20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (4239)

157. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Það er tvennt, sem ég vildi benda á í sambandi við þetta mál; í fyrsta lagi finnst mér, að með því að taka það á dagskrá nú, þá líti ekki út fyrir, að tíminn sé eins naumur og af er látið, og í öðru lagi þegar þm. er haldið þreyttum og svefnlitlum yfir þrálátum fundahöldum langt fram á nætur, væri nær að nota betur hábjartan daginn en að þvæla um annan eins hégóma og þetta frv. Það ætti heldur að nota hádegisstundina og birtuna, því það gæti þá fremur verið einhver vitglóra til staðar, heldur en þegar menn eru búnir að hanga á fundum fram á nætur. Ég vildi beina því til hæstv. forseta, hvort ekki væru þarfari mál óafgr., sem meiri ástæða væri að taka fyrir.

Hitt er annað mál, að það sýnir sig átakanlega ljóst, að frv. er flutt af einskærri hræsni, þegar flm. leggja sjálfir til að ganga af því dauðu.

Ég held, að hér liggi nú fyrir nokkurnveginn afhjúpuð öll sú hræsni og sá yfirdrepskapur, sem alltaf hefir fylgst málinu, frá því fyrst að það kom fyrir þingið.