14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (4162)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Það var farið að draga niður í hv. 6. þm. Reykv. í lok ræðu hans, enda er hann búinn að sýna mælsku sína í tæpar tvær klst. hér í d. á þennan einstæða hátt, sem honum er laginn. Þessi hv. þm. hefir hrúgað saman meiri ósvífni og ljótara orðbragði í umr. um þetta mál heldur en dæmi eru til í nokkurri þingræðu, ef til vill að nokkrum hans fyrri ræðum undanskildum. Ég vil undirstrika það, að hver sá, sem telur sig hafa góðan málstað, má biðja forsjónina um að vernda sig frá því óláni, að hv. 6. þm. Reykv. gerist málsvari hans. Allur málflutningur þessa hv. þm. sýnir þetta ljóslega og sannar.

Ég sé enga ástæðu til þess að fara út í mörg atriði í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann talaði ákaflega digurbarkalega um það rökstudda nál., sem fyrir liggur í þessu efni. Hann fullyrti, að nál. væri níðrit, spunnið upp úr fágætum dónahætti, morandi af vísvitandi lygi. Þannig var tónninn yfirleitt í ræðu hv. þm. Hann hélt því einnig fram, að í sjútvn. hefði komið fram óvilji í garð þessa máls. Ég mótmæli þessu harðlega og vitna bæði til þess, sem ég hefi áður sagt, til ummæla hæstv. atvmrh. og til bókunar á fyrsta fundi sjútvn., þegar málið var tekið til meðferðar þar. Ennfremur get ég, til þess að sanna ósanngirni hv. 6. þm. Reykv. í þessu máli, vitnað til nál. sjútvn., þar sem beinlínis er bent á það, að það þurfi nauðsynlega að leysa úr skuldavandræðum vélbátaútvegsins. Þetta er allt rakið í nál., og hv. 6. þm. Reykv. hefir viðurkennt þann gang málsins, sem þar er haldið fram.

Það, sem á milli bar hjá okkur hv. 6. þm. Reykv. í þessu máli, var það, að hv. þm. vildi, að gengið væri frá afgreiðslu þessa máls á yfirstandandi þingi, en meiri hl. sjútvn. hélt því fram, að svo væri áliðið þingtímann, að ekki væri unnt að koma fram skuldaskilum fyrir þessa vertíð, og þess vegna væri ástæðulaust að samþ. frv. á þessu þingi, ekki betur undirbúið af hálfu mþn. en raun ber vitni um.

Hv. 6. þm. Reykv. hefir viðurkennt tvö höfuðatriði í nál. meiri hl. n. Það fyrra er, að ekki sé hægt að koma fram skuldaskilum fyrir þessa vertíð, enda þótt frv. hefði verið gert að lögum, og það jafnvel tiltölulega tímanlega á þessu þingi. Hitt atriðið, sem hv. þm. hefir og viðurkennt, er, að skuldaskilin séu aðeins nokkur hluti þess, sem gera þarf sjávarútveginum til viðreisnar, ef byggja má á skýrslum mþn. í þessum efnum. Um þetta atriði fórust hv. 6. þm. Reykv. þannig orð, að n. hefði tekið fram, að þýðingarlaust væri að láta fram fara skuldaskil, nema því aðeins, að jafnframt væri færður niður allur kostnaðarliðurinn fyrir útgerðina. Um þessi tvö atriði málsins eru bæði meiri og minni hl. sjútvn. sammála.

Í nál. er bent á þá veilu, sem kom fram í till. mþm. í sjávarútvegsmálum, að koma ekki með neinar frambærilegar till. í þessu máli. Það er gengið framhjá því, að samkv. skýrslum, sé á annað borð eftir þeim farandi, verður útkoman á rekstri útgerðarinnar árin 1930, 1931 og 1932, eins og tekið er fram í nál. meiri hl. sjútvn., sú, að enda þótt útgerðin yfirleitt hefði ekkert þurft að borga í vexti af skipunum, þá væri samt mikill rekstrarhalli á útgerðinni. Það hefir komið í ljós, að aðeins í þrem flokkum hefir það komið fyrir á einu ári, að vextir hafa verið hærri en tekjuhallinn. Í öllum hinum flokkunum hefir öll árin tekjuhallinn verið langtum hærri en vaxtaútgjöldin. Segi þá hver, sem vill, að skuldaskilin séu einu verulegu bjargráðin fyrir útgerðina.

