12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (4190)

53. mál, opinber ákærandi

Stefán Jóh. Stefánsson:

Fyrir síðustu kosningar lagði Alþfl. fram stefnuskrá sína fyrir næstu 4 ár. Þessi stefnuskrá, 4-ára áætlunin. tekur fram þau mál, er flokkurinn telur nauðsynlegt, að leyst verði á þessu kjörtímabili. Eitt þessara mála var skipun opinbers ákæranda. Að þessu leyti gæti Alþfl. fagnað frv. því, sem hér liggur fyrir, þar sem það fjallar um mál, sem hann hefir fyrstur tekið á stefnuskrá sína. En síðan hefir Alþfl. gengið til stjórnarmyndunar með Framsfl., og var þá gerður samningur um nokkur mál, er stj. skyldi koma fram, en þar á meðal var breyting á réttarfarslöggjöfinni, bæði í einkamálum og opinberum málum.

Hér ræðir nú um eina breyt. á þessari löggjöf, sem æskilegt er, að komist sem fyrst til framkvæmda og er í sjálfu sér nokkurs virði. En ég tel það vafa bundið, hvort ástæða er til að taka þetta eina atriði út úr, því að ef þessi stj. situr áfram, mun hún að sjálfsögðu láta fram fara endurskoðun á réttarfarslöggjöfinni. Myndi þá ákvæðið um opinberun ákæranda koma þar til greina.

Ég álít sjálfsagt að vísa frv. til 2. umr. og allshn., þó að ég finni ekki ástæðu til að taka þetta atriði út úr heildinni og afgreiða það á þessu þingi. Held ég því, að ekki sé tímabært að ræða frv. í einstökum atriðum, enda þótt ég vildi hafa sum atriðin öðruvísi. T. d. þykir mér ástæðulaust að setja sérreglur um veitingu þessa embættis fremur en annara.