15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (4266)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Magnús Torfason:

Það hafa orðið talsverðar umr. um þetta mál, sérstaklega þó brtt. þá, sem komið hefir fram frá tveimur hv. þm. Það er því kannske að bera í bakkafullan lækinn að fara að bæta miklu við þær. Að ég tek til máls, er sakir þess, að mér finnst málið vera rætt á skökkum grundvelli. Fyrir hönd mína og minnar stéttar vil ég láta í ljós gleði yfir því, að þetta frv. er komið fram, þar sem svo er ákveðið, að við sýslumenn fáum 6% fyrir að innheimta gjöldin, því að sú stefna hefir til þessa verið uppi, að klípa af þeim allt, sem unnt hefir verið, en hlaða þó á, þá störfum, eftir því sem föng hafa verið á. Hér virðist því nýrri stefnu vera að skjóta upp, sem ég hygg, að sé flutt að yfirlögðu ráði. Í fyrra var skrifstofufé sýslumanna fastákveðið með lögum; þangað til gat stj. mjakað því til, eftir því sem störf hlóðust á sýslumennina. Er því tekið fyrir þetta, og vitanlega gengur erfiðlega að hækka laun þessarar stéttar. Býst ég því við, að hér sé verið að fara inn á leið til þess að bæta sýslumönnum nokkuð upp, og get ég því ekki annað en verið ánægður f. h. stéttar minnar, þó ég hinsvegar búist ekki við að njóta lengi þessa launabætis, því að ég er nú þegar orðinn nokkuð gamall, eins og á grönum má sjá. Annars hefi ég ekki sótzt eftir innheimtum, því að ég hefi talið mig hafa þær nógar samt. Því til sönnunar vil ég geta þess, að ég hefi látið hreppstjórana halda öll lausafjáruppboð í Árnessýslu, síðan ég kom þangað. Mér virðist líka rétt, að lögreglustjórarnir hlynni að hreppstjórunum eftir föngum, svo smánarleg sem laun þeirra eru.

Að vera því að bregða sýslumannastéttinni um það hér á Alþingi, að hún vilji komast hjá þessari innheimtu, er ekki rétt. Ég fyrir mitt leyti get ekki haft neitt á móti henni, sérstaklega líka þegar miðað er við innheimtu ellistyrktarsjóðsgjaldanna, sem sýslumenn fá 2% fyrir, en verða þó oft að greiða nokkuð af því gjaldi úr sínum eigin vasa, eins og hv. þm. Barð. tók réttilega fram. Í þessu sambandi vil ég taka það fram, að mér finnst, að farið væri dálítið öfugt að, ef nú ætti að fara að láta hreppstjórana innheimta ellistyrktarsjóðsgjöldin, því upphaflega höfðu þeir á hendi innheimtu þessara gjalda, og höfðu 4% fyrir, en sakir óreiðu á innheimtunni hjá þeim varð að taka hana af þeim og fela sýslumönnum fyrir helmingi lægra gjald. (BJ: Það er átt við að láta oddvitana gera þetta). Já, því trúi ég, en það held ég nú að væri að bæta gráu ofan á svart; því að nóg hafa þeir á sinni könnu fyrir. — Svo ég komi að málinu aftur, þá eru ekki öll ómök tekin af sóknarnefndunum, þó að létt sé af þeim innheimtu prestlaunasjóðsgjaldanna, því að þá eru eftir kirkjugjöldin o. fl. o. fl. Við, sem kunnugir erum þessum málum, vitum það vel, að þessi prests- og kirkjugjöld eru oft á tíðum ekki nema lítill hluti af þeim gjöldum, sem sóknarnefndirnar innheimta. Þannig þurfa þær að innheimta: Kirkjugarðsgj., sönggjald, og þegar nýjar kirkjur eru byggðar, þurfa þær oft að innheimta mikið fé. þessi 1/50 á gjaldskylt sóknarbarn er því ekki nema sáralítill hluti af þeirri innheimtu, sem þær hafa með höndum, og munar þær því litlu, þó að því sé létt af þeim. Ég verð því að leggja eindregið með því, að brtt. á þskj. 412 verði samþ., og þar farið eftir þeirri góðu reglu, sem á að hafa í heiðri, að breyta ekki meiru en þörf er á til þess að breytingin komi að notum. Komi það svo í ljós síðar, að breyta þurfi meiru um innheimtu þessa gjalds, þá er að gera það, en ennþá er mér ekki kunnugt um, að sóknarnefndir hafi beðizt undan þessari innheimtu, og því virðist ástæðulaust að létta henni af þeim. Það er ekki annað en tala, sem sóknarnefndirnar þurfa að bæta við sínar skýrslur. Að öðru leyti er ómakið alveg það sama.