Mér er ljóst, að óhjákvæmilegt er að framkvæma skuldaskil útveginum til hagsbóta, en ég er jafnsannfærður um hitt, að þau eru einungis lítill hluti af öllu því, sem gera þarf sjávarútveginum til viðreisnar, til þess að bæta rekstrarhalla hans. Það, sem fyrst og fremst er áríðandi atriði í þessu efni, er það, að séð verði um, að útgerðin fái allan verzlunarhagnaðinn, bæði af seldum vörum og keyptum. Ég veit vel, að hv. þm. viðurkennir það, ef ég tala um það við hann í einrúmi, að það eru engin líkindi til þess, að nein útgerð geti borið sig hér á landi, nema hún njóti sjálf rekstrarhagnaðarins. Það er fyrsta og fremsta skilyrðið fyrir því, að útgerðin geti borið sig.

Hv. 6. þm. Reykv. bar fram ákæru á hendur meiri hl. sjútvn. fyrir það, að hafa ekki sinnt frv. því, sem mþn. í sjútv.málum lagði fram viðvíkjandi rekstrarlánsfé. Hv. þm. vitnaði í umsögn Landsbankans í þessu efni. Hann vitnaði í umsögn Landsb. um fiskimálan.frv. og líka í skuldaskilamálinu, eins og meiri hl. sjútvn. gerði að vísu, og hann virtist vitna í umsagnir beggja bankanna um þetta rekstrarlánafrv. Landsbanki Íslands segir svo m. a.:

„..... Virðist oss, þegar frá er skilin 9. gr., að eigi sé í frv. um nein ný lagafyrirmæli að ræða eða framkvæmdir. Slík rekstrarlánafélög mun mega setja á stofn án nokkurra nýrra laga. Er þá hér aðeins um að ræða að vekja athygli á slíkum félagsskap og hvatning til þess að hann komist í framkvæmd, en það getur verið álitamál, hvort þessi leið er eðlilegust og heppilegust til þess að ná tilætluðum árangri. Teljum vér líklegt, að slíkur félagsskapur geti komið að gagni, þótt honum, eins og hér er gert ráð fyrir, sé ekki ætlað víðtækt verkefni; verður það jafnframt að teljast kostur, þar sem aukið verkefni kemur af sjálfu sér, ef vel tekst með félagsskapinn.

Að því er 9. gr. snertir, þá gerum vér ráð fyrir, að tilgangur gr. sé sá, að veita ríkisstj. sjálfri heimild til þess að afla fjár með lántöku í þessu skyni. Það þarf vart að vekja athygli n. á því, að eigi getur verið um að ræða, að ríkisstj. hafi framkvæmdir um lántöku handa bönkum, nema þá fyrir liggi tilmæli hlutaðeigandi banka.“

M. ö. o., Landsbankastjórarnir leggja þann dóm á þetta, að frv. feli ekkert annað í sér en það, sem hægt yrði að framkvæma samkv. núgildandi lögum.

Útvegsbankinn bendir á, að æskilegt væri, að lánsstofnanir hefðu nóg fé til þess að geta lánað til útgerðarinnar, en það bendir bankinn á, að sé ekki fyrir hendi.

Ef rekstrarlánafrv. hefði bent á fjáröflunarleið, til þess að útgerðarmenn gætu fengið meira rekstrarfé, þá væri öðru máli að gegna. En það er ekki því að heilsa. Frv. er því, eins og það kemur frá n., algerlega tilgangslaust og gagnslaust. Ég hygg því, að ákæra hv. 6. þm. Reykv. á hendur meiri hl. sjútvn. hafi ekki við nein frambærileg rök að styðjast.

Annars vildi ég spyrja hv. 6. þm. Reykv. að því, hvar bent sé á það í skýrslu mþn., að mikill munur sé á verði á útgerðarvörum í einstökum verzlunum. Hv. þm. var að nokkru leyti að afsaka þennan mismun, sem hann telur vera á útgerðarvörum í einstökum verzlunum. Meiri hl. sjútvn. gat þess í nál., að orsökin fyrir því, að mþn. í sjútv.málum kom ekki inn á þetta merkilega atriði í sinni till., lægi að nokkru leyti í því, að meiri hl. er skipaður úr þeim flokki, sem styðst við þá menn sérstaklega, sem fást við verzlunarrekstur. Ég veit, að hv. 6. þm. Reykv. getur ekki mótmælt þessari staðreynd með nokkrum rökum. Það er hverjum manni vitanlegt, sem eitthvert skyn ber á þessi mál, að máttarstólpar Sjálfstfl. eru þeir menn, sem verzlun stunda hér á landi. Slíkir menn geta að vísu fundizt í öðrum flokkum, en þeir eru þar ekki innviðir, eins og í Sjálfstfl. Þessa staðhæfingu vildi hv. þm. kalla heimskuleg ósannindi og fór um hana, mörgum orðum, en það er nú svo um þennan hv. þm., að hann hefir mestan part æfi sinnar lifað á þeim molum, sem dottið hafa, af borði kaupmannanna á Vesturlandi og annarsstaðar.

