26.10.1934
Neðri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (4249)

100. mál, framfærslulög

Hannes Jónsson:

Ég vil aðeins taka það fram út af þeim umr., sem orðið hafa nú um þetta mál, að mér finnst það væri ástæða til að athuga, hvort ekki ætti að skipta framfærsluhéruðum landsins í flokka, t. d. þannig, að kaupstaðirnir væru sér í flokki og fundið væri út meðaltal af framfærslukostnaði þeirra út af fyrir sig, og það, sem ríkið kæmi til með að endurgreiða þeim, væri svo aðeins það, sem færi fram yfir það meðaltal, hvort sem Rvík væri þá tekin út úr og gert að greiða eitthvað meira. Svo væru sveitarfélögin einn flokkur, og kæmi aðeins til að endurgreiða þeim það, sem færi fram yfir þeirra meðalframfærslukostnað. Eins og Rvík hefir sérstaka aðstöðu til öflunar tekna fyrir bæjarfélagið á þann hátt, sem hv. 6. landsk. sýndi fram á, þannig eru líka flestir kaupstaðirnir betur settir heldur en sveitarfélögin um öflun tekna til sinna útgjalda, einmitt vegna þess, að þeir geta náð í menn úr sveitunum til skattaálögu gegnum þá verzlun, sem sveitirnar verða að sækja til kaupstaðanna. Þetta er sérstaklega áberandi þar, sem hagar til eins og t. d. í Eyjafirði, þar sem nær allt hið stóra hérað sækir alla verzlun til Akureyrar. Þessa aðstöðumunar verður að taka tillit til, þegar meta skal möguleika hinna ýmsu framfærsluhéraða til þess að standa undir sínu fátækraframfæri. Ég vildi benda á þetta, til þess að það yrði tekið til ath. í n. í samb. við öll þau frv., sem fyrir þinginu liggja um þetta efni.

Ég vil einnig benda á, af því ég hefi ekki orðið var við, að það hafi komið fram í þessum umr., að þegar sveitfestitíminn er afnuminn, þannig að hver maður sé sveitlægur þar, sem hann á heimili, þá væri ekki ósanngjarnt, til þess að vega ofurlítið á móti, að setja búsetuskilyrði, sem orðið gæti nokkur hemill á óhæfilegu aðstreymi fólks til kaupstaðanna. En þá yrði jafnframt enn meira knýjandi þörf á því, að ríkið tryggi það, að fólkið geti stofnað heimili þar, sem það er alið upp, í smáþorpunum og sveitunum. Það yrði að veita fólki meiri hjálp heldur en hingað til hefir verið gert til þess að stofna ný heimili á sínum æskustöðvum. Slíkar ráðstafanir gætu orðið kaupstöðunum hin bezta hjálp. Með þeim væri unnið fyrir sig fram, líkt og þegar reynt er að forða fólki frá því að verða sjúkt, til þess að þurfa ekki að leggja því stórfé, þegar það er orðið ófært til að sjá fyrir sér sjálft. Það verður að reyna að fyrirbyggja þann sjúkdóm í þjóðfélaginu, að bæirnir verði of mannmargir samanborið við sveitirnar, að jafnvægið milli sveita og kaupstaða og í atvinnuháttum þjóðarinnar raskist.