26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (4219)

95. mál, fátækralög

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Þetta frv., sem ég og hv. þm. A.-Sk. flytjum hér, er í sjálfu sér ekki mikið að efni til, en það breytir þó fátækralögunum fjarskalega mikið, ef að l. verður. Fátækralögin eru, eins og allir viðurkenna, orðin gamalt og útslitið fat, sem þjóðin er að sprengja utan af sér með breyttum þjóðarháttum á alla vegu. Það, sem mest ber á í þessu sambandi, er annarsvegar sveitfestitíminn og hinsvegar fátækraflutningarnir. Þegar þessu var svo háttað, að tíminn var ákveðinn 10 ár, þá hefir það vafalaust byggzt á því, að með svo langri dvöl í sveitinni hafi menn átt að vera búnir að vinna henni gagn, sem hún átti svo að endurgreiða með því að ala önn fyrir þeim, ef þess þyrfti með. Hið sama má segja um það, þegar menn áttu sveitfesti þar, sem þeir voru fæddir. Það hefir byggzt á því, að foreldrarnir væru búnir að vinna sveitinni það gagn, að þeir á þann hátt öðluðust rétt til þess að fá styrk af henni handa börnum sínum, ef þau þyrftu þess með.

Eins og fólksflutningur er nú mikill milli sveita, er eiginlega ekki hægt að segja, að það sé nema tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar, sem dvelur svo lengi á sama stað, að hann fái kröfur á sveitarfélögin, sem á því byggjast, og þegar búið er að breyta l. eins og nú er búið og færa sveitfestitímann niður í 2 ár, þá er sveitfestitíminn gersamlega meiningarlaus. Það, sem því hér er farið fram á, er, að þessu verði breytt þannig, að menn eigi framfærslusveit þar, sem þeir eiga lögheimili, þegar þeir verða þurfandi sveitarstyrks.

Það hefir verið minnzt á það við mig, að þetta frv. muni ekki fá stuðning þeirra manna, sem eru frá þeim héruðum eða kaupstöðum, sem fólkið flyzt mest til, og þessi l. hafa því meiri áhrif á hvað sveitarþyngsli í framtíðinni snertir heldur en ef þetta verður óbreytt eins og það er nú. Ég á afarbágt með að trúa því, að hér á Alþ. sitji nokkur sá þm., sem ekki er víðsýnni en það, að hann sjái ekki nema út yfir sitt eigið kjördæmi, og þess vegna geri ég ráð fyrir því, þegar til kemur og menn fara að athuga þetta mál, að þá sjái þeir, að það er réttlætismál. Í þessu sambandi vil ég benda á, að einu orði, orðinu „fyrst“ seinast í 1. gr. frv. er ofaukið.

Hitt atriðið, sem um er að ræða, er afnám fátækraflutningsins. Hann fellur að nokkru leyti niður af sjálfu sér, ef sú breyt. verður gerð, að láta hvern mann verða sveitlægan þar, sem hann á heimili, þegar hann verður styrkþurfi, en þó gæti hugsazt, að þeir ættu sér stað í einstaka tilfelli með menn, er unnið hefðu sér sveitfesti áður en lög þessi kæmu til framkvæmda. Það virðist þó ekki ástæða til að álita annað en að þeir leggist svo að segja alveg niður, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Að endingu vil ég svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til allshn., að þessari umr. lokinni.