26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (4241)

100. mál, framfærslulög

Þorbergur Þorleifsson:

Það var ekki rétt hjá hv. 6. landsk., að brtt. þær, sem hér hafa verið bornar fram í þinginu í frv. okkar hv. 2. þm. N.-M. við fátækral., séu bornar fram út í loftið. Þær breyt., sem gert er ráð fyrir í þessu frv. okkar hv. 2. þm. N.-M., eru alls ekki út í loftið, enda þótt þær feli ekki í sér heildarlausn þessa máls, svo sem hér er gert. Í frv. okkar er gert ráð fyrir bráðabirgðaumbótum, sem eiga fullan rétt á sér. Hinsvegar get ég viðurkennt, að það verður alltaf hálfgert kák að vera með bráðabirgðabreyt. á málum, sem þurfa algerðra breyt. við. Annars get ég lýst því yfir, að ég er þessu frv. fylgjandi í meginatriðum og vildi stuðla að því, að það næði fram að ganga á þessu þingi. En fari svo, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ekki mundi takast að leysa þessi mál til fullnustu nú á þinginu, þá vænti ég þess, að þær brtt., sem ég og annar hv. þm. höfum flutt við fátækral., nái fram að ganga.

Ég vildi minnast á eitt atriði í þessu frv., sem hæstv. fjmrh. fór að vísu út i, en ég held, að þurfi frekari ath. við. Það er um þetta 10 kr. gjald á mann; það er vafalaust allt of hátt sett fyrir ýms sveitarfélög, og verður að breyta því, ef fram nær fram að ganga. Líka má benda á, að tryggingarlöggjöfin er svo skyld þessari, að eiginlega þyrfti að leysa þau mál samtímis. Er leiðinlegt, að nú skuli ekki liggja fyrir þinginu frv. til tryggingarl. Þetta eru orðin mjög aðkallandi verkefni, og ég er á þeirri skoðun, að með fullkominni lausn fátækra- og tryggingarmálanna megi að allnokkru leyti útrýma fátæktinni hér á landi.

Hv. 6. landsk. gat þess, að kaupstaðirnir þyrftu að framfleyta fólki fyrir sveitirnar án þess að fá það endurborgað. Það getur verið, að þetta eigi sér stað. En mér er líka kunnugt um, að sveitirnar fá ekki alltaf greitt frá kaupstöðunum það, sem þeim ber hlutfallslega af útsvörum þaðan, og ennfremur, að sumar sveitir fá ekki alltaf greitt það, sem þær leggja út fyrir önnur sveitarfélög. Það er engin sérstaða fyrir kaupstaðina, þótt þeir kunni að þurfa að borga einhvern framfærslukostnað fyrir sveitarfélög án endurgreiðslu, heldur mun það vera sitt á hvað. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum við þessa 1. umr. málsins.