14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (4161)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson) [frh.]:

Hér liggja fyrir bréf um þetta mál frá bankastjórum beggja bankanna, en þeir höfðu báðir fengið frv. til umsagnar. Stjórn Útvegsbankans kveðst ekki geta gefið álit um frv., þar sem hún hafi ekki haft tíma til að setja sig inn í málið, en sýnilegt sé, að frv. nái ekki fram að ganga á þessu þingi, enda er það nú orðið öllum ljóst.

Bréf Landsbankans er nokkru fyllra. Bankastjórnin segir hið sama og stjórn Útvegsbankans, að þar sem komið sé að þinglokum, sé sjáanlegt, að þessi löggjöf komi ekki að gagni fyrir næstu vertíð. Þetta er nú ekki annað en það, sem allir vita, því að þótt frv. hefði verið samþ. í þingbyrjun, hefði aldrei verið hægt að gera skulda skil fyrir næstu vertíð, sem er þegar byrjuð hjá bátunum, og hefst eftir 2 mánuði hjá togurum. Mþn. hafði gert ráð fyrir, að skuldaskilum gæti orðið lokið á tveim árum.

Hv. deild sá ekki ástæðu til þess að taka tillit til álits bankanna á þessum málum, en þeir hafa þó orðið að stríða mjög við ýms vandamál í sambandi við fiskverzlunina. En enda þótt álit þeirra, sem ég tel mjög merkilegt, yrði tekið til greina, þá geri ég naumast ráð fyrir, að hv. meiri hl. þessarar deildar legði mikið upp úr því. Það er tekið fram af hálfu Landsbankans, að hann muni ekki nota sér það neyðarástand, sem útgerðarmenn eiga við að búa, til þess að ganga að þeim venju fremur, þótt þetta mál nái ekki fram að ganga á þessu þingi, sem fyrirsjáanlegt er, að ekki muni takast. Mér þykir þetta mikilsvert, og þar sem mér hefir skilizt á sumum hv. þdm., að þeim virtist koma liðstyrkur frá bönkunum við ásetning þeirra að sýna máli þessu mótþróa, þá vil ég taka það fram, að augljóst er, að það er þvert á móti að svo sé. Jafnvel þótt Útvegsbankinn segi þetta ekki berum orðum, þá má þó glöggt skilja, að hann tekur í sama streng og Landsb. Landsbankinn telur brýna nauðsyn á þessu, og í samræmi við þá umsögn bankans er álit það, sem við sjálfstæðismenn höfum látið í ljós um þetta mál.

Hv. meiri hl. sjútvn. hefir hafnað þessu áliti, með því að bera fram till. um, að því verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Vilji menn líta á ástandið eins og það blasir við núna, þá er óþarfi að viðhafa slíka afgreiðslu þessa máls. Stuðningsmenn stj. hér eru nú að ráða niðurlög um þessu máls í hv. deild. Það er öllum orðið ljóst, að þinginu verður slitið einhvern næstu daga, og fleiri mál verða þá ekki afgr. Þess vegna er þessi rökst. dagskrá alveg þýðingarlaus. Skal ég því ekki ræða um hana frekar.

En þótt séð sé fyrir endann á þessu sanngirnismáli hér á þessu þingi, vil ég samt leggja áherzlu á, að það er engan veginn séð fyrir endann á því fyrir það. Góðum málefnum fylgir einu sinni svo mikill styrkur, að hann hlýtur fyrr eða síðar að leiða málin heilu og höldnu í höfn. Svo mun og fara um þetta þjóðþrifamál. Þegar landsmenn hafa fundið, að brýn þörf einhverra aðgerða er óhjákvæmileg, þá er gagnslaust að leggjast á móti málinu. Það verður þá aðeins tafið, en ekki drepið. Enda þótt málið verði ekki afgr. á þessu þingi, hefir samt mikið unnizt á við flutning þess. Það, sem hefir sérstaklega þokað þessu máli áfram, er áskorun þúsund, manna úti um allt land um, að hv. Alþ. sinni því eitthvað. Ég hygg, að hv. þdm. muni vera kunnugt um það, að á skömmum tíma hafa borizt áskoranir til þingsins um samþykkt frv. frá þúsundum manna við sjávarsíðuna. Þetta fólk skilur, að það, sem á milli ber í þessu máli hér á hv. þingi, er það, hvort leyfa eigi þessu fólki að draga fram lífið á eðlilegan hátt, eins og verið hefir undanfarið, eða hvort ríkið eigi að fá heimild til þess að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir, að svo geti orðið. Þetta er það stærsta, sem unnizt hefir á í þessu máli, enda þótt tekizt hafi að hindra framgang málsins á þessu þingi.

Í öðru lagi hefir það áunnizt, að annar bankinn a. m. k., og í rauninni báðir, hafa lýst yfir því, að þeir mundu ekki hindra það, að sjávarútvegurinn geti gengið sinn vanagang á næst, ári.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að skuldir útgerðarmanna, sérstaklega þeirra smærri, eru ekki allar bankaskuldir. Mikill meiri hl. skulda stórútgerðarmanna er í bönkunum, en þeir smærri skulda verzlunum einnig stórfé, svo að það eru fleiri en bankarnir, sem geta gengið hart að þeim með skuldainnheimtu. Það er engum vafa undirorpið, að næstu vertíð verður mun erfiðara heldur en undanfarið fyrir útgerðarmenn að fá lánaðar útgerðarvörur, vegna þess að alltaf harðnar í búi hjá þeim. Þess vegna vil ég nota tækifærið og bera fram ákæru á hendur andstæðingum Sjálfstfl. hér á þingi fyrir það að hafa ekki sinnt að neinu þeim málum, sem hafa verið fram borin og mþn. í sjávarútvegsmálum hefir undirbúið. Má þar sérstaklega tilnefna frv. um rekstrarlán til smáútvegsins, því að það er vitanlegt, eins og áður hefir verið tekið fram, að það er einmitt smáútvegurinn, sem mest hefir gert að því að taka lán utan bankanna, og eins og oft hefir verið tekið fram í sambandi við þetta frv., eru það lánsfjárvandræðin, sem eru þess valdandi, að smáútvegsmenn verða víða að sæta miklu verri kjörum um kaup á útgerðarvörum en vera myndi, ef hægt væri að láta staðgreiðslu koma fyrir þessar vörur.

Þriðja atriðið, sem ég tel vera ávinning fyrir þetta mál og áunnizt hefir bæði við umr. á þingi og eins utan þings, það er í því fólgið, að andstæðingur málsins hafa að nokkru leyti misst kjarkinn. Óvildin gegn því hefir smátt og smátt snúizt upp í flótta, og ég hygg, að nú séu fáir, sem þora að láta í ljós undstöðu sína við þetta mál. En það má vera, að reynt verði að gera úrlausnina sem gagnsminnsta. Til þess bendir það, að þetta nál., sem ég gerði að umtalsefni í fyrri hluta ræðu minnar, talar um 1½ milljón kr. til skuldaskila sjávarútvegsins. Ég hefi bent á það áður, að það vakir fyrir andstæðingum þessa máls, að kreista út úr sér svo auðvirðilega hjálp til útgerðarinnar, að hún yrði aðeins kák eitt.

Ég vil taka það fram, að þeir, sem eiga alla sína afkomu undir sjávarútveginum, munu vafalaust ganga svo fast eftir sínum rétti í þessu máli, að það verði undir öllum kringumstæðum knúð fram á endanum.