15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (4270)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Ég get tekið undir það, að hér séu orðnar óþarflega langar umr. um ekki stærra atriði. En ég vil aðeins benda á, að aðalatriði málsins er það, sem kom fram hjá hv. 2. landsk., að með því að leggja niður prestlaunasjóð er búið að gera sóknargjöldin beinlínis að ríkissjóðsgjöldum, og er því ástæðulaust að undanþiggja sýslumenn innheimtu þeirra frekar en annara samskonar gjalda í ríkissjóð. En það er misskilningur hjá hv. þm. Borgf., að þessi skoðun mín stafi af ágirnd hjá mér. Mig langar ekkert til þess að fá þessa innheimtu í viðbót við aðrar. Mér finnst það bara sjálfsagt, að sýslumenn innheimti þessi gjöld ásamt öðrum ríkissjóðsgjöldum, því það er einfaldara heldur en að vera að bauka með það út af fyrir sig af mismunandi færum sóknarnefndarmönnum. Og ég skil ekkert í hv. þm. Borgf., að hann skuli ekki geta skilið, að hér er alls ekki um neitt aukið ómak fyrir hreppstjóra að ræða.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að ég mundi ekki hafa lesið brtt. sína, þar sem sóknarnefndum væri gert heimilt að gera sýslumönnum skil fyrir þessum gjöldum. Jú, ég hefi nú reyndar lesið hana, en þetta er bara til þess að gera enn þá meiri rugling. Það ætti þá að skylda sóknarnefndir til þess að senda gjöldin til sýslumanns, til þess að skilin kæmu í einu lagi til ríkisféhirðis.

Ég ætla ekki að fara að þrátta við hv. þm. Borgf. um burðargjöldin. Það er síður í þeirri sýslu, sem ég er sýslumaður, að hver einasti hreppstjóri lætur endurgreiða sér burðargjöldin. Bréfin koma oft ófrímerkt til mín, en þjónustufrímerki koma á minn reikning. Ég dáist að þeirri ósérplægni hv. þm., að hann skuli hafa alla sína löngu embættistíð borgað undir bréfin sjálfur, því það var alger óþarfi. Mér fyndist hann ætti því að taka þetta saman eftir getu og reyna að fá það endurgreitt.