26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (4223)

95. mál, fátækralög

Þorbergur Þorleifsson:

Þessi rök, sem hv. 3. þm. Reykv. flutti hér fram gegn þessu frv., finnast mér ekki vera á nægilegum rökum byggð. Hann talaði um, að sú skammsýni mundi vera til staðar í sveitunum, að ef þetta yrði gert að l., þá mundu hefjast úr þeim feikilegir þjóðflutningar til bæjanna, sem orsökuðu það, að fólki fækkaði ennþá meira í sveitunum en verið hefir. Mér finnst nú, að þetta sé skammsýni hjá hv. 3. þm. Reykv., því að sú skammsýni er ekki til í sveitunum nú á tímum, að farið verði að flytja fólk burt úr þeim, þegar við borð liggur, að það verði sveitarstyrks þurfandi. En hitt er aftur á móti augljóst og vitanlegt, að það hafa þegar fyrir löngu síðan hafizt þjóðflutningar úr sveitunum í bæina, og það er einmitt vegna þessara flutninga, sem hafa átt sér stað og eiga sér ennþá stað, að þessi lög, sem nú eru um þetta efni, eru ekki sanngjörn. Það er mjög ósanngjarnt, að það fólk, sem flytur í kaupstaðina úr sveitunum og verður þurfandi fyrir styrk, áður en það er búið að vinna sér sveitfesti í bæjunum. skuli þurfa að hafa framfærslu í sveitunum. Sveitirnar eiga fyrst að ala fólkið upp fyrir bæina, og svo að taka við því aftur, sem ósjálfbjarga reynist í hinni hörðu lífsbaráttu í bæjunum. Þannig verður þetta í framkvæmdinni samkv. þeim lögum, er nú gilda. Annars skoða ég þetta mál ekki sem hreppapólitík milli sveita og kaupstaða, heldur sem fullkomið réttlætismál, sem allir hljóta að sjá, að á rétt á sér.

Það er hægt að sýna fram á það með mörgum dæmum, að þetta ákvæði l. um 2 ára sveitfesti tíma er óréttlátt, og ég skil ekkert í þeim mönnum, sem vilja ekki sýna sanngirni í þessu máli, því að það er fyrirsjáanlegt, að verði þessu ákvæði l. haldið, þá verður það til stórkostlegra vandræða fyrir ýms sveitarfélög, vandræða, sem verður þá að leysa á einhvern annan hátt.

Hv. 3. þm. Reykv. kom ekki með önnur rök en ég hefi þegar nefnt, og sé ég því ekki ástæðu til þess að svo vöxnu máli að fjölyrða meira um það, en ef hann eða aðrir flytja hér fram önnur rök gegn því, þá mun ég taka þau til athugunar.