14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (4168)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning, vil ég taka það fram, að það er ekki rétt, að í nál. mþn. í sjávarútvegsmálum sé neitt skýrt frá saltverði á Hornafirði. (ÞorbÞ: Ég var að tala um nál. meiri hl. sjútvn. Nd.). Þá skal ég víkja orðum mínum á rétta leið. En einmitt í þessu nál. meiri hl., þar sem talað er um saltverðið á Hornafirði, er vitnuð í nál. mþn. í sjávarútvegsmálum. En það verður að geta þess, að það, sem stendur þar um saltverðið á Hornafirði, er ekki frá n., því að um það er getið í fylkiskjölum, sem prentuð eru með nál., sem er bréf frá fiskifulltrúa Íslands á Spáni. Nm. er ekki kunnugt um saltverðið á þessum stað og geta því enga ábyrgð á því borið, en ég geri ráð fyrir, að fiskifulltrúinn hafi skýrt rétt frá, en það má vera, að saltverðið sé annað nú. En það eina, sem nm. hafa um þetta sagt, hefi ég sagt hér í þingræðu, og það var ekki til þess að fullyrða, að þetta væri rétt hermt, heldur sagði ég það, að mér þætti ekki undarlegt, þó að saltverðið væri hærra á svo afskekktum stað, þar sem þarf að kosta flutning með sérstökum bátum eða bifreiðum, heldur en á aðalhöfnum, sem hafa góðar samgöngur. Ég vil ekki, að það standi fyrir minn reikning eða nm. nein fullyrðing um það, hvað saltverðið hefir verið, en það er álit mþn., að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til þess, að menn á svo afskekktum stöðum geti haft einhver samtök um kaup á útgerðarvörum, þannig að þær komi á ódýrari hátt heim til þeirra en nú er, meðan hver einstakur verður að sjá fyrir flutningi sinnar útgerðarvöru út af fyrir sig.