Ég hirði eigi um að fara út í sparðatíning um gífuryrði og ósannindaflækju þess. hv. þm. En svona rétt til dæmis um það, hvað þessum manni er algerlega meinað um að fara með rétt mál, vil ég drepa á það, að hann lagði út af því í ræðu sinni, hve kjánalegt væri að halda því fram í nál. meiri hl. sjútvn., að allur rekstrarhallinn á útgerð landsmanna væri 5 millj. króna. Þessu er hvergi haldið fram í nál. meiri hl. sjútvn. Þvert á móti. Hv. þm. byrjaði upplestur þessa kafla með því að halda fram, hve kjánalegt þetta nál. væri, þar sem sagt sé, að rekstrarhallinn af allri útgerðinni á þessum 3 árum hafi orðið 5 mill. kr. Svo heldur hann áfram og vefur í löngu máli, og endar á því að lesa upp þessi orð úr nál. meiri hl.: , ... varð samt. um 5 milljóna króna tekjuhalli á rekstri þeirra skipa, er skýrslur nefndarinnar ná yfir á þessum þremur árum“.

M. ö. o., þessi hv. þm., sem á svo bágt með að segja satt, afsannar sjálfur í sama vetfangi það, sem hann er að segja, þegar hann ber mér á brýn kjánaskap og ósannindi. Annað atriði úr skýrslu mþn., sem hv. 6. þm. Reykv. fannst ekki ástæða til, að krafizt hefði verið að væri athugað, er stjórnarkostnaður fyrirtækjanna. Og mér skildist hann vilja færa þau rök fyrir því, að ég væri forstjóri fyrir fyrirtæki, sem hefði mestan stjórnarkostnað, miðað við umsetningu, af öllum útgerðarfyrirtækjum á landinu. Ef þetta væri svo, þá væri sannarlega ástæða til þess að rannsaka þetta, hvort sem um það fyrirtæki er að ræða, sem ég veiti forstöðu, eða einhver önnur, og ég geri ekki ráð fyrir því, eftir því sem framkoma hv. 6. þm. Reykv. hefir verið hér í d. og áður fyrr í langri viðkynningu, að það hafi verið af hlífð við mig, að hann sleppti að minnast á þetta atriði í sinni skýrslu. Nei, ástæðan til þess, að hann í skýrslu mþn. hefir ekki gengið inn á þessa braut, er allt önnur en sú, að hann hafi viljað hlífa mér eða mínu fyrirtæki, sem hann hefir alltaf ofsótt eftir megni. Ástæðan er sú, að þetta atriði þolir ekki dagsljósið. Það er snöggur blettur á þessu, ekki hjá Samvinnufélagi Ísfirðinga, og það veit hv. þm. ofurvel. Hann hefir um mörg ár verið skattanefndarmaður á Ísafirði og hefir getað kynnzt því, hvað kostnaðurinn er mikill. Hann hefir í gegnum skýrslur mþm. getað kynnt sér þetta og borið saman við samskonar kostnað annarsstaðar. Og það, að rekstrarkostnaður Samvinnufélags Ísfirðinga sé hlutfullslega langhæstur slíks kostnaðar hjá öllum útgerðarfyrirtækjum á landinu, sagði hv. þm. móti betri vitund, eins og svo margt annað, sem hann leyfir sér að fara með hér á Alþ. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. Ísaf. á það, að ef hann á enn mikið óflutt af ræðu sinni, væri heppilegra fyrir hann að fresta því þangað til eftir kaffihléið). Ég á einungis eftir sem svarar 10 mínútna ræðu, og vildi mælast til að fá að ljúka því nú. — Ennfremur sagði þessi sami hv. þm., að rekstrarhalli samvinnufélagsins hefði verið lagður á bæjarbúa með útsvörum. Þetta lýsi ég ósannindi. Og ég skora á hv. 6. þm. Reykv. að finna þessum orðum sínum einhvern stað. Hv. þm. vildi segja að í þessu nál. væri hlaðið skömmum á útgerðina. Ég mótmæli þessu algerlega sem tilhæfulausu. Það er engum skömmum beint til útgerðarinnar í nál., en það er haft eftir formanni Sjálfstfl., það sem hv. 6. þm. Reykv. líklega kallar skammir um útgerðina, og ef hann finnur ástæðu til þess að kvarta undan því, þá verður hann að snúa sér til hv. þm. G.