15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (4280)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Sk. og hv. 6. landsk. reyna að gera sér mat úr því, að við skulum deila, bændaflokksmennirnir. Þetta sýnir spilltan hugsunarhátt embættismannaklíkunnar annarsvegar og jafnaðarmanna hinsvegar, þar sem þeir finna sér skylt að þegja yfir öllu, sem þeir telja ekki rétt hjá sínum mönnum. Það er ekki von, að vaxi mörg falleg blóm í aldingarði þessara manna. En það, sem ég minntist á, átti ekki sérstaklega við minn flokksmann hér, heldur við stéttina. En hann viðurkenndi nú einmitt, að ég hefði farið með rétt mál, þegar hann sagði, að hann hefði fengið stj. til að hækka skrifstofuféð. Það var ekki annað eða meira, sem ég sagði. En hvernig gat stj. orðið við þessum óskum hans nema taka féð á óleyfilegan hátt, þegar sú fjárveiting var þrotin, sem til þessara útgjalda var ætluð? Hann sagðist hafa sagt forsrh., að hann mundi gera þetta að umtalsefni hér á þingi, ef hann fengi ekki vilja sínum framgengt. Ég veit ekki, hvort hann hefir beitt fleiri hótunum, en stj. fór eftir tilmælum hans án þess hún hefði rétt til. Líkt er að segja um hv. þm. V.-Sk. Ég get sannað með tölum og sýnt fram á, að hann hefir ekki hlífzt við að taka það, sem hægt var að taka, og jafnvel það, sem ekki var hægt að taka. Þessi hv. þm. sagði, að ég væri að tala um það, sem allir væru sammála um. Hann telur þá ekki hv. þm. Borgf., sem sagði, að þetta mál hefði engan rétt á sér. Mér finnst hann sýna þessum flokksbróður sínum talsverða lítilsvirðingu, þar sem hann telur hann ekki með, eins og það skipti engu máli, hvað hann glamrar.

Út af þessari brtt., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að hún er ekki í því formi, sem hún ætti að vera, en það mætti ná tilgangi hennar með því að breyta henni. En eins og ég sagði áður, er hér ekki um neitt höfuðatriði að ræða. Þessir aðilar hafa svipaða innheimtu að inna af hendi, og er því hér um aukið starf að ræða fyrir hvorugan. Virðist ástæðulítið fyrir þá að togast á um þetta. Þá kem ég að því, hvort prestlaunasjóður sé til eða ekki. Það má auðvitað toga og teygja. Hv. þm. Borgf. veit, að sjóðurinn hefir aldrei verið til nema að nafninu. Hér er aðeins um pappírsgagn að ræða, því að ríkissjóður hefir staðið undir öllum greiðslum, sem prestlaunasjóði var ætlað að inna af hendi. Tekjur hans hafa aldrei verið annað en brot af því, sem honum var ætlað að standa undir.

Ég skal til frekari áréttingar gagnvart sýslumönnunum og skrifstofukostnaði þeirra benda á þær tekjur, sem þeir hafa af innheimtu tolla, og ég skal sýna, ef óskað verður, hvað sýslumenn hafa fengið borgað af tolltekjum. Annars skal ég ekki vera að elta ólar við þessa hv. þingbræður mína. Þeir mega togast á um það fyrir mér, hvort innheimtan skuli vera hjá sóknarnefndum eða sýslumönnum, og ef þeim finnst það skipta mestu máli í frv., þá öfunda ég þá ekki fyrir skarpan skilning þeirra á málinu.