlu leyti. Má í því efni vitna til skýrslu n. sjálfrar um afkomu útvegsins.“ Þetta bendir til þess, að meiri hl. hefir ekki einu sinni lesið nál., eða ef hann hefir gert það, þá hefir hann ekki skilið það, og er hvorttveggja jafnsennilegt frá mínu sjónarmiði. Í þál. stendur, að stj. eigi að láta rannsaka og safna skýrslum um fjárhagsástæður og afkomuhorfur sjávarútvegsmanna um land allt. Ég held, að því verði ekki neitað, að n. hefir gert það, eftir því sem hægt var á ekki lengri tíma. Í öðru lagi segir, að undirbúa skuli till. til úrlausnar á vandamálum útvegsmanna, einkum um ráðstafanir af hálfu hins opinbera, til að firra þá vandræðum vegna yfirstandandi krepputíma. Þessir 2 liðir í þál. eru auðvitað höfuðverkefni n. Nú er það vitanlegt, að n. hefir framkvæmt þessa rannsókn og borið fram þær till. til úrlausnar á vandamálum sjávarútvegsins, sem fyrst og fremst stefna að því, að skapa útveginum fjárhagslega sjálfstæðan grundvöll. Og það er álit n., að þetta sé sú umbót, sem fyrst þurfi að gera á þessum atvinnuvegi, áður en lengra er farið. Og ég hefi ekki heyrt neinn mótmæla því áliti n., nema ef á að skoða sem mótmæli það skvaldur, sem er að finna í nál. hv. meiri hl. n.

Þá var það annað, sem n. komst að við rannsókn sína, en það var, að útgerðartækin hafa, í seinni tíð mjög gengið úr sér. Þetta á sér einkum stað, þegar hart er í ári, að útgerðarmenn eiga erfitt með að halda við skipum sínum. Þetta stafar af því, að hér er engin stofnun, sem veitir stofnlán til útvegsins, nem, lítill vísir til slíkrar stofnunar, þar sem Fiskveiðasjóður er. Eftir að n. hafði komizt að því, að það þurfti að endurnýja fiskiflotann, og þá sérstaklega stóru skipin, komst n. að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti að efla þá stofnun, sem veitir stofnlán til sjávarútvegsins. Þess vegna hefir n. flutt frv. um að efla Fiskveiðasjóð, og ég hefi ekki heyrt vefengt, að þær till. mundu koma að gagni.

Í þriðja lagi átti n. að athuga leiðir til þess að bæta rekstur útvegsins. Það hafði verið bent á það, að vátrygging smábáta væri í ólagi. N. fékk því sérfræðinga til þess að athuga þetta, og það kom í ljós, að vátryggingum þessum er mjög ábótavant. Þess vegna skilaði n. frv. um vátryggingar báta, sem gerir það að verkum, ef að lögum verður, að gera áhættu þeirra minni, sem lána fé til bátanna og hafa tekið mjög háa vexti af þeim lánum, fyrir það hve áhættan er talin mikil. Þá er það viðurkennt, að útgerðin hefir víða borgað miklu hærra verð fyrir ýmsar útgerðarvörur en líklegt væri, að þyrfti að vera, ef útgerðarmennirnir hefðu samtök með sér um útvegun hagkvæmra lána, til þess að kaupa þessar vörur, og þess vegna hefir n. samið frv. um rekstrarlánafélög fyrir smábátaútveginn. Það hefir komið í ljós, að smábátaútvegurinn, sérstaklega á afskekktum stöðum, sætir mjög hörðum kjörum í þessum efnum, og ég hefi ekki heyrt því mótmælt, að öflun þessara vara yrði ódýrari og rekstrarlánin áhættuminni, ef þessi félög yrðu leidd í lög.

Ég ætla, að þessi atriði afsanni þá firru hv. meiri hl. sjútvn., að mþn. hefði að mjög litlu leyti leyst þau verkefni, sem henni var falið að leysa. — Þá ræðir í nál. um tekjuhalla sjávarútvegsins, og segir þar m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Árin 1930, 1931 og 1932 er hinsvegar samkv. skýrslunni tekjuhalli á útgerðinni, sem nemur samtals kr. 8669870“. „Aurum sleppt“, segja þeir neðanmáls, þessir vitru menn. En það er töluvert meira en aurarnir, sem sleppt er. Það er skýrt fram tekið í nál. og skýrslum mþn., að þessar tölur séu miðaðar við það, hvernig útgerðin hefir gengið, en ekki hver rekstrarhallinn hafi orðið í heild. Tekjuhallinn hefir orðið miklu meiri, því þessar tölur eiga aðeins við þá útgerðarmenn, sem n. hefir fengið rekstrarreikninga frá. Hér er því sleppt meiru en aurum; hér er sleppt milljónum. Þetta sýnir það enn, að hv. meiri hl. sjútvn. hefir annaðhvort ekki lesið skýrslur mþm. eða þá að hann hefir ekki skilið þær. Þá ályktar n. út frá þessum forsendum, að á þessum þremur árum hafi útgerðin ekki greitt vexti af lánsfé nema rúmar 3 millj. kr., og af eigin fé hafi útgerðin greitt í vexti rúma 640 þús. kr., og þá segir n., að tekjuhallinn fram yfir það sé nærri 5 millj. kr. Svo undirstrikar hv. meiri hl. n.: „Og leiðir skýrslan það í ljós, að jafnvel þótt skuldirnar hefðu verið allar strikaðar út, og útgerðin hefði enga vexti þurft að greiða af skipunum, varð samt um 5 millj. kr. tekjuhalli á rekstri þeirra skipa, er skýrslur n. ná yfir á þessum þrem árum“. Með þessu virðast þeir ætla að sanna, að þýðingarlaust sé að losa útgerðina við vextina. En þetta er auðvitað hin mesta kórvilla. Það þarf að reyna að losa útveginn við skuldirnar og lækka vextina. Það er sennilega enginn svo grunnhygginn, nema þessir hv. nm., að halda, að hægt sé að hjálpa með því einu að lækka vextina, en hinsvegar geta allir séð, að það gæti hjálpað mikið. Eins og sýnir sig á skýrslu mþn., eru vextir útgerðarinnar af lánsfé á fjórðu millj. kr. á þessum þremur árum, og er þó vitað, að mikið vantaði af rekstrarreikningum, er skýrslan var samin, og töluvert miklir vextir eru þarna, ótaldir af svonefndum biðskuldum.

Ég hefi heyrt það á sumum mönnum, að vaxtalækkun þýði lítið fyrir útveginn, úr því hallinn sé miklu meiri en það, sem vöxtunum nemur, en þetta er hin mesta villa. Þetta er þó einn þáttur í viðreisn útvegsins, og til þess að útvegurinn geti starfað á eðlilegan hátt, þarf að létta skuldabyrði hans, sem er orðin honum um megn.

Það yrði of langt mál að eltast við allar þær blekkingar, sem meiri hl. sjútvn. hefir hrúgað upp í áliti sínu, en hér segir, að mþn. hafi fengið skýrslur um kaupgjald og hlutarráðningu frá Noregi, „og virðist n. telja hvorttveggja til fyrirmyndar, enda þótt þaðan komi á hverju ári fregnir um sult og bágindi fiskimanna og tekjur sjómanna hér séu svo lágar, að þær þurfi að hækka, þó hærri séu en í Noregi“. Ég veit ekki, hvað hæft er í þeim fréttum, sem hér er vitnað í um sult í Noregi, en ég vil geta þess, ef allir hv. þdm. eru ekki búnir að lesa álit mþm., að n. safnaði skýrslum frá mörgum löndum, öllum í gegnum sendiráð Dana, um marga hluti, sem ég man ekki alla upp að telja, en þó fyrst og fremst um það, hvað hinar ýmsu þjóðir gera mikið fyrir sína útgerð. Og það var alstaðar mjög mikið. Hvergi nema hér er lagt útflutningsgjald til ríkissjóðs á sjávarafurðir. Aftur á móti er víða veitt einskonar premía fyrir að afla mikið og flytja mikið út, og allar þjóðir hafa gert ráðstafanir til þess að bæta lánskjör þessa atvinnuvegar, margar með beinum fjárstyrk til veiðarfærakaupa eða skipabygginga, margar þjóðir hafa lagt fram fé til lækkunar vaxta og til rekstrarlánastarfsemi, en um þetta getur meiri hl. ekkert; honum finnst kannske, að þetta sé allt einskis virði fyrir útveginn. Meiri hl. n. — og að því er virðist meiri hl. þings — hefir allt annan skilning á sjávartútveginum hér heldur en aðrar þjóðir í Norðurálfunni hafa á sínum sjávarútvegi. Sá munur er svo mikill, að það er ekki undarlegt, þó á hann sé bent. Þegar á að koma sjávarútveginum hér á réttan kjöl, er því ekki að undra, þó leitað sé upplýsingu um þá aðbúð sem sjávarútvegurinn hefir hjá nágrannaþjóðunum, sem nota sömu markaði og við, og við þá athugun kemur glöggt í ljós, að hún er öll önnur en gerist hjá Íslendingum. Hitt er nokkuð einkennilegt, að meiri hl. skuli nota þessa skýrslusöfnun mþm. til þess að hrúga upp blekkingum í málinu. Mþn. útvegaði þessar upplýsingar að eins til þess að sýna fram á mismunandi kjör sjávarútvegsins hér og annarsstaðar, og til þess að leita fyrirmynda hjá öðrum þjóðum í þessum efnum.

Þegar svo meiri hl. n. er búinn að tala um sult og seyru sjómannanna í Noregi, sem mþn. telji til fyrirmyndar, þá er haldið áfram, og segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þá minnist n. einnig á útgerðarvörur, svo sem olíu, kol, salt, beitu og veiðarfæri, sem seldar eru hér á landi hærra verði en í nálægum löndum. Þó n. sé þetta ljóst, kemur hún ekki með neinar frambærilegar till. um að færa þetta til réttlætingar“. Kannske meiri hl. ætlist til, að mþn. hefði borgað þennan mismun? Hvað átti n. annað að gera en að benda á, hvernig þetta er, og á hvern hátt hún telur tiltækilegast að lækka verð á þessum vörum? Hún benti á, að verð á þessum vörum væri hátt, m. a. fyrir innflutningshöft, sem meiri hl. sjútvn. eru ekki á móti skapi. Og mþn. benti á, að helzta leiðin til þess að lækka verð á þessum vörum væri sú, að útgerðarmenn gætu greitt þær við móttöku, til þess að ekki þyrfti að fá þær að láni hjá þeim, er verzla með þessar vörur. Af þessum ástæðum lagði n. til, að útgerðarmönnum væri gert mögulegt að stofna félög, til þess að fá bankalán til kaupa á útgerðarvörunum. Það er nú svo, að fjöldinn allur af útgerðarmönnum hefir ekkert til þess að kaupa þessar vörur fyrir í byrjun vertíðar, eða til þess að greiða önnur óhjákvæmileg gjöld, svo sem vátryggingu og skrásetningargjald. Og ef þeir hafa ekki fé fyrir hendi til þess að greiða þessi gjöld, eða útgerðarvörur, svo sem veiðarfæri, olíu, beitu og salt, þá verða þeir að fá þessur vörur að láni, en um leið eru þessar vörur komnar í geipiverð. N. hefir bent á það, ef stofnuð yrðu félög í hverri verstöð meðal útgerðarmanna, er útveguðu þeim lán til staðgreiðslu á þessum hlutum, þá mundi útgerðarkostnaðurinn mikið lækka. Líklega hafa þessar till. mþn. farið framhjá meiri hl. sjútvn. og þess, vegna fer hann með þessar staðleysur og ósannindi.

Svo segir þessi nefndarhluti: „Hinn mikla mismun á verði á útgerðarvörum, sem menn eiga við að búa í verstöðum innanlands, minnist n. ekki á, svo að séð verði“.

Þetta er nú einmitt eitt af því, sem mþn. hefir gert gleggsta grein fyrir, hinn mikli munur á verði útgerðarvara. Þess vegna ber hún fram frv. um rekstrarlán útvegsmanna. Bæði í grg. þess frv. og hér í hv. d. hefir ljóslega verið gerð grein fyrir því, að þessi mikli verðmunur stafar af því, eins og öllum skynbærum mönnum er kunnugt, að þegar menn geta ekki fengið heila skipsfarma í einu og greitt vöruna við móttöku, þá verður að kaupa hana dýrara verði á öðrum höfnum og fá hana síðan flutta í smáskömmtum á útgerðarstaðinn. Við slíkan flutning er geysimikill kostnaður. Þetta verður ekki leiðrétt nema menn geti fengið vöruna beint. Það er vitanlegt, að það hefir komið fyrir að salt hefir verið selt þriðjungi og jafnvel helmingi hærra verði í einstökum afskekktum stöðum heldur en það kostar komið í höfn hér í stórum förmum. Þó er ég alls ekki viss um, að þeir, sem flutt hafa saltið til þessara staða og selt það, hafi tekið meira fyrir það en þeir þurftu. Þetta stafar af óhentugu fyrirkomulagi.

Þegar svo n. hefir fimbulfambað um þetta, sumpart af ókunnugleika og sumpart af þörf til þess að segja skammir um mþm., kemur þessi gullvæga setning: „Ástæðan til þess, að skýrslan greinir ekki ljóslega frá þessum útgjaldahlið, gæti legið í því, að meiri hl. n. er úr þeim stjórnmálaflokki, sem að mestu leyfi styðst við þá, sem lifa á þessari verzlun“.

Ég hefi aldrei séð neitt hliðstætt þessu í þskj. Þetta eru auðvitað heimskuleg og vísvitandi ósannindi, en þar að auki er svo fjarri því, að nokkur maður trúi slíku, að það er óskaplegt, að fullorðnir menn skuli bera það fram. Þó í einstökum tilfellum hafi verið selt mjög dýrt salt á afskekktum stöðum, þá veit enginn, hverjir það hafa gert, og það liggur ekkert fyrir, sem bendir til þess, að nokkur hafi haft af því óeðlilegan gróða. Hið háa verð stafar af fyrirkomulagi sölunnar. Það er alveg merkilegt, að menn skuli vilja heimska sig á öðru eins og því að segja, að meiri hl. Sjálfstfl. lifi af því að selja salt! Auk þess er það svo fúlmannlegt að bera fram svona getsakir á hendur mþn., sem hefir starfað algerlega hlutdrægnislaust, að það gegnir furðu, að slíkt skuli borið inn í þingið. Gátu ekki þessir aumingja menn fengið sér eitthvert afdrep áður en þeir lögðu þennan óþverra af sér? Eða er sómatilfinningin alveg gersamlega vikin frá þeim?

Áður en ég skil við þetta atriði, ásakanirnar í garð mþn. um það, að hún hafi ekki athugað og tekið tillit til þess, að hinn hái rekstrarkostnaður útgerðarinnar liggur í fleiru en vaxtagreiðslum, þá vil ég benda hv. þm. á það, að mjög mikið af verki n. gekk einmitt til þess að láta gert skýrslur og rannsóknir um, hvar væri helzt að ráðast á, til þess að koma útgerðarkostnaðinum niður. Og n. tók það fram strax í upphafi í nál. sínu, þó hv. meiri hl. sjútvn. hafi e. t. v. hvorki lesið það né skilið, að henni væri ljóst, að ekkert þýðir að gera skuldaskil sem þessi, nema þar fari á eftir aðrar aðgerðir til þess að leiðrétta hinn óhagstæða rekstur. En hún segir jafnframt, að þessu verði að halda hverju út af fyrir sig, því skuldaskilin verði að koma fyrst. Síðan bendir n. á, að hún hafi látið gera margskonar skýrslur og rannsóknir, sem eigi að sýna, hvað mikill hluti af útgerðarkostnaðinum hver útgjaldaliður er, og hvernig þeir hafa breytzt ár frá ári, til þess að menn geti betur áttað sig á, hvaða liðir eru óeðlilega háir. Þar að auki bendir n. sérstaklega á ýmsa af þessum kostnaðarliðum og hvernig þá mætti leiðrétta. Svo segir hv. meiri hl. sjútvn., að n. hafi ekkert sinnt þessari hlið málsins, og það muni vera af því, að meiri hl. mþn. sé af þeim stjórnmálaflokki, sem að mestu leyti styðjist við menn, sem selja salt.

Í þessu sambandi kemur svo hv. meiri hl. að því, að það liggi svo mikill stjórnarkostnaður á útgerðinni. Ég kalla það alllitla feimni af þeim, sem að þessu plaggi standa, að tala um slíka hluti. Ég er ekki kunnugur stjórnarkostnaði útgerðarinnar yfirleitt, en ég er þó kunnugur einu togarafélagi, og öll þau ár, sem það félag starfaði, hafði framkvæmdarstjórinn lægst laun af öllum, sem við félagið unnu. Enginn háseti hafði svo lága ársþjónustu, að hann hefði ekki meira. Skrifstofukostnaður, framkvæmdastjórn og ferðakostnaður nam 6000 kr. á ári, og þar af mun framkvæmdastjórinn hafa haft um 3000 kr. Aftur er hv. form. sjútvn. framkvæmdarstjóri þess útgerðarfélags, sem mun hafa haft tiltölulega hæstan stjórnarkostnað af öllum íslenzkum útgerðarfyrirtækjum. En þar er sú sérstaka aðstaða, að hægt hefði verið að velta rekstrarhallanum yfir á bæjarfélagið hans og pína hann út frá borgurunum með útsvörum, og sumpart yfir á ríkið og pína hann þannig út með sköttum á fyrirtæki og alþýðu í landinu.

Þá talar nál. meiri hl. um, að auðsafn talsvert hafi orðið hér á landi síðan um aldamót fyrir aðgerðir útgerðarinnar. Þetta er eitt af því fáa, sem satt er í áliti þessa nefndarhluta. Svo heldur hann áfram:

„Stórútgerðin hefir dregið mestan hluta auð, þessa að landi, en skipunum, sem fært hafa landsmönnum þennan auð, er nú lýst af formanni í félagi eigendanna sem fúadöllum, ryðkláfum og manndrápsbollum. Peningarnir, sem sjómennirnir hafa hætt lífi sínu fyrir, hafa ekki gengið til endurnýjunar skipunum, heldur til ýmislegs annars, sem margt er sjómönnum alveg óviðkomandi. Jafnframt því sem skipin hafa gengið úr sér og ekki verið endurnýjuð, hafa þau safnað skuldum, að nokkru leyti hjá bönkunum og að nokkru leyti hjá einstökum verzlunarfyrirtækjum, sem oft eru búin að græða upphæð, er skuldinni nemur, eða meira, á því að selja skipunum útgerðarvörur.

Þessar skuldir vill minni hl. sjávarútvegsnefndar nú setja að nokkru leyti yfir á ríkissjóð, án þess þó að gera nokkrar ráðstafanir til að bjarga skipunum frá að sökkva dýpra og dýpra í skuldafenið og án þess að gera ráðstafanir til þess að þau verði endurnýjuð.

Meiri hl. nefndarinnar getur ekki, að athuguðu máli, fylgt þessu“.

Ég verð að eyða nokkrum orðum til að fara í gegnum þetta. Þarna er hrúgað saman þeim firnum af fávizku og níði, að ekki er fljótgert að moka öllum þeim óþverra burt. Það er vitanlegt, að stórútgerðin hefir dregið á land stórfé á undanförnum áratugum, og það eru heldur kaldar kveðjur, sem hún fær nú fyrir. Síðan um aldamót hafa útgjöld ríkissjóðs vaxið úr 3/4 millj. upp í 25 millj. á einu ári. Árlegar tekjur hans eru komnar ofarlega á annan tug millj. Það er vitanlegt, að mest af þessu fé er frá sjávarútveginum komið. Og ég veit ekki betur en allur landslýður hafi notið þessa fjár. Fyrir það hafa verið gerðar allar framfarir síðari ára, sem miða að því að gera lífsnautn þeirra, er landið byggja, meiri en áður. Og það er ómótmælanlega sannað með skýrslum, að útgerðin hefir veitt mönnum meiri tekjur heldur en nokkur önnur starfsemi í landinu. Hæst kaup hefir stórútgerðin veitt sjómönnum, þó sérstaklega sé hér hlaðið á hana, skömmum.

Nefndarhlutinn segir, að skipum útgerðarinnar sé nú lýst eins og fúadöllum og ryðkláfum. Það er ekkert leyndarmál, að síðan áníðsla ríkisins á sjávarútveginum komst í algleyming síðan farið var að féfletta hann beinlínis í þágu hins opinbera, þá hefir ekki verið unnt að endurnýja skipastólinn. Jafnaðaraldur togaranna er kominn á 15. ár og jafnaðaraldur línuveiðaranna er yfir 30 ár, enda hafa þeir flestir verið keyptir inn í landið gamlir. Það er því ekkert ósatt í því, að þetta séu orðnir ryðkláfar, og engin ástæða til að dylja það. En í hvaða sambandi var talað um þetta? Það var verið að fara fram á, að sjávarútvegurinn fengi leyfi til að endurnýja sig sjálfur, til þess að hann geti haldið áfram að bera auð að landi. Þetta á að vera einhver óskapleg goðgá!

Svo segir, að minni hl. sjútvn. vilji færa skuldasöfn útvegsins að nokkru leyti yfir á ríkið. Minni hl. hefir aldrei farið fram á neitt í þá átt. Það hefir bara aldrei komizt inn í hinn ferkantaða haus þeirra meirihl.manna, hvað mþn. meinar. Hún segir skýrum orðum, að hún ætlist til, að sjávarútvegurinn rétti sig við af eigin rammleik. Það er farið fram á, að sjávarútvegurinn fái að halda útflutningsgjaldinu til eigin þarfa. Þar er ekki unt að ræða neina eign, sem ríkissjóður á, heldur gjald, sem lagt er á þennan atvinnurekstur sjálfan. Svo bætir þessi virðulegi nefndarhluti við: „án þess þó að gera nokkrar ráðstafanir til að bjarga skipunum frá að sökkva dýpra og dýpra í skuldafenið og án þess að gera ráðstafanir til þess, að þau verði endurnýjuð.“

Eru þessir menn alveg gengnir frá vitinu? Þetta segja þeir einmitt þegar þeir eru að fjalla um frv. frá mþn. um að sjávarútvegurinn fái leyfi til að leggja sjálfur fé í sjóð til þess að endurnýja flotann. Ég sé, að eitt flónið hlær. En ég vil leyfa mér að segja það, að réttast væri, að þingið gerði samþykkt um, að þetta plagg væri gert upptækt og brennt, mér liggur við að segja í lúkum þeirra manna, sem sett hafa það saman. Svo mikil skömm er að því, að slíkt skuli vera lagt fram á Alþingi, að það ætti að afmá það með öllu.

Hv. nefndarhluti segist ganga inn á, að smáútveginum sé hjálpað, en vera ófáanlegur til að láta stórútgerðina velta sínum skuldum yfir á ríkið. Hver hefir beðið um það, að ríkið taki við skuldum stórútgerðarinnar? Enginn, mér vitanlega. Það hefir aðeins verið talað um, að þessi útgerð fengi að halda einhverju af sínum eigin tekjum til þess að lækka skuldirnar og endurnýja skipastólinn. Fram á annað hefir ekki verið farið. — Hér segir síðan:

„Einstaklingar hafa ekki orðið þess megnugir eða ekki hirt um að endurnýja stórútgerðina. Það opinbera, ríki eða bæjarfélög, verður því fyrr eða síðar að hlaupa undir bagga og gera það eða veita aðstoð til þess, eigi ekki sá hluti útgerðarinnar, sem beztan arð getur gefið og mesta atvinnu á sjó og landi, að leggjast í rústir. Til þessa álítur meiri hl. n. að nota beri fé og lánstraust ríkisins, en ekki í skuldafenið og hin gömlu sökkvandi skip einstaklinga.“

Hvað meinar hv. nefndarhluti með því, að ekki eigi að nota fé í hin „sökkvandi skip einstaklinganna“? Meinar hann, að eigi að sökkva þeim skipum, sem til eru, og láta bæjarfélögin og ríkið kaupa skip í staðinn? Hvar hafa bæjarfélögin fé til slíkra hluta? T. d. það bæjarfélag, sem hv. form. sjútvn. hefir verið að látast stjórna? Ætli það verði ekki svo, að útgerðin sjálf verði að leggja til þetta fé?

Það er nú komið í ljós við rannsókn, að útgerðarmenn eru öreiga. Ég veit ekki, hvers þeir eiga þá að gjalda sem auðvald, þegar þeir eiga ekki neitt. Eiga þeir að gjalda þess, að hafa byggt upp þjóðfélagið og gert það þess megnugt, sem það hefir verið, þó nú sé það að verða loppið í höndum fáráðlinga? Eiga þeir að gjalda þess, að útgerðin hefir lagt fram fé til þess að koma upp skólum, sjúkrahúsum, söfnum, vegum, síma og öðrum gagnlegum hlutum, að hún hefir gert þjóðinni fært að lifa menningarlífi, þó enn virðist vera hér til menn, sem ekki hafa tekið menningunni?

Þeir, sem andað hefir kaldast frá til útgerðarinnar, hafa fundið henni það til foráttu, að hún væri auðvald í landinu. Það hefir verið aðalbrennsluefnið, þegar kynt hefir verið undir til þess að gera útgerðinni sem erfiðast fyrir, að útgerðarmenn væru svo ríkir, að það væri meiningarleysa að slaka á kröfunum, því þeir rökuðu saman fé og níddust á alþýðunni, sem lifði við sult og seyru. Nú eru þetta orðin gatslitin ósannindi, og því hefir alveg verið snúið við blaðinu. Nú er aðalsynd útgerðarmannanna, hvað þeir eru fátækir. Nú er sífellt hamrað á því, að það þýði ekkert að vera að halda þessum mönnum uppi. Meira að segja sanngjarnasti maðurinn, sem um þetta hefir rætt, sagði í útvarpsræðu, að það væri útgerðarmönnum sjálfum að kenna, hvað útgerðin hefði gengið illa. Furðaði mig á slíkum ósannindum frá þeim manni; hefði verið verðugra, að þau hefðu verið sögð fyrir reikning meiri hl. sjútvn.

Ég ætla svo samkv. tilmælum hæstv. forseta að ljúka þessum kafla ræðu minnar og geyma þar til eftir kaffihléið að ræða um þá rökstuddu dagskrá, sem borin hefir verið hér fram. [Frh.]

4154

Forseti (JörB): Við 1. umr. þessa máls var allmikill ágreiningur milli manna og fóru þá ýms hörð ummæli manna á milli. Það má vera, að hv. 6. þm. Reykv. finnist af litlum skilningi tekið á þessu máli af ýmsum öðrum dm., en þó svo kunni að vera að hans áliti, er eigi rétt að viðhafa óþingleg orð, þegar rætt er um þau málefni, er fyrir Alþingi koma. Vil ég því biðja hv. 6. þm. Reykv. og aðra að viðhafa ekki framvegis óþinghæf ummæli, þó nokkuð skorist í odda um skoðanir manna.