20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (4243)

157. mál, lýðskóli með skylduvinnu nemenda

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Mér finnst hafa komið hér fram enn ný sönnun í málinu, um hve mikil alvara er á bak við flutning þess, þegar flm. telja bezt, að ekki sé á það minnzt.

Hv. frsm. sagði, að ég hefði verið stuðningsmaður þessa máls á undanfarandi þingum. Ég reyndi þá að koma málinu inn á rétta braut, með því að veita Rangárvallasýslu heimild til slíkra framkvæmda. Málið er þar fætt og sýslumanni Rangæinga bezt treystandi til að koma því til framkvæmda, og mér er ekki kunnugt, að fyrir utan þá sýslu hafi það fengið nokkrar undirtektir eða fylgi, sem nokkur alvara hefir verið á bak við, og ég efast um, að í Rangárvallasýslu hafi fundizt nema einn maður, sem hefir staðið á bak við frv. Ég vil því endurtaka það, sem ég sagði áðan, að frv. er ekki vísað til stj. til þess, að hún greiði fyrir málinu, heldur komi þar fram hjá flm., að þeir þurfi að nota hræsni, og þeir geta alltaf falið hræsnina á bak við það, að málið sé komið í hendur stj. og því sé ekki ástæða til þess að taka það upp á ný. Ætli þetta sé ekki ástæðan?