-K., sem sagði hér í útvarpsræðu þau orð, sem eftir eru höfð í nál. — Hv. þm. vildi bera á móti því, að eftir till. mþn. í sjávarútvegsmálum væri skuldaböggunum velt yfir á ríkissjóðinn, og sagði, að sjávarútvegurinn ætti að greiða þetta sjálfur. Nú er það vitanlegt, að till. mþn. eru þær, að létta sérstökum skatti á sjávarútveginum, sem nú rennur í ríkissj., og tekið sé lán í því skyni að framkvæma skuldaskilin. Það er líka vitanlegt, að með þeim árangri, sem undanfarin ár hefir verið af rekstri útgerðarinnar, þá er ekki líklegt, að skuldaskilin geti bjargað útveginum þannig, að hann geti endurgreitt þetta lán. Því hlýtur það að koma á ríkissjóð fyrr eða síðar. Við í meiri hl. sjútvn. höfum lagt til, að gert yrði upp á milli stórútgerðarinnar og vélbátaútvegsins, og við höfum gert það vegna þess, að stórútgerðin er að mestu leyti rekin í ágóðaskyni fyrir einstaka menn, og hún hefir ekki verið endurnýjuð á undanförnum árum. Vélbátaútvegurinn er miklu meira rekinn í atvinnuskyni fyrir þá einstaklinga, sem að honum standa, og hann hefir verið endurnýjaður á undanförnum árum, og því leggjum við til, að hann sé fyrst tekinn til meðferðar og styrktur. Mér er óhætt að segja, að í dagskránni felst yfirlýstur vilji stjórnarflokkanna í þessu máli, og hann er sá, að málið verði tekið til rækilegrar meðferðar á næsta þingi og lagðar fyrir þingið till. um skuldaskil smáútgerðarinnar, og ég ætla, að hv. 6. þm. Reykv. geti verið mér sammála um það, að það sé æskilegt, að þessi dagskrá komi til atkv., því að í henni felst vilji þingsins, ef samþ. verður, sá vilji, sem fer í þá sömu átt, sem minni hl. sjútvn. heldur fram, þótt á nokkuð öðrum grundvelli kunni að vera, og ennfremur að taka beri til nánari athugunar og meðferðar þessi mál heldur en minni hl. hefir lagt til. Ég skal víkja að því aftur, að þar sem hv. frsm. minni hl. hefir viðurkennt 2 höfuðatriði í nál., þá er ekki eins mikið, sem á milli ber, og hann vill vera láta. Það er að vísu talsvert, að meiri hl. vill ekki láta ríkissjóð taka að sér skuldir stórútgerðarinnar, álítur, að það eigi að vera hlutverk bankanna og eigendanna að gera það. En í dagskránni felst, eins og ég tók fram áðan, mjög rækilegt aðhald til ríkisstj. um það, að láta fara fram rannsókn á þessum málum og leggja fram till, um skuldaskil vélbátaútgerðarinnar.

Ég get sleppt því alveg hér að tala um það. hvort þessi skýrsla mþn., sem hér liggur fyrir, er rétt eða ekki. Ef hv. 6. þm. Reykv. hefði hér verið einn að verki, þá myndi ég vegna langrar viðkynningar mjög geta dregið það í efa, og ég vil segja það, að ég tel það, að setja þennan hv. þm. til slíkra starfa, raunverulega fullkomið hneyksli. Hv. þm. gengur afarilla að fara með rétt mál, hvort heldur í ræðu eða riti, og það liggur við, að sá brestur hans gangi svo langt, að skipun hans í þessa n. megi jafna við það hneyksli að senda Lauga landa til útlanda í erindum síldarútvegsins. Fyrrv. dómsmrh., Magnús Guðmundsson, mun hafa framkvæmt báðar þessar skipanir, og líklega að mestu leyti sama daginn, enda eru þær hliðstæðar. Nú má ekki láta útgerðina gjalda þessa óhappaverks fyrrv. dómsmrh., heldur er rétt að taka á málinu með sanngirni og festu, þannig, að þeim, sem hjálpina eiga að fá, geti orðið gagn að, og undirbúa till. svo vel, að þær geti legið fyrir næsta þingi. Þessi er vilji meiri hl. sjútvn. í málinu.