13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (4156)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Finnur Jónsson:

Ég mótmæli því algerlega, að þetta nál., sem fyrir liggur og hv. 6. þm. Reykv. talaði um, sé óþinglega orðað, og ber ég það undir dóm hv. þdm. Nál. þetta er að öllu leyti prúðmannlega orðað og rækilega rökstutt. Í sambandi við þær ávítur, sem hæstv. forseti beindi til hv. 6. þm. Reykv., vildi ég biðja þeim hv. þm. nokkurra griða, því að mér er það kunnugt af langri samvinnu við þennan hv. þm., að hann getur ekki lifað án þess að velta sér upp úr soralegu orðbragði, bæði í ræðu og riti. Og vegna þessarar lífsnauðsynjar hv. 6. þm. Reykv. vildi ég biðja hæstv. forseta að gefa honum nokkuð lausan tauminn í þessu